Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2009, Page 37

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2009, Page 37
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 3. tbl. 85. árg. 2009 33 Staðreyndir um Therapy Therapy-kerfið, rafrænt kerfi fyrir ávísun og skráningu lyfjagjafa, var fyrst tekið í notkun á Landspítala í maí 2003. Kerfið var þá sett upp til reynslu á A6 en nú nota nánast allar legudeildir á Hringbraut, á Grensási og í Fossvogi kerfið. Byrjað verður fljótlega að setja kerfið upp á geðsviðinu en kvennasvið á svo eftir að bætast í hópinn. Nýjar deildir fá kynningu í vikunni áður en byrjað er en einstaklingar fá kennslu eftir þörfum og starfsmenn hugbúnaðardeildar fylgjast vel með. Therapy byggist á lyfjaskráningarkerfi sem var fyrir í apótek Landspítala og var bætt við ávísun og skráningu lyfjagjafa í samvinnu við Landspítala og sjúkrahús í Hollandi og Danmörku. Ný útgáfa er væntanleg í lok 2009 og þar verða töluverðar nýjungar, þó ekki skráning vökvagjafar sem margir hjúkrunarfræðingar bíða eftir. Ekki hefur verið ákveðið hvort rafræn skráning vökvagjafar verður í Sögukerfinu eða í Therapy. Söluaðili Therapy er fyrirtækið Theriak sem er upphaflega alíslenskt en er nú hluti af CIS Health Care í Bretlandi. Óhentugt kerfi Therapy-kerfið var innleitt á Bráðamóttöku 10D á Hringbraut síðastliðið sumar. Almenn reynsla af notkun hins rafræna kerfis virtist góð á legudeildum þar sem lyfjaávísanir og lyfjagjafir eru frekar reglulegar og breytingar sjaldan gerðar oftar en einu sinni á sólarhring. Á bráðamóttöku reynir hins vegar mjög á þessa þætti því þar eru lyfjafyrirmæli tíð. Komu því veikleikar kerfisins fljótlega í ljós þar og gefur það litla yfirsýn. Á bráðamóttöku er gegnumstreymi sjúklinga mikið og það býður hættunni heim í kerfi sem þessu. Tölvur eru hvorki til staðar við rúmin né aðgengilegar öllum þeim sem þátt eiga í meðferð sjúklingsins. Því eru lyfjafyrirmæli oft ekki skráð í rauntíma og urðu flest fyrirmæli munnleg stuttu eftir innleiðingu kerfisins og treyst á rétta skráningu eftir að lyfið hafði verið gefið. Þar sem oft er mikið álag á deildinni leið iðulega langur tími frá lyfjagjöf til lyfjaskráningar. Fór það jafnvel svo að þegar loks gafst tími til að skrá í kerfið höfðu sjúklingar þegar verið útskrifaðir. Þar sem ekki er unnt að skrá lyfjagjafir sjúklinga, sem eru útskrifaðir, urðu þarna til fjölmörg tilfelli þar sem lyfjameðferð var beitt án þess að hún væri skráð. Til að bregðast við þeim vanda, sem kominn var upp, var gefinn kostur á að hjúkrunarfræðingar settu sjálfir inn lyfjafyrirmæli í kerfið undir sameiginlegu notendanafni innan hverrar deildar (hjúkrun 10D; hjúkrun 11G). Sami möguleiki er fyrir hendi á öðrum deildum þar sem kerfið er í notkun. Þetta veldur hins vegar þeim vanda að hjúkrunarfræðingar eru í raun farnir að gefa lyfjafyrirmæli sjálfstætt og gefa lyf án skráðrar þátttöku læknis en það er afar varhugarvert fyrir hjúkrunarfræðinga og virðist með öllu ólöglegt. Önnur vandamál hafa komið upp sem tengjast einnig aðgengi starfsmanna að kerfinu. Þannig hafa komið upp ítrekuð tilfelli þar sem gefin hafa verið lyfjafyrirmæli á nafni einhvers sem farinn af vakt án þess að loka kerfinu á eftir sér. Þá er læknir eða hjúkrunarfræðingur skráður fyrir lyfjafyrirmælum sem hann hefur í raun hvergi komið nálægt. Kerfið gerir afar illa ráð fyrir endurteknum lyfjagjöfum innan hvers klukkutíma og því er nær vonlaust að sjá hversu mikið heildarmagn lyfja hefur verið gefið. Á bráðamóttöku er þetta alvarlegur galli þar sem oft þarf að „títra“ inn gjöf sterkra verkjalyfja eða hjartalyfja þar til ætluð verkun næst fram og mikilvægt er að fylgjast með hvert heildarmagn er orðið. Kerfið hefur hins vegar enga getu til að veita slíka yfirsýn. Sveima þarf yfir punktum á grafi til að sjá hvenær lyfið var gefið en jafnvel þá sést bara ein gjöf í einu og þar sem lyfjagjöf er beitt á nokkra mínútna fresti er ógerlegt að sjá rétt magn á réttum tíma á handhægu yfirliti. Til að mynda er ekki til staðar sá möguleiki að hægrismella á hvert lyf og fá fram töflu yfir lyfjagjafir í tímaröð. Leiðréttingar á rangri skráningu lyfja hafa einnig valdið óánægju notenda. Hafi gjöf verið ranglega skráð þarf að fara til baka og afskrá það í þremur skrefum. Þetta er flókið og letjandi og ýtir undir að röng skráning sé látin standa óleiðrétt. Loka þarf einum glugga til að fara í annan, þar er lyfið valið og skráning tekin til baka. Ekki er hægt að gefa til kynna af hverju skráning er tekin til baka nema með möguleikunum „ranglega skráð“ og „annað“. Telst hæpið að það uppfylli lögbundna skráningu ef lyfjafyrirmælablöðin, sem áður voru notuð, eru höfð til viðmiðunar þar sem unnt var að skrá af hverju lyf var ekki tekið eða gefið. Gunnhildur Gunnarsdóttir.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.