Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2009, Side 39
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 3. tbl. 85. árg. 2009 35
Þann 12. maí sl. sat undirrituð aðalfund
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
eftir margra áratuga fjarveru frá
félagsstarfseminni enda komin á
níræðisaldur. Skýrsla stjórnarinnar
um liðið starfsár ásamt reikningsyfirliti
fjármálastjórans þótti mér athyglisverð
vegna umfangs, skýrleika og ábyrgra
viðhorfa á erfiðum tímum sem við þjóðinni
blasa. Mig langar að þakka leiðtogum
stéttarinnar góð störf og vil í senn hvetja
til sömu stefnu.
Margar hugmyndir þjóðinni til bjargar
birtast í fréttum og í umræðu manna á
milli þessa dagana. Þótt ekki séu allir
sammála skulum við hlusta og hugsa vel
okkar mál og fylgja því svo fast eftir sem
líklegt er að gagni. Meira hugrekki þarf
stundum til við að skipta um skoðun en
halda fast í fyrra viðhorf.
Margt hefur breyst í heiminum frá því að
undirrituð lauk grunnámi í hjúkrun vorið
1952 að viðbættu ljósmæðranámi haustið
sama ár. Stórkostlegur vísindalegur
Nýafstaðinn aðalfundur er tilefni þessa pistils
en í honum er reifuð þátttaka félagsmanna í
endurreisn Íslands.
þekkingarauki hefur vissulega fengist
en viðhorf manna á vettvangi daglegs
lífs breytast ótrúlega hægt. Að fá að
lifa með reisn er sérhverjum manni öllu
öðru eftirsóknarverðara. Misrétti hindrar
þetta víða, líka á Íslandi. Framkvæmd
launajafnréttis, svo eitthvað sé nefnt,
lætur ótrúlega á sér standa. Þótt
lagaákvæði hafi breyst til batnaðar er
viðhorf einstaklinga og samfélags sá
þrándur í götu sem erfiðari er að fást
við. Nú er oft talað um NÝTT ÍSLAND
sem menn vilja byggja frá grunni. Til að
slíkt megi takast sem best og sem fyrst
verðum við að vinna saman af miklum
dugnaði, þó með umburðarlyndi hver í
annars garð. Þrátt fyrir erfiðleika megum
við ekki eitt augnablik gleyma jákvæðri
hugsun því að þar leynist sterkasta aflið
í tilveru okkar.
Á fyrrnefndum aðalfundi var áhersla lögð
á mikilvægi þeirrar ímyndar sem stétt
hjúkrunarfræðinga skapar sér meðal
almennings. Markmið stéttarinnar er
að vera stöðugur verndari og málsvari
þjónustuþega hjúkrunar en jafnframt
standa vörð um stöðu og þróun
starfsvettvangsins sem fræðigreinar.
Sjúkraliðinn Helga Dögg Sverrisdóttir
ritar smágrein í Morgunblaðið 17. maí sl.
þar sem hún telur óhagkvæmt afturhald
stundum ríkjandi í verkaskiptingu og
samstarfi heilbrigðisstétta. Einmitt
á slíkum vettvangi ætti sérþekking
hjúkrunarfræðinga að gagnast með
fræðilegri yfirsýn aðstæðna samfara
jákvæðu mannvænu hugarfari. Mikilvægi
kærleika og heimilislegrar hlýju fyrir allar
mannverur, hvar sem þær dveljast, hefur
því miður dofnað við hlið vísindalegs
glæsileika og gleymst um of í gönuhlaupi
frjálshyggju græðginnar. Reynsla karla
af feðraorlofi hefur gefið góða raun hvað
snertir skilning þeirra á þörfum barna.
Háskólagráður hjúkrunarfræðinga eiga
að efla snilld þeirra í stjórnun umhyggju
á sviði heilbrigðisþjónustu hvort heldur
er innan sjúkrastofnana, vistheimila eða
í heilsuvernd.
Sýnum djörfung og dug – stöndum
saman af heilindum – þótt við getum
ómöglega alltaf öll verið sammála.
Elín EggerzStefánsson er hjúkrunar
fræðingur og ljósmóðir á eftirlaunum.
Elín Eggerz-Stefánsson
HJÚKRUN Á NÝJU ÍSLANDI