Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2009, Side 43
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 3. tbl. 85. árg. 2009 39
Ritrýnd fræðigrein
INNGANGUR
Erlendar rannsóknir hafa sýnt að sálræn áföll í bernsku geta
haft mjög víðtækar og alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar og
líðan (Fagan og Freme, 2004; Scaer, 2001). Börn verða fyrir
sálrænu áfalli þegar þau verða fyrir kynferðislegu ofbeldi og geta
afleiðingar þess verið mjög alvarlegar (Golier, Yehuda, Bierer
og Mitropoulou, 2003). Kynferðislegt ofbeldi í bernsku er ógn
við persónuleg mörk og tilveru barna og viðbrögðin einkennast
af miklum ótta, hjálparleysi og skelfingu. Börn geta einnig orðið
fyrir áfalli við kynferðislegar athafnir sem hæfa ekki þroska
þeirra þótt það sé ekki með ofbeldi. Í öllu ofbeldi virðist skaðinn
líklegur til að verða mestur og djúpstæðustu afleiðingarnar
eiga sér stað þegar sá sem brýtur á fórnarlambinu stendur því
nærri, til dæmis náinn vinur eða ættingi (Scaer, 2001).
Við áfall bregst líkaminn ýmist við með því að berjast, flýja
eða frjósa og, þegar líkaminn getur hvorki flúið né barist, þá
frýs hann. Þau sem upplifað hafa mikið áfall finna oft fyrir
skömm og sektarkennd yfir því að hafa frosið, hafa ekkert
gert til að vernda sig eða aðra með því að berjast á móti eða
flýja. Langvinnt álagsástand verður hjá einstaklingnum og
áfallastreituröskun þróast sem síðan leiðir af sér ýmis geðræn
og líkamleg einkenni (Rothschild, 2000). Levine og Frederick
(1997) segja tvær ástæður fyrir mikilvægi þess að frjósa,
það sé neyðarvörn til að lifa af þar sem einstaklingurinn fer í
huglægt ástand þar sem hann finnur ekki sársauka en kemst
næst því að deyja.
Ein mesta áhætta á áfallastreituröskun er eftir kynferðislegt
ofbeldi, sérstaklega í bernsku (Norris, Murphy, Baker, Perilla,
Rodriguez og Rodriguez, 2003; Fagan og Freme, 2004;
Hetzel og McCanne, 2005). Áfallastreituröskun og ofvirkni
með athyglisbresti voru algengustu sjúkdómsgreiningar hjá
börnum sem urðu fyrir kynferðislegri misnotkun samkvæmt
rannsókn Weinstein, Staffelbach og Biaggio (2000). Ekki þróa
þó allir með sér áfallastreituröskun í kjölfar kynferðislegrar
misnotkunar. Þættir eins og árangursrík varnarviðbrögð, þroski,
trú, fyrri reynsla, innri styrkur, aðlögunarhæfni og stuðningur
frá fjölskyldu og samfélagi geta hindrað eða komið í veg fyrir
áfallastreituröskun (Rothschild, 2000).
Langvarandi afleiðingar kynferðislegs ofbeldis i
bernsku
Megindlegar rannsóknaraðferðir hafa einkum verið notaðar
til að rannsaka langvarandi afleiðingar kynferðislegs ofbeldis
í bernsku. Skipta má niðurstöðum þessara rannsókna í
líkamleg, geðræn og félagsleg einkenni og áhrif á kynlíf (sjá
töflu 1). Rannsóknir á langvarandi áhrifum kynferðisofbeldis
hafa hingað til einkum beinst að konum sem beittar hafa
verið slíku ofbeldi. Ástæðan er sú að stúlkubörn eru oftar
fórnarlömb kynferðisofbeldis en drengir. Yfirlitið í töflu 1 beinist
því að langvarandi afleiðingum kynferðisofbeldis í bernsku
á konur. Þar sem flestar rannsóknanna eru megindlegar er
þörf á eigindlegum rannsóknum á þessu sviði þar sem þær
svara rannsóknarspurningum sem ekki er hægt að svara með
megindlegum rannsóknaraðferðum.
Engin íslensk rannsókn fannst á langvarandi afleiðingum
kynferðislegs ofbeldis í bernsku á konur. Vert er þó að nefna
nokkrar skyldar rannsóknir. Guðrún Jónsdóttir (1993) gerði
samanburð á reynslu fólks af sifjaspelli í bernsku á Íslandi
og í Bretlandi og Freydís Jóna Freysteinsdóttir (2005) gerði
rannsókn á áhættuþáttum varðandi endurtekna misbeitingu
barna á Íslandi út frá vistfræðilegu sjónarhorni. Þá má einnig
nefna meistararannsókn Bergþóru Reynisdóttur (2003) sem
beindi sjónum sínum að þöggun þunglyndra kvenna en hún
kom inn á þessi mál. Þá hafa íslenskir þolendur vakið máls á
þessu viðkvæma málefni og má þar nefna bók Gerðar Kristnýjar
(2005) um sögu Thelmu af kynferðislegu ofbeldi í bernsku.
Markmið þeirrar rannsóknar, sem hér er kynnt, er að auka
þekkingu og dýpka skilning á reynslu íslenskra kvenna af
langvarandi áhrifum kynferðislegs ofbeldis í bernsku.
Rannsóknarspurningin var: hver er reynsla íslenskra kvenna af
langvarandi áhrifum kynferðislegs ofbeldis í bernsku?
AÐFERÐ
Rannsóknaraðferðin, sem notuð var til að svara rannsóknar-
spurningunni, var Vancouver-skólinn í fyrirbærafræði sem
ætlað er að auka skilning á mannlegum fyrirbærum m.a.
Salka Valka
„Nei ég skal aldrei gleyma því að það varst þú sem eyðilagðir alt gott og hreint og fallegt
sem ég átti í sálinni, með því að troðast eins og viðbjóðslegt kvikindi uppí rúmið okkar
mömmu“ ... „sem var þá ekki annað en barn á tólfta ári, og ég er ekki búin að ná mér
eftir það enn og næ mér aldrei meðan ég lifi, – þessi andstygð hefur ásótt mig í vöku og
svefni altaf síðan, og þegar mig dreymir djöfulinn á næturnar þá er það þú, þú, þú – þú
ert djöfullinn sjálfur og ég lifi aldrei, aldrei glaðan dag fyren ég veit að þú ert dauður“
(Halldór Laxness, 1931, bls. 166).