Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2009, Qupperneq 49

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2009, Qupperneq 49
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 3. tbl. 85. árg. 2009 45 Ritrýnd fræðigrein aðferð til að verjast kuldanum í sjónum og þrauka. Það er slík vanlíðan, maður trúir ekki að nokkur kæmi til með að sakna manns, manni finnst maður í raun bara skítur ... slík er sjálfsmyndin.“ Allar konurnar hafa glímt við mikla höfnunartilfinningu alla tíð sem hefur haft mikil áhrif á hugsanir, líðan og athafnir þeirra. Þær hræðast alltaf að vera hafnað og tengist það lítilli sjálfsvirðingu þeirra. Á ákveðnu tímabili fann Helga fyrir raunveruleikafirringu, hún sá andlit afa síns alls staðar og fann fyrir honum þegar hún átti síst von á sem minnti stöðugt á misnotkunina: „Ef maðurinn minn kom labbandi þá sá ég andlitið á afa koma og ef maðurinn minn setti höndina undir sængina þá fannst mér það vera afi. Það var rosalega erfitt.“ Konurnar, sem lokuðu á sára reynslu í bernsku, fengu endurminningar síðar á lífsleiðinni og voru það ákveðin atvik í lífi þeirra sem kölluðu þær fram eins og fæðing fyrsta barns. Flótti, fælni og einangrun eru tilfinningar og hegðun sem sumar konurnar tala mikið um, þær eiga erfitt með að vera innan um fólk, fara í veislur og á mannamót, þær hleypa engum að sér en vilja einangra sig. Erfiðleikar við tengslamyndun, traust og snertingu Konurnar eiga erfitt með að tengjast karlmönnum. Sjálfsmynd kvennanna er mjög brotin og þeim finnst þær eiga allt slæmt skilið. Þær eiga allar erfitt með að treysta, finnst allt traust brotið. Þær eiga erfitt með alla snertingu, finnst óþægilegt að láta menn snerta sig, tilfinningin um misnotkunina er eitthvað sem þeim finnst aldrei hverfa og komi alltaf til með að há þeim og þær þurfi að reyna að lifa með. Þær hafa einnig átt erfitt með að njóta kynlífs, látið sig hafa það fyrir manninn, finnst þær eiga að sinna þeim kynferðislega: „Ég get nú eiginlega sagt að ég hafi aldrei notið þess, ég hef alltaf lent eitthvað svo illa í þeim. Fyrri maðurinn minn var mér ekki góður, hann vildi alltaf vera að hafa endaþarmsmök sem ég vildi ekki. Hann píndi mig til þess sem var bara enn ein misnotkunin, ég naut aldrei með honum kynlífsins.“ (Gulla) Sár reynsla úr bernsku og síðan fæðingarþunglyndi hefur skapað erfiðleika varðandi tengslamyndun við börnin þeirra. Þær hafa alltaf áhyggjur af þeim og eiga erfitt með að treysta öðrum fyrir þeim. Eftir að Jóna átti fyrsta barnið var henni nauðgað, hún fór í mikið þunglyndi og missti forræðið: „Ég var í rauninni búin að missa hann, við náðum aldrei neinum tengslum. Það var líka svo erfitt þegar hann fæddist af því hann var strákur, ég vildi helst ekki skipta á honum.“ Henni finnst alltaf verið að minna á misnotkunina í gegnum börnin og finnst óþægilegt að sjá þau nakin. Erfiðleikar við tengslamyndunina hefur áhrif á líðan barnanna og mörg börn kvennanna eiga við vandamál að stríða. Kata segir að börnin beri það með sér að vera alin upp af móður sem var ekki alltaf í lagi: „Ég hef verið ákaflega erfið í umgengni og orðið að brúka kjaft við krakkana þó ég geri það ekki í dag. Börnin gætu borið upp á mig að ég hafi lagt á þau hendur ... maður átti bara svo nóg með sjálfa sig og hafði ekki mikið að gefa af sér.“ Þær hafa átt misjafnlega erfitt með alla snertingu, hvort sem er að faðma börnin eða að börnin snerti þær. Erfiðleikarnir hafa ýmist komið fram strax eftir fæðingu, þegar börnin voru á þeim aldri sem konurnar muna eftir misnotkun eða á kynþroskaaldri. Jóna lýsti sinni hlið: „Mér finnst óþægilegt þegar börnin mín eru að kyssa mig, bara á kinnina ... Ég hef alltaf þurft að brjótast gegn mér, alltaf að segja mér: „Ég veit hvað er rétt og rangt, ég kem ekki við þau á ranga staði“... [En] mér finnst öll snerting röng ... og maður veltir því fyrir sér hvað tekur margar kynslóðir að leggja niður svona hegðun niður.“ Staðan í dag og horft til framtíðar Allar konurnar hafa margítrekað leitað sér aðstoðar í heilbrigðiskerfinu en ekki fengið viðeigandi aðstoð. Þær hafa leitað mikið í óhefðbundnar meðferðir og nudd og finnst það hafa hjálpað. Þær lýsa mikilli vanlíðan og segja að þær losni aldrei við þennan skugga sem fylgi þeim en þær reyni að sjá björtu hliðarnar á sjálfum sér og lífinu, finnst erfiðast að vera alltaf á varðbergi og geta aldrei treyst og geta þar af leiðandi ekki gefið af sér. Helgu finnst hún stöðugt þurfa að berjast við að halda sér gangandi frá degi til dags, erfitt sé að glíma við þær tilfinningar að búast alltaf við því óvænta frá manneskjunni, vera alltaf á varðbergi, hrædd við fólk og þetta sé endalaus barátta: „Ég þarf að minna mig á það oft á dag að lífsviljinn er í lagi. Ég ætla bara að læra að lifa með þessu. Tíminn læknar ekki öll sár.“ Henni finnst hún stundum ekki geta meira, sé komin í mikla örvæntingu og innri angist sem sé að reyna að komast út. Hún finnur fyrir endalausum vonbrigðum. Gulla hefur verið öryrki frá 18 ára aldri: „Maður skaðast af þessu sem verður aldrei bætt og gengur aldrei til baka. Ég er ekki viss um að maður losni við allt samt … mig langar til að mér líði betur … er oft svo full af vonleysi.“ Rúna hefur lengi unnið með sjálfa sig en finnst hún nú á þeim tímapunkti að vera við það að gefast upp. Hún fær engin svör frá læknum vegna líkamlegra einkenna og segir misnotkun vera sálarmorð sem maður nái sér aldrei upp úr, hún hefur aldrei getað grátið og er orðin þreytt að finna ekki leið út og fá frið í sálinni: „Maður höndlar ekki að vinna úr þessu, það er sama hvað ég geri, það er alltaf eitthvað hér inni sem plagar mig. Að vera komin á þennan aldur og geta ekki notið þess að láta sér líða vel eftir allt sem ég hef gengið í gegnum. Stundum finnst mér ég vera að gefast upp og mér finnst ég vera tilbúin að fara, finnst ég vera búin með mitt hlutverk hér ... er svo þreytt á þessum sársauka sem finnur ekki leið út.“

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.