Tölvumál


Tölvumál - 01.11.2008, Blaðsíða 19

Tölvumál - 01.11.2008, Blaðsíða 19
T Ö L V U M Á L | 1 9 Ný tækni Samhliða auknum rafrænum aðgangi að útgefnu efni hefur tæknin þróast í átt til þess að auðvelda notendum að sérsníða upplýsingar að eigin þörfum, og nýta gagnagrunna og rafræn tímarit á gagnvirkari og fjölbreyttari hátt en áður. Hefð er fyrir því á bókasöfnum að kalla þjónustu af þessu tagi árvekniþjónustu. Dæmi um öfluga tækni sem nýta má í þessu skyni er svokölluð RSS mötun. RSS mötun er þróuð vöktunarþjónusta þar sem notandi getur valið efni sem hann vill fylgjast með, fengið uppfærslur sendar reglulega og lesið eftir hentugleikum. Þessi nýja tækni eflir jafnframt tengslanet notenda og gerir þeim kleift að miðla upplýsingum hver til annars. Bloggið er dæmi um það, en algengt er að vísindamenn haldi úti metnaðarfullu bloggi um sérsvið sitt. Annars konar tækni sem notuð er á bókasöfnum til að auðvelda notendum aðgang að vísindagreinum á rafrænu formi, eru svokölluð krækjukerfi (e. Link Resolvers). Ýmis slík tól hafa verið þróuð, en íslensk söfn nota m.a. SFX Express og OVID Link Solver. Tæknin leiðir notendur áfram að greinum sem viðkomandi hafa aðgang að án þess að þeir þurfi að endurtaka leitir. Forsenda þess að komast í texta vísindagreina er þó yfirleitt að einhver greiði fyrir áskrift, oftast eru það bókasöfn. Þessi staðreynd vill því miður stundum gleymast og því full ástæða til að halda henni á lofti. Eftir því sem upplýsingar um útgefið efni verða aðgengilegri víkkar sjóndeildarhringur notenda sem leita í meira mæli bæði eftir eldra efni og efni úr tímaritum sem þeir þekktu ekki áður. Landsaðgangurinn hefur enn sem komið er miðast við kaup á nýju efni frá helstu útgefendum vísindaefnis og vantar enn nokkuð á að þarfir allra fræðasviða séu uppfylltar. Í nánustu framtíð þarf einnig að líta til eldri árganga tímarita (e. archives). Aðgangur að eldra efni er gjarnan keyptur til eignar, á meðan greiða þarf fyrir aðgang að nýrra efni á hverju ári. Opið aðgengi (OA) Þrátt fyrir ýmsa hagræðingu er kostnaður við áskriftir að rafrænum tímaritum mikill, sem dæmi má nefna að kostnaður við áskriftir í Landsaðgangi árið 2007 var tilgreindur 110,5 milljónir í ársskýrslu verkefnisins fyrir það ár. Bókasöfn bera stærstan hluta kostnaðar við tímaritaáskriftir og hafa því verið framarlega í hópi þeirra sem leita leiða til að stemma stigu við hárri verðlagningu útgefenda. Opið aðgengi eða OA (e. Open Access) er nýtt útgáfuform sem hefur mikið verið í umræðunni á undanförnum árum sem valkostur og jafnvel lausn á vandanum. Hugmyndafræðin að baki OA var skjalfest á þingi sem haldið var í Búdapest í desember 2001 og gengur út á það að fundin verði leið til þess að bjóða sem flestum aðgang að vísindaefni án þess að til komi greiðsla. Í lok þingsins var samþykkt yfirlýsing sem felur í sér stuðning við hugmyndina og áætlanir um að hrinda henni í framkvæmd, og þegar þetta er ritað hafa 5206 stofnanir, háskólar og vísindafélög skrifað undir yfirlýsinguna, auk þess sem mörg önnur verkefni sem miða að OA hafa farið af stað á vegum viðurkenndra aðila6. Til að auðvelda OA hafa mörg háskóla­ og rannsóknabókasöfn erlendis opnað varðveislusöfn sem hýsa og varðveita efni vísindamanna viðkomandi stofnana og bjóða aðgang að því án endurgjalds. Á Íslandi hefur tveimur varðveislusöfnum verið komið á fót, annars vegar Skemmunni á vegum Kennaraháskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, hins vegar Hirslunni á vegum bókasafns Landspítala háskólasjúkrahúss, sem veitir aðgang að vísindaskrifum starfsmanna Landspítalans ásamt öðru íslensku efni á heilbrigðissviði aftur til 2002. Í stefnu menntamálaráðuneytis um upplýsingatækni, Áræði með ábyrgð: Stefna menntamálaráðuneytis um upplýsingatækni í menntun, menningu og vísindum 2005­2008, stendur m.a.: „Í vísinda­ og tæknistefnu er lögð áhersla á að tryggja sem greiðastan aðgang almennings að rannsóknargögnum og niðurstöðum sem kostuð eru af opinberum fjárveit­ ingum og er í því sambandi m.a. tekið mið af þeirri þróun sem er að verða innan Evrópusambandsins“7. Fróðlegt verður að fylgjast með þróun þessara mála hérlendis á næstu árum, en enn hafa engir innlendir aðilar skrifað undir alþjóðlegar viljayfirlýsingar um OA. Framtíðin Ljóst er að aðgangur Íslendinga að vísindaefni hefur stóraukist s.l. tíu ár þó það hafi ekki farið hátt. Brýnt er orðið að kanna áhrif Landsaðgangs að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum á íslenskt þekkingarsamfélag og móta verkefninu skýra stefnu og rekstrargrundvöll til framtíðar. Samhliða þarf að móta stefnu um OA til að tryggja íslensku samfélagi aðgang að framlagi innlendra vísindamanna, og jafnframt til að koma því framlagi á framfæri við umheiminn. Hvorttveggja skiptir miklu máli eigi Íslendingum að takast að vera „... fremstir þjóða í rafrænni þjónustu og nýtingu upplýsingatækni“8 Heimildir 1 Sjá www.hvar.is 2 Porter, J.R. (1964). The scientific journal – 300th anniversary. Bacteriological Reviews, 28(3), 211­230 3 ProQuest. (2008). Ulrich´s Periodicals Directory. Sótt á http://www.ulrichsweb. com/ulrichsweb/ 4 Erna G. Árnadóttir. (2000). Landsaðgangur að rafrænum tímaritum: Könnun. Óútgefin skýrsla 5 Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. (2008). Ársskýrsla landsaðgangs að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum 2007. Sótt á www.hvar.is 6 Budapest Open Access Initiative (BOAI). (2002). Sótt 19. 05. 2008 á http:// www.soros.org/openaccess/read.shtml og http://www.soros.org/openaccess/ initiatives.shtml 7 Menntamálaráðuneytið. (2005). Áræði með ábyrgð; Stefna menntamálaráðuneytis um upplýsingatækni í menntun, menningu og vísindum 2005­2008. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið 8 Forstætisráðuneytið. (2008). Netríkið Ísland: Stefna ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið 2008 – 2013. Sótt á http://www.forsaetisraduneyti.is/ media/frettamyndir/NETRIKID_ISLAND_stefnuskra.pdf Opið aðgengi gengur út á að bjóða sem flestum aðgang að vísindaefni án þess að til komi greiðsla Brýnt er orðið að kanna áhrif Landsaðgangs og móta rekstrargrundvöll til framtíðar

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.