Tölvumál


Tölvumál - 01.11.2008, Blaðsíða 34

Tölvumál - 01.11.2008, Blaðsíða 34
Núna eru flest fyrirtæki að reyna að ná fullkomnu yfirliti yfir viðskiptavininn og að geta þjónustað hann hratt þegar hann biður um þjónustu Næsta skref sem sumir eru komnir ágætlega af stað með er síðan sú að færa þjónustuna nær viðskiptavininum, ef hann kýs svo 3 4 | T Ö L V U M Á L Þóra Kristín: Ég tek undir með Jóhanni að nú þegar hefur ávinningur þeirra upplýsinga­ tækniverkefna sem fyrirtækið hefur ráðist í á undanförnum árum skilað umtalsverðum árangri. Mitt sérsvið er CRM hugmyndafræðin og við sem trúum á hana vitum að CRM stefnuna þarf að marka til lengri tíma litið. Þegar yfirstjórn, eins og á við í okkar tilfelli, styður viðskiptavinamiðaða hugmyndafræði með það að langtímamarkmiði að auka ánægju viðskiptavina og minnka brottfall þeirra, þá eykur það líkurnar á að okkur muni ganga vel með verkefnið. Helsti ávinningur innleiðingarinnar á fyrirtækjasviði er að nú hefur starfsfólk á einum stað þessa margumræddu 360 gráðu sýn á viðskiptavini sem felur í sér yfirsýn yfir allar þjónustur, reikninga, reikningsyfirlit, samninga, helstu tengiliði, tölvupósta, símtöl og fleira. Þetta sparar umtalsverðan tíma og gefur starfsfólki tækifæri til að einbeita sér betur að viðskiptavininum. Óinnleystur ávinningur felst í því að kerfishögunin er sveigjanleg og því ræðst hann af þeirri stefnu og þeim ákvörðunum sem teknar eru hverju sinni varðandi ferli sem snúa að viðskiptavinum. Jóhann: Það er síðan athyglisvert að meta mismunandi upplifun starfsmanna í fyrirtækinu við þeim breytingum sem ráðist var í. Sænsku ráðgjafarnir fóru í gegnum þetta og settu upp ákveðna frávikagreiningu þarna. Í sumum tilfellum kallaði þetta á frekari fræðslu til starfsmanna en í öðrum tilfellum þurfti að endurmeta þarfir og gera breytingar á útfærslunni. Hvernig sjáið þið tæknina í kerfum tengdum þjónustu við viðskiptavini þróast á næstu árum? Jóhann: Núna eru flest fyrirtæki að reyna að ná fullkomnu yfirliti yfir viðskiptavininn og að geta þjónustað hann hratt þegar hann biður um þjónustu. Næsta skref sem sumir eru komnir ágætlega af stað með er síðan það að færa þjónustuna nær viðskiptavininum, ef hann kýs svo. Þannig geta viðskiptavinir aflað sér upplýsinga um þjónustuna og gert breytingar á henni á eigin forsendum, í gegnum vefviðmót, símaviðmót, sjónvarpsviðmót eða á annan slíkan hátt. Þróunin verður væntanlega að reyna að vita hvaða þjónustu viðskiptavinurinn þarfnast um leið og hann hefur samband og helst fyrr. Ýmsar lausnir eru til sem styðja þetta í dag og þær munu verða fullkomnari. Viðskiptavinurinn mun einnig í auknum mæli „eiga“ sínar upplýsingar og tæknin þarf að taka heilmikið tillit til þess hvað varðar aðgengi starfsmanna að gögnum. Þetta er að sjálfsögðu gert í dag í samræmi við persónuvernd og upplýsingalög, en mun eflaust verða mun viðameira þegar fram í sækir. Þóra Kristín: Ég hef þá trú að arðsöm CRM fjárfesting felist í vel skilgreindu samspili tækni, ferla og starfsfólks. Tæknileg útfærsla á CRM hugmyndafræði fær vafalaust að njóta sín á næstu árum í tækniumhverfi Vodafone. Þá á ég við að líftímaferli viðskiptavina sé kortlagt, snertilfletir þeirrar við fyrirtækið skilgreindir og þeir flokkaðir í viðeigandi markhópa. Með hjálp upplýsingatækninnar væri síðan reynt að hafa áhrif á heildaruppifun viðskiptavinar með það að markmiði að hann fái vörur og þjónustu þegar hann þarf á þeim að halda og að hann upplifi virðið sem í því felst. Almennt þá tengist þetta auðvitað mjög mörgum þáttum í rekstrinum en í því liggja fjölmörg ónýtt markaðs­, sölu­ og þjónustutækifæri. Ef við lítum aðeins til framtíðar - hver eru helstu verkefni tengd tæknimálum sem Vodafone mun einbeita sér að á næstu árum? Jóhann: Nú þegar heppileg grunnhögun er fyrirliggjandi þá verða til verkefni sem tengjast umbótum á einstökum kerfum í heildarmyndinni. Högunin styður svokallað „best­of­breed“ skipulag, sem þýðir að einstök kerfi eru valin þannig að þau henti sínu skilgreinda hlutverki mjög vel. Umbætur eru framundan á þessu sviði hvað varðar bæði reikningagerð og pantanir viðskiptavina. Í stórum dráttum felst síðan högunarþátturinn í því að halda áfram að hluta niður og búa til endurnýtanlega ferlakubba í rekstri fjarskiptafyrirtækis. Breytingastjórnunin er síðan stöðugt verkefni, þ.e. að bæta ferlin við hönnun, útfærslu og innleiðingu á tæknilausnum, til að tryggja að starfsmenn og viðskiptavinir upplifi breytingar á jákvæðan máta.

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.