Dagblaðið Vísir - DV - 05.12.2014, Blaðsíða 27

Dagblaðið Vísir - DV - 05.12.2014, Blaðsíða 27
Helgarblað 5.–8. desember 2014 Fólk Viðtal 27 „Grét eins oG krakki“ veltur bara Facebook-status sem ég skrifaði í síðustu viku, en svo var skorað á mig að senda grein inn á Vísi, eins og ég hef stundum gert, og ég gerði það. Og það fór bara svona,“ segir Biggi um greinina sem hann skrifaði í síðustu viku undir yfirskriftinni Greinin sem má ekki skrifa. Hún vakti mikla athygli og kallaði fram bæði jákvæð og nei- kvæð viðbrögð meðal fólks. Biggi tók neikvæðu viðbrögðin ansi nærri sér og hafði áhyggjur af því að þau myndu kalla fram það versta í hon- um sjálfum. Greinin fjallaði meðal annars um pólitískan rétttrúnað, trúar- brögð, hælisleitendur og fleira. Þá kom Biggi með dæmisögu úr starfi sínu frá því hann hafði afskipti af erlendum manni sem meinaði ís- lenskri konu sinni að fara út á lífið að skemmta sér. Að sögn Bigga átt- aði maðurinn sig ekki á því að hann væri að gera eitthvað rangt með því að banna konunni að fara út. Það sem Biggi var að reyna að koma á framfæri í greininni var að allir ættu rétt á að hafa skoðanir án þess að vera úthrópaðir fyrir vikið. Þá ætti ekki að vera í lagi að gagnrýna ákveðna hópa á meðan aðrir nytu friðhelgi. Of mikið í of stuttri grein „Ég skal vera fyrstur til að viður- kenna það að ég hefði mátt orða hlutina betur og það er að miklu leyti mér að kenna hvernig þetta fór. Ég áttaði mig engan veginn á því að svona margir myndu lesa þetta. Ég er samt ekkert viss um að viðbrögðin hefðu orðið önnur þó að ég hefði orðað hlutina öðruvísi. Það voru hins vegar mistök að ég fór út um mjög víðan völl. Ég var að reyna að koma allt of mörgum hlut- um fyrir í allt of stuttri grein,“ segir Biggi hreinskilinn og meðvitaður um hvað hefði hugsanlega mátt fara betur í skrifunum. Hann telur þó að margir hafi slitið orð hans úr sam- hengi og lesið ranglega á milli lín- anna. „Það voru rosalega margir sem lásu hluti úr greininni sem ég skrif- aði ekki. Eins og þar sem ég tók dæmi um heimilserjurnar, þá var ég ekki að segja að íslenskir karlmenn lemji ekki konurnar sínar. Svo sagði ég heldur ekki að múslimar yrðu ekki fyrir fordómum, en það voru margir sem túlkuðu orð mín þannig. Ég veit það fullvel að múslimar verða svo sannarlega fyrir fordóm- um og það er mjög leiðinlegt. Það sem ég var að meina, var að í um- ræðunni væri réttlætanlegt að setja til dæmis kristið fólk allt undir einn hatt. Það má gagnrýna viðburði eins og Hátíð vonar og Kristsdaginn, og það er bara allt í lagi og viðurkennt. Í umræðunni má einhvern veginn tala illa um ákveðna hópa en ekki aðra. Þetta átti að vera smá hug- leiðing og vakning á þessu. Það sem ég var að reyna að segja var að við ættum að koma vel fram við alla, en greinilega voru ekki allir sem lásu það út úr greininni.“ Biggi bendir á að þegar vitnað hafi verið í greinina hans hér og þar, þá hafi þessi síðasti punktur oft farið forgörðum, sem gerði illt verra. „Greinin fékk vissulega við- brögð og hún vakti ákveðið umtal, en ég fékk líka jákvæð viðbrögð og ég vona svo sannarlega að það hafi verið á réttum forsendum, en ekki byggt á misskilningi.“ Sagður rasisti og líkt við Breivik Biggi viðurkennir að síðustu dagar hafi verið erfiðir vegna þessa máls og hann hafi lítið annað getað hugs- að um. En hann gerði þau mistök að lesa allt það sem skrifað var um hann í athugasemdakerfum vef- miðlanna. „Ég trúði ekki öllu þessu ljóta sem ég fékk yfir mig. Þetta var svo mikið kjaftshögg því ég meinti ekkert illt. Ég vil bara að samfélag- ið sé betra í heild sinni og sterk- asti drifkrafturinn í því er kærleik- urinn. Það er dýrmætasta aflið sem við höfum. Það er mitt lífsmottó að koma fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig,“ segir hann einlægur. Hann hagræðir sér í sófanum og heldur áfram: „Einhvern veginn kom þetta svona hrikalega öfugt út og þegar ég byrjaði að lesa við- brögðin, þá sat ég lamaður við tölv- una. Það þyrmdi yfir mig og það endaði með því að ég fór inn í rúm og grét eins og krakki,“ segir Biggi og brosir yfir viðkvæmninni í sjálfum sér, en þetta fékk virkilega á hann. „Eflaust munu margir bara kalla þetta væl og það er eflaust rétt, en það breytir engu um það hvernig mér líður. Þetta hafði djúp áhrif á mig. Ég var sagður rasisti, fífl, hálf- viti, líkt við Breivik og allt sem hugsast getur. En auðvitað tek ég fulla ábyrgð á þessu og finnst mjög leiðinlegt ef þetta særði einhverja, sem þetta gerði greinilega. Það var aldrei ætlunin, síður en svo. Það er því miður þannig að fólk bíður í skotgröfum til að einhver poppi upp svo það sé hægt að skjóta hann niður. Það var einmitt það sem ég var að reyna koma inn á í grein- inni. Ég veit ekki hvort þetta er eitt- hvað sem fólk gerir til að hjálpa sínu eigin egói, að benda á hvað aðrir eru slæmir, en mér finnst þetta vont og pínu hættulegt.“ Þurfti ekki meira til að brjóta hann niður En ástæðan fyrir því hve mikið við- brögðin og umtalið fékk á Bigga á sér þó dýpri rætur, lengra aftur í tí- mann. „Ég hef ekkert verið með blússandi sjálfsálit alla ævi. Ég fór í gegnum grunnskólann mjög feiminn, með kvíðaröskun og það var rosalega erfitt. En ég er mjög ánægður með mitt líf í dag. Ég er hamingjusamur og á frábæra fjöl- skyldu. En það þurfti ekkert meira til að brjóta mig. Þetta var svo vont því ég veit að ef mér líður illa þá er miklu auðveldara fyrir mig að detta í sama farið. Ég þurfti að vera mjög meðvitaður og segja við sjálf- an mig að þetta væri líka gott fólk. Ég hef engan áhuga á því að ráðast persónulega á fólk. Það er nefni- lega þannig að þeim mun ósáttari sem við erum við okkur sjálf, þeim mun verr komum við fram við aðra. Ég var mjög hræddur við það, því ég vil ekki vera á þeim stað. Ég vil halda áfram að koma vel fram í aðra, bæði í leik og starfi.“ Íhugar að hætta sem Biggi lögga Biggi segir það geta verið mjög snúið að orða hlutina rétt í viðkvæmum málum og í þessu tilfelli hafi hann líklega ekki verið rétti maðurinn til að gera það. Hann hefur því ákveðið að skrifa ekki fleiri greinar í þessum dúr. „Í raun og veru varð þetta til þess að ég síðustu daga hef ég sest nið- ur og spurt sjálfan mig hvort ég sé tilbúinn í þetta. Ég sendi til dæm- is þeim sem sér um Facebook-síðu lögreglunnar skilaboð og sagði að mér sýndist að ég þyrfti að leggja Bigga löggu á hilluna. Ég veit að ef ég birti aftur myndbönd þá mun ákveðinn hópur alltaf rifja þetta upp. Ég hef verið að spyrja mig hvort það sé eitthvað sem ég vilji gera mér og fjölskyldunni minni, og starfinu. Ég hef velt því fyrir mér hvort ég ætli yfir höfuð að halda þessu áfram og er í raun ennþá undir þeim feldi,“ segir Biggi hreinskilinn um stöð- una. Það er því ljóst að töluverð- ar líkur eru á því að Biggi lögga hafi sungið sitt síðasta, og gráta það ef- laust margir. Viðbrögðin við greininni fengu líka töluvert á konuna hans. „Já, ég fann það alveg að henni fannst þetta mjög erfitt og það er stór partur af þessu. Ég er eitt, en ef þetta er farið að hafa áhrif á fjölskylduna mína þá verð ég að endurmeta stöðuna. Ég fæ ekkert borgað fyrir að vera Biggi lögga, þetta er bara hugsjónastarf innan lögreglunnar. En ég hef þurft að verja þetta gagnvart mörgum starfsfélögum, þannig það væri auð- veldara fyrir mig að gera þetta ekki. Það eru einhverjir ósáttir við það hvernig ég set efnið fram og öðrum finnst þetta athyglissýki.“ Stundum haft áhyggur af Bigga löggu Biggi segir að vissulega hafi hann tekið ákvörðun um það sjálfur að verða opinber persóna, en það hvarflaði ekki að honum að mynd- bönd Bigga löggu yrðu viðlíka vin- sæl og raun ber vitni. „Þetta er Face- book-síða löggunar, „ kommon“!“ segir hann hlæjandi. „Það er svo mikið að gerast á þessu blessaða interneti að ég bjóst aldrei við að myndböndin fengju svona mikla deilingu. Áhorfið hefur verið fárán- legt. Ég held að metið sé 400 þúsund áhorf, og þá erum við að tala um IP- tölur, sem þýðir að þetta er örugg- lega farið úr landi.“ Í upphafi voru myndböndin bara fíflagangur í honum sjálfum, en til- gangurinn var að sýna lögregluna í aðeins jákvæðara og léttara ljósi en venjulega. Hingað til að hafa við- brögðin við myndböndunum nán- ast bara verið jákvæð, að Bigga sögn. „Ég hef þó haft ákveðnar áhyggjur, því þetta getur verið erfiður milli- vegur að fara, að taka grínið ekki of langt. Ég veit líka að einhverjar lögg- ur hafa haft áhyggjur af því, að lög- reglan glati einhverri virðingu út af þessu, en ég vona að mér hafi tekist að halda þessu réttum megin.“ Grínast ekki alltaf á vettvangi Biggi tekur fram að auðvitað sinni hann starfinu sínu eins og áður, og það geri kollegar hans líka, þrátt fyrir að Biggi lögga hafi komið til sögunnar. „Ég kem ekkert alltaf með eitthvað grín inn á vettvang, þó að þetta hafi að vissu leyti breytt því hvernig ég vinn. Það er svolítið sér- stakt að koma inn á vettvang núna og það þekkja mig allir. Stundum er það fínt. Ég hef til að mynda kom- ið að slagsmálum sem leysast upp því aðilarnir eru bara: „blessaður Biggi“,“ segir hann með leikrænum tilþrifum og veifar. „Svo aftur á móti hef ég komið á vettvang þar sem viðbrögðin eru: „þurftir þú endilega að koma.“ En það er mjög sjaldæft.“ Hann segir það helst gerast þar sem eru þrúgandi aðstæður. „Það kom einu sinni fyrir í heimilserjum. Kon- unni leið mjög illa og sjálfsálitið var lítið og til að byrja með fannst henni óþægilegt að það kæmi þekkt persóna á staðinn.“ Biggi segir þó viðhorf hennar hafa breyst um leið og hann byrjaði að ræða við hana. Reynir að koma fram af virðingu Hann segist reyna að koma fram af virðingu við alla í starfi sínu, líka þá sem hann þarf að handtaka. „Þrátt fyrir að samfélagið hafi sett ákveðin lög sem lögreglan framfylgir þá eig- um við ekki að koma fram við fólk eins og það sé lægra sett. Við eigum að virða alla. Hver einasta mann- eskja er mikilvæg við eigum að koma fram við hana sem slíka. Mér finnst líka nauðsynlegt að hafa það hugarfar að leiðarljósi að hvert ein- asta útkall er mikilvægt.“ Aðspurður segir hann vissu- lega oft erfitt að koma fram við fólk af virðingu þegar það er dónalegt og með hótanir. Það sé hins vegar tímabundið ástand hjá flestum og ástæðan sé yfirleitt veikindi eða fíkn. „Í langflestum tilfellum er þetta heldur ekki persónulegt heldur ein- göngu gagnvart lögreglunni sem valdi. Þetta er bara partur af starf- inu, þó að vissulega sé það ósann- gjarnt. Þetta gerir starfið mjög flók- ið og vandasamt, að þurfa að takast á við fólk ýmiss konar ástandi eða á sínum versta stað í lífinu.“ Vill stundum taka börn með heim Biggi er búinn að vera í lögreglunni í tíu ár en það var algjör tilviljun að hann álpaðist inn í lögregluskólann á sínum tíma. Hann átti sér aldrei þann draum, líkt og margir litlir strákar, að verða lögga. Það hvarflaði ekki að honum sem feimnum strák á Akureyri. „Ég var bara að fletta Mogganum einn sunnudaginn og sá auglýst eftir nemum í lögregluskól- ann. Mér fannst kominn tími til að fara suður svo ég ákvað að slá til og þannig æxlaðist þetta,“ segir Biggi og brosir, enda mjög ánægður með þessa ákvörðun. En er eitthvert atvik úr starfinu á þessum tíu árum sem situr sérstak- lega í honum? „Yfirleitt eru þessi mál sem sitja í manni, mál sem ekki er hægt að ræða. En mál sem varða sjálfsvíg og andlát, sérstaklega þegar ungt fólk deyr, eru oft mjög erfið. Sérstaklega samskiptin við aðstand- endur. Ég tala nú ekki um ef maður finnur ákveðna samsvörun með að- stæðunum. Stundum langar mig til að taka börn í erfiðum aðstæðum með mér heim. Mér finnst oft svo ósanngjarnt að þetta barn þurfi að vera í þessari ákveðnu stöðu. Það er margt svo ósanngjarnt og stundum fallast manni hendur. Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég fór í lög- regluna, ég vildi reyna að aðstoða fólk,“ útskýrir Biggi. Hann vonar að honum takist að gera það, hjálpa fólki og skilja eitthvað jákvætt eft- ir sig. Hélt að hann væri að deyja Það er vitlaust veður úti, hífandi rok, slydda og haglél sem lemur rúð- urnar. Í verstu hviðunum stendur blaðamanni varla á sama, en Biggi virðist lítið kippa sér upp við veð- urofsann. Eflaust vanur honum, svona uppi á áttundu hæð í blokk. Hann er fæddur og uppalinn á Akureyri og skilgreinir sig ennþá sem Akureyring þrátt fyrir að hafa búið á höfuðborgarsvæðinu í tíu ár. Blaðamaður er ekki frá því að norð- lenski hreimurinn verði örlítið ýktari þegar Biggi talar um Akureyringinn í sér og höfuðstað Norður lands. Eins og fram hefur komið var hann mjög feiminn sem barn og gekk nánast með veggjum þegar hann var í grunnskóla. „Það kæmi mér á óvart ef einhver af gömlu kennurunum mínum myndi eftir mér. Ég man ekki til þess að hafa einu sinni rétt upp hönd í tíma. Ég var bara þægur krakki og aldrei neitt vesen á mér.“ Þá hefur Biggi glímt við kvíða- röskun allt sitt líf en það var ekki fyrr en hann byrjaði í háskólanáminu í fyrra að hann fékk loksins grein- ingu. Hann var það slæmur að oft var hann með líkamleg einkenni sem háðu honum í daglegu lífi. „Það voru ákveðin atriði sem ég höndl- aði bara ekki. Það var orðið erfitt að fara í bíó, leikhús og taka strætó og ég vissi alveg að þetta var ekki eðli- legt þrátt fyrir að ég hefði alltaf verið svona. En þetta var alltaf að aukast. Fyrstu árin í löggunni voru erfið út af þessu en mér tókst upp að vissu marki að klæða þetta af mér með búningnum,“ segir Biggi hreinskil- inn. Hann átti það til að fá alvar- leg kvíðaköst þar sem hann virki- lega óttaðist um líf sitt. „Stundum hélt ég að ég væri að fara að deyja. Oftar en einu sinni var ég tilbúinn með símann í hendinni, til að hr- ingja í 112. Mesti óttinn var að ég væri einn heima með krakkana og að ég myndi deyja. Ekki bætti það úr skák að ég hafði komið að þannig aðstæðum í starfinu, að foreldrar höfðu látist og krakkarnir voru ein- ir heima.“ Þótti óþægilegt að fara á geðlyf Þegar Biggi var barn var ítrekað far- ið með hann til læknis vegna ýmissa líkamlegra kvilla, sem í dag er ljóst að rekja mátti til kvíðaröskunarinn- ar, en skýring læknanna var að hann væri líklega með viðkvæman maga. Enda var kvíðaröskun ekki mikið í umræðunni á þeim tíma. Í fyrra var hann þó kominn á þann stað að hann varð að fá hjálp við sjúkdómn- um. „Þegar ég byrjaði í náminu þá yfirkeyrði ég mig algjörlega. Það var líka mikið að gera í vinnunni á þess- um tíma og ég klessti eiginlega á vegg.“ Biggi leitaði því til læknis, var greindur með kvíðaröskun og fékk lyf sem hann tekur í dag. Lyfin draga verulega úr líkamlegu einkennun- um sem hrjáðu hann, en kvíðinn blundar alltaf í honum. „Sérstak- lega á svona erfiðum tímum eins og núna, þá blossar þetta upp, öll þessi líkamlegu einkenni,“ útskýrir hann. Biggi segir það erfiðasta við þetta ferli, að greinast með kvíðarösk- un og fara að taka inn lyf, hafi ver- ið að losna við sína eigin fordóma. Honum hafi í raun ekki tekist það ennþá. „Ég man bara þegar lækn- irinn nefndi það að setja mig á lyf þá þótti mér það mjög óþægilegt. Morguninn eftir stóð ég svo inni í eldhúsi, með þessa töflu í hendinni og hugsaði: „er ég í alvöru að fara að taka inn geðlyf?“ Mér fannst „ég hef til að mynda komið að slags- málum sem leysast upp því aðilarnir eru bara: „blessað- ur Biggi“

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.