Morgunblaðið - 08.08.2015, Síða 29

Morgunblaðið - 08.08.2015, Síða 29
MINNINGAR 29 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 8. ÁGÚST 2015 Ég er mjög stolt að heita í höf- uðið á ömmu minni, Magðalena Sigríður. Mjög langt og mikið nafn sem getur stundum verið erfitt. Þetta kannaðist hún amma líka við. Hún var mjög dugleg að leiðrétta fólk sem sagði Magda- lena við hana. Ég man eitt skipti þegar amma beið á biðstofu eftir því að vera kölluð upp. Kona kemur og kallar Magdalena, en amma sat sem fastast og sagði ekki neitt. Það var ekki fyrr en greyið konan var búin að kalla nafnið nokkrum sinnum að amma spurði hvort hún væri nokkuð að meina Magðalena. Okkur nöfn- unum fannst nú ekki leiðinlegt þegar við fundum svo nafnið okk- ar á kókflösku í fyrrasumar, Magðalena með ð-i og auðvitað tókum við skemmtilega mynd af okkur saman með flöskuna. Elsku besta amma, ég elska þig! Þín nafna, Magðalena Sigríður. Magðalena Sigríður Hallsdótt- ir, Madda, kær vinkona, er látin 87 ára gömul. Langar mig að minnast henn- ar nokkrum orðum. Nú þegar Madda er farin rifj- ast upp minningar frá liðnum dögum. Mér finnst ég alltaf hafa þekkt Möddu. Ég hóf störf hjá Pósti og síma á Siglufirði 1. sept- ember 1956 og starfaði þar til 1982 með smá hléum á milli, eða í um 26 ár. Þar vann Madda sem yfirmaður og lét mig strax finna að ég væri velkomin. Madda vann á símstöðinni yfir í 50 ár og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum þar. Var hún vel liðin og mikið til hennar leitað. Einnig störfuðum við mikið saman að félagsmálum, t.d. í Kvenfélagi Sjúkrahúss Siglu- fjarðar, í Kvenfélaginu Von, Fé- lagi eldri borgara og síðast en ekki síst í Systrafélagi Siglufjarð- arkirkju. Var hún t.d. um tíma í stjórn allra þessara félaga. Betri félaga var vart að finna. Ég minnist samverustund- anna líka frá því í gamla daga, óteljandi margra. Margt var þá brallað, hlegið og spjallað. Síma- ferðalögin okkar voru, að Gulla manni Möddu meðtöldum, óborg- anleg og í minningunni voru þetta hamingjuár. Madda var stálminnug og fróð og höfðingi heim að sækja, enda ræðin og skemmtileg. Madda var líka einlæg, hress og kát og bjart- sýn á lífið og tilveruna. Madda átti afar gott og farsælt samband við börnin sín og ömmubörnin öll og fylgdist vel með öllu lífi þeirra og starfi. Og að leiðarlokum, elsku Madda, færð þú að hvíla milli fjallanna í firðinum okkar fallega. Elsku Guðný, Guðrún, Kalli, Guðbjörg og fjölskyldur. Innileg- ar samúðarkveðjur til ykkar allra. Guð blessi ykkur öll. Brynja Stefánsdóttir. Ég var svo lánsamur að eiga Möddu að, hún var föðursystir mín en í raun var hún eins og önnur mamma og hugsaði um mig eins og eitt af börnunum sín- um og Margréti dóttur mína eins og hún væri ömmubarn hennar. Ég dvaldist á Siglufirði öll sumur þar til ég varð fjórtán ára og þá var ég ýmist hjá ömmu og afa á Hvanneyrarbrautinni eða hjá Möddu og Gulla á Fossveginum. Madda var alveg einstök. Hún var sælkeri, eins og fleiri í fjöl- skyldunni, átti alltaf súkkulaði, var kökumeistari og mjög góður kokkur, hún gerði líka besta ís sem hægt var að fá. Þrátt fyrir miklar annir hafði hún einhvern veginn alltaf tíma fyrir mann og hún fylgdist alltaf vel með því hvað væri að gerast í lífi okkar. Madda var vinnusöm og ég man ekki eftir því að hún hafi bara set- ið með hendur í skauti. Pabbi og Madda voru afar náin systkini og því eru mjög sterk tengsl milli þessara tveggja fjölskyldna og við systkinabörnin náin. Ég bara alla tíð mikla virðingu fyrir Möddu og leit upp til henn- ar. Í mínum huga var hún höfuð fjölskyldunnar. Hún var kven- skörungur og ég hélt lengi vel að Madda stjórnaði öllu á Sigló. Hún var allt í öllu, á símstöðinni, á sjúkrahúsinu, í kirkjunni og kórn- um. Hún lagði mikla vinnu á sig til þess að bæta hag þeirra sem minna máttu sín, hún vann ötult starf í þágu kirkjunnar, sjúkra og aldraðra og var formaður kven- félags sjúkrahússins og kven- félagsins Vonar í áratugi. Ég man eftir henni sitja lengi við og hand- skrifa með fallegri rithönd á heillaskeyti og minningarkort fyrir kvenfélagið og safna að sér vörum fyrir bingó sem voru hald- in reglulega til fjáröflunar. En fyrst og fremst minnist ég Möddu sem glæsilegrar, glað- legrar, sjálfstæðrar og ákveð- innar konu með risastórt hjarta og hlýju. Það var alltaf hægt að leita til hennar. Hún var umburð- arlynd með eindæmum, hafði já- kvæða sýn á lífið og tilveruna, sem vert er að hafa til eftir- breytni. Tími Möddu var kominn. Í júlí þegar ég kvaddi hana var ég viss, þrátt fyrir brosið og gleðina í and- liti hennar, að við myndum ekki hittast aftur hér. Í dag kveð ég yndislega frænku mína sem auðgaði líf mitt á margan hátt. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt Möddu frænku að. Ég votta Guðnýju, Guðrúnu, Kalla, Guðbjörgu og fjölskyldum þeirra innilega samúð mína. Hallur. Madda frænka og Gulli frændi hafa nú bæði kvatt þennan heim, en Gulli lést í október sl. Frænd- semi og vinátta var mikil á milli fjölskyldna okkar. Madda og mamma mín kynntust á Hús- mæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði og varð strax mikil vin- átta og væntumþykja þeirra á milli sem varði alla tíð, alltaf voru þær ofarlega í huga hvor annarr- ar. Það var Madda sem kynnti foreldra mína á sínum tíma, sem var mikið gæfuspor. Ýmsar minn- ingar tengjast fjölskyldunni á Fossvegi 8. Hæst ber boðið á jóla- dag. Það var ekki eingöngu fínt og skemmtilegt jólaboð með góð- um og fallega skreyttum mat, heitu súkkulaði og kökum, heldur einnig afmælisveisla Gulla. Í minningunni var ég öll kvöld jóla- dags æsku minnar hjá þeim og þó að við þyrftum að vaða djúpan snjó til að komast í boðið stoppaði það okkur ekki. Madda og mamma í eldhúsinu heima á Hlíð- arvegi að setja rúllur hvor í aðra, þurrka hárið í hárþurrku með plasthettu sem blés upp þegar búið var að setja hana á höfuðið, þetta var flott og skemmtilegt hjá þeim. Madda að máta fína kjóla sem mamma var að sauma á hana, alltaf jafn glæsileg og fín til fara. Madda og mamma fyrir nokkrum árum í heimsókn, nutu þess að borða pönnukökur með rjóma og drekka heitt súkkulaði með. Vin- konurnar töluðu og töluðu saman í marga tíma og undirrituð hitaði meira súkkulaði. Madda var að mörgu leyti á undan sinni samtíð, hún var alla tíð útivinnandi, stundum með heimilishjálp en oftast hjálpuðust þau Gulli að með það sem gera þurfti. Einnig tók hún mikinn þátt í félagsstörfum og skipulagði meðal annars margar fjáraflanir enda vissi hún oftast hvar skórinn kreppti í samfélaginu á Siglufirði. Madda hafði yndi af söng og þess naut Kirkjukór Siglufjarðar- kirkju. Fyrir störf sín var hún sæmd hinni íslensku fálkaorðu og var vel að þeim sóma komin. Madda var mjög hlý og hjálp- söm og hljóðlega gaf hún sér tíma til að sinna þeim sem í þörf voru. Frænka mín var alltaf hress, já- kvæð, glöð og með blik í auga, væntumþykja og kærleikur streymdi frá henni til okkar allra. Hún gleymdi aldrei afmæli eða öðrum viðburðum, passaði að börnin fengju gjafir, enginn mátti verða út undan. Börn Möddu og Gulla eru sómi þeirra, þau hafa erft hlýjuna og hressleikann og marga aðra góða eiginleika for- eldra sinna. Þeim og fjölskyldum þeirra flytjum við fjölskyldan okkar dýpstu samúðarkveðjur. Ingibjörg Hinriksdóttir. Elskuleg frænka er látin, eftir langa, viðburðaríka og gefandi ævi. Madda og Gulli eignuðust fjög- ur börn sem hafa öll verið foreldr- um sínum til mikils sóma. Madda frænka hafði mikil áhrif á mig í æsku, hjálpaði mér og studdi þeg- ar ég hóf undirbúning að framtíð- arnámi mínu í hjúkrun. Hún var hjúkrunarkona af guðs náð. Alla sína ævi stundaði hún sjálfboðaliðastörf í heimabyggð sinni og víðar. Um 13-14 ára aldur tók Madda upp á því að fara heim til aldraðra og einstæðinga í bænum og bauð þeim þá hjálp sem hún var fær um að veita. Hún fór í sendiferðir, las og skrifaði bréf og jólakort og gladdi fólkið á ýmsan annan hátt. Magðalena var 14 ára þegar hún gekk í Kirkjukór Siglufjarðar og söng þar fram á efri ár. Ómæld er sú vinna þar sem hún hefur staðið fyrir fjáröflun fyrir kirkj- una, tertur sem hún og fleiri kon- ur í kórnum bökuðu og gáfu til fjáröflunar á kaffidögum og fyrir erfidrykkjur. Magðalena gekk í Kvenfélag Siglufjarðar 16 ára og þar end- urvakti hún starf móður sinnar, sem hafði gefið félaginu minning- arkort til fjáröflunar, en þetta starf hafði lognast út af þegar kortin voru uppseld. Madda kom þessu á „koppinn“ aftur og í fjöl- mörg ár sá hún um afgreiðslu þeirra, og handskrifaði m.a. öll kort, og kom þeim í réttar hendur eða póstlagði. Þá er komið að að ég held stærsta baráttumáli Magðalenu, en það var að reist yrði elli- og hjúkrunarheimili á Siglufirði. Í meir en 25 ár stóð hún fyrir bingókvöldi einu sinni í mánuði frá hausti til vors. Þess á milli safnaði hún vinningum um allar þorpagrundir. Hún þekkti marga og nýtti sér það óhikað málefninu til stuðnings, og allir vildu hjálpa til og seldu henni ódýrt eða gáfu í gott málefni. Hér fyrir sunnan naut hún aðstoðar barna, ætt- ingja og vina við að sendast og sækja dót, og keyrði hún ófáar ferðir norður með drekkhlaðinn bílinn af bingóvinningum. Kvenfélag Sjúkrahússins var stofnað 22. nóvember 1953. Magðalena var formaður í 28 ár en lét af því starfi árið 2008. Í þessu starfi, að öllum ólöstuðum, var hún „potturinn og pannan“ í öllu og dreif allt áfram. Við úttekt á sjúkrahúsum landsins fékk þá- verandi heilbrigðisráðherra lista yfir tæki og tól ásamt húsbúnaði á sjúkrahúsum landsins og m.a. samantekt frá Sjúkrahúsi Siglu- fjarðar. Það vakti athygli hans að ítrekað kom nafn þessarar konu fyrir þar sem hún stóð fyrir fjár- öflun til tækjakaupa fyrir sjúkra- húsið og alls konar húsbúnaðar fyrir dvalar- og elliheimilið. Hún hafði þann háttinn á að hún ein- faldlega spurði læknana hvað þá vantaði – og fór síðan í fjáröflun í framhaldinu. Elsku frænka, megi þér vegna vel á nýju tilverusviði með ástvin- um sem farnir eru á undan. Bless- uð sé minning þín. Kæru frændsystkini og ætt- ingjar, gleðjist yfir að hafa átt svona frábæra mömmu, ömmu, tengdamömmu, langömmu og frænku. Erla Óskarsdóttir. Um þessar mundir upplifum við sem höfum búið á Siglufirði um lengri eða skemmri tíma það að kveðja einstaklinga sem hafa haft mikil áhrif á hið siglfirska samfélag um langan tíma. Kveðja þá sem hafa verið máttarstólpar samfélagsins í Þormóðs Ramma fagra firði, Siglufirði. Hún Magðalena Hallsdóttir, eða Madda eins og hún var ávallt nefnd í lifuðu lífi, var svo sann- arlega einn af máttarstólpum í fé- lags-, menningar- og kirkjulífi Siglufjarðar um áratuga skeið. Hún Madda var alin upp við það á heimili sínu að allt félagslíf skipti miklu máli. Margir einstak- lingar úr fjölskyldu hennar ólust upp við þá skoðun, sem aftur þýddi það að fjölskylda hennar var mjög svo mótandi í öllum fé- lagsmálum á Siglufirði. Ung að árum, mjög ung, hóf hún Madda að syngja í kirkjukór Siglufjarðarkirkju. Þegar hin glæsilega kirkja á Siglufirði, þá ein stærsta kirkja á Íslandi, var vígð þann 28. ágúst árið l932 söng hún Madda í kirkjukórnum í vígsluathöfninni aðeins tólf ára gömul. Þekkt er mynd af kirkju- kórnum þar sem má sjá hana Möddu, séra Bjarna Þorsteinsson sóknarprest og tónskáld sem og organistann Tryggva Kristinsson og Þormóð Eyjólfsson söng- stjóra. Sú mynd birtist í sögu Siglufjarðarkirkju, sem gefin var út á 50 ára vígsluafmæli kirkjunn- ar. Auk þess að leggja ótrúlega mikið í tónlistarstarf kirkjukórs- ins og almennt í kirkjustarf vann hún Madda mikið afrek í störfum fyrir kvenfélag sjúkrahússins og kvenfélagið Von. Alls staðar sem hún fór laðaði hún fólk til starfa á hinum fé- lagslega vettvangi. Hún var einstaklega jákvæð gagnvart öllum mönnum og mál- efnum Fyrir mér var hún fyrst og síð- ast mikill kirkju- og mannvinur, og auðvitað persónulegur vinur okkar hjónanna. Henni Möddu fannst mjög mikilvægt að fólkið leitaði til kirkjunnar sinnar í gleði og sorg, já í öllu lífinu. Það á vel við að hún Madda sé kvödd hinstu kveðju á sunnudegi. Ekki ósjald- an í gegnum áratugina hefur hún Madda okkar sungið ásamt kirkjukórnum sínum „Sunnudag- ur Drottins er“. Að hennar áliti skipti það svo miklu máli að við mennirnir tækum tíma frá á sunnudegi til að íhuga guðsorð, að ekki sé talað um það að taka þátt í guðsþjónustu sunnudagsins. Guðlaugur Karlsson eiginmað- ur hennar Möddu, sem er nýlát- inn, tók einnig virkan þátt í menn- ingar-, tónlistar- og félagslífi Siglufjarðar. Hann söng m.a. í karlakórnum Vísi sem „gerði garðinn frægan“ á sínum tíma. Það gerðu einnig bræður hennar Möddu með karlakórnum Vísi og síðar með Karlakór Reykjavíkur. Hann Gulli, eins og hann var ávallt kallaður, var í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju um tíma og var virkur í störfum Kiwanis- klúbbsins á Siglufirði. Við hjónin Elín og ég höfum oft rætt um það hve kaupstaðurinn Siglufjöður, sem brátt fagnar 100 ára afmæli sínu, hefur verið heppinn með að eignast góðar dætur og syni. Það er sjónarsviptir af því að hún Madda sé ekki lengur til staðar á Sigló. Ekki til staðar í kirkjukórn- um hennar góða. Andi hennar er þó þar til staðar, kristallast ekki síst í fjölskyldu hennar sem hefur staðið sig vel í öllu lífi og tilveru. Við hjónin þökkum henni Möddu fyrir samfylgdina. Þökk- um fjörutíu ára vináttu og traust í hinu siglfirska samfélagi, sér- staklega þó fyrir allt samstarfið á hinum kirkjulega vettvangi. Guð blessi hina fögru minningu sem hún Madda skilur eftir hjá ættingjum sínum, vinum og sam- ferðafólki. Megi sú minning lifa þótt ár og dagur líði. Kæra fjölskylda, megi hinn lif- andi Guð og faðir blessa ykkur við ástvinamissinn. Vigfús Þór Árnason, fyrrverandi sókn- arprestur á Siglufirði. Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir og amma, BJÖRG KARLSDÓTTIR, Kleppsvegi 62, Reykjavík, lést á Hrafnistu í Reykjavík þann 1. ágúst. Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. . Ásta Erlingsdóttir, Guðleifur Magnússon, Erla S. Erlingsdóttir, Tryggvi Edwald, Erlingur, Björgvin, Elín og langömmubörnin. Ástkær eiginkona mín, móðir, systir og móðursystir, SIGRÚN TRYGGVADÓTTIR ROCKMAKER, Washington DC, lést fimmtudaginn 9. apríl. Minningarathöfn um Sigrúnu fer fram í Fossvogskirkju þriðjudaginn 11. ágúst og hefst athöfnin kl. 15. . Philip Rockmaker, Anna Vala Rockmaker, Daniel Keane, Lára Tryggvadóttir Engebretson, Gary Engebretson, Hrafnkell Tryggvason, Silja Gomez, Richard Benson. Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, KRISTÍN B. TÓMASDÓTTIR kennari, andaðist á Hrafnistu í Reykjavík 1. ágúst. Útför hennar fer fram frá Fossvogs- kirkju miðvikudaginn 12. ágúst kl. 13. Blóm og kransar afþakkaðir. Þeim sem vilja minnast hennar er bent á minningarkort UNICEF. . Einar Kristjánsson, Tómas R. Einarsson, Ásta Svavarsdóttir, Ingibjörg Kr. Einarsdóttir, Sigurður Rúnar Magnússon, barnabörn og barnabarnabörn. Móðir mín og tengdamóðir, ÞÓRA AÐALHEIÐUR JÓNSDÓTTIR, lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grund sunnudaginn 2. ágúst. Útförin verður gerð frá Fossvogskapellu föstudaginn 14. ágúst kl. 13. . Birgir Jóhannesson, Birna María Þorbjörnsdóttir. Elskulegur sonur, bróðir, mágur og kær frændi okkar, BJÖRN VAGNSSON, Boðaþingi 24, Kópavogi, sem lést á heimili sínu föstudaginn 31. júlí, verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju mánudaginn 10. ágúst kl. 13. . Helga Svana Björnsdóttir, Kristján Vagnsson, Hólmfríður Ingvarsdóttir, Stefán Vagnsson, Guðveig Búadóttir, Hreinn Vagnsson, Guðrún Sverrisdóttir, Birgir Vagnsson, Kristín Kristinsdóttir, Gunnar Vagnsson, Elísabet Sigurbjörnsdóttir og fjölskyldur. Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, JÓN ARNFINNUR ÞÓRARINSSON, fv. kaupmaður, lést 30. júlí á hjúkrunarheimili Hrafnistu, Boðaþingi í Kópavogi. Útför hans fer fram frá Kópavogskirkju mánudaginn 10. ágúst kl. 15. . Guðný Rut Jónsdóttir, Lárus Valberg, Ólafur Haukur Jónsson, Inga Lára Helgadóttir, Arnfinnur Sævar Jónsson, Helga Daníelsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.