Skólavarðan - 01.02.2008, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.02.2008, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ). Heldur hefur slaknað á góðærinu síðan ég tjáði mig síðast á þessum vettvangi. Ýmsar blikur eru þar að auki á lofti. Undanfarið hafa félagar í FS verið önnum kafnir við að koma skólastarfi í eðlilegt horf í byrjun nýrrar annar. Jafnframt höfum við tekið þátt í umræðu um frumvörp til nýrra laga um skólamál. Kennarasambandið hefur nú sent frá sér samræmda umsögn um lagafrumvörpin. Ég sé því ekki ástæðu til að tjá mig mjög mikið um þau. En aðeins þó. Í frumvarpi um framhaldsskóla er vafalaust mörg góð nýbreytnin. Eitt af því sem rætt hefur verið er aukið frelsi skólanna til að útbúa eigin námskrár. Þetta lítur vel út og er vafalaust fagnaðarefni fyrir flesta. Vonandi gengur vel að tryggja gæði námsins þannig að ekki verði hætta á verðfalli þess gagnvart þeim vettvangi þar sem nemendur ætla að nýta það að framhaldsskóla loknum. Reyndar er umdeilanlegt hvort frelsi framhaldsskólanna eykst þar sem öll námskrárákvæði eru á endanum háð samþykki ráðherra. Við í stjórn FS komum flest frá skólum með mjög blandað námsframboð. Þá á ég við að við höfum innandyra ýmis konar starfs- og iðnnám. Kannski var það þess vegna að við hnutum um tillögur að lagaákvæðum um vinnustaðanám. Lengi hefur verið rætt um fyrirkomulag vinnustaðanáms á vettvangi sambærilegra starfshópa við þá sem í dag eru nefndir starfsgreinaráð. Rætt hefur verið um hvernig tryggja megi að nemendum bjóðist sú fræðsla sem nauðsynleg er og gerð samnings þar um. Í nokkur ár hafa verið gerðir eins konar námssamningar um vinnustaðanámið á milli vinnustaðar og nemanda, með áritun skóla. Eftirlit með framkvæmdinni hefur þó gengið misvel. Gjarna var rætt að skólar ættu að sjá um að engir meinbugir kæmu upp. Skólum hafa hins vegar ekki verið ætluð nein meðul til þess. Það er ánægjulegt að nýtt lagafrumvarp kveður ákveðið á um framkvæmdina. Verði það samþykkt fylgja væntanlega þau nauðsynlegu meðul sem ekki hafa verið fyrir hendi eins og samningar um hverjir eiga að vinna verkin og það fé sem þarf til að standa straum af kostnaði. Eitt langar mig að nefna enn. Okkur sem gjarna erum kölluð millistjórnendur þótti miður að sjá ekkert starfsheita okkar nefnt í lagafrumvarpsgrein um starfslið framhaldsskóla. Við verðum að treysta því að reglugerðarákvæði sem smíðuð verða við lögin taki á því og skapi okkur tilverurétt. Ég ætlaði ekkert að segja um fjárframlög til framhaldsskóla. Eitt er þó það ákvæði sem gilt hefur og er ekki réttlátt en getur komið illa við fjárhag skólanna. Það er að framlög ákvarðast eftir fjölda nemenda sem ganga til prófs. Þá fæst ekkert fyrir þann sem heltist úr lestinni jafnvel í næst síðustu eða síðustu kennsluviku. Honum hefur skólinn þó þjónað mest allan kennslutímann. Einn félagi minn líkti þessu við að sjúkrahús fengju greitt fyrir sjúklinga sem útskrifast en ekki fyrir þá sem aldrei ná að útskrifast þrátt fyrir góða umönnun. Það er varla ástand sem við óskum okkur í rekstri sjúkrahúsa. Við nálgumst nú lok gildistíma síðasta kjarasamnings. Þegar FS félagar líta um öxl kemur ýmislegt upp í hugann sem við hefðum viljað sjá öðruvísi. Stofnanasamningar og þeir fýsilegu möguleikar sem í þeim áttu að felast. Allt hljómaði þetta áhugavert. Hjá skólum, að minnsta kosti, hefur sýnt sig að möguleikar eru mjög takmarkaðir, það sem var til skiptanna var allt of lítið. Óhemjumikil vinna hefur farið í að semja um eitthvert smáræði. Aðeins í framhaldsskólum hafa væntanlega um 200 manns setið við þessa vinnu. Þá lendum við einnig gjarna í sambærilegu samningaferli við önnur stéttarfélög sem annað starfsfólk skólanna á aðild að. Þessi vinna er hrein viðbót við þau störf sem við réðum okkur til. Hvergi hef ég séð um hana getið í starfslýsingum kennara eða lýsingum þeirra stjórnunarstarfa sem ráða ber kennara til innan skólanna. Margir telja að nóg hafi verið fyrir og vart á bætandi þar sem við þurfum að þjóna þrem herrum í einu, nemendum, kennurum og öðrum stjórnendum. Oft er erfitt að ná heilli hugsun til enda áður en næsta úrlausnarefni kallar. Eitt er það ef til vill sérstaklega sem okkur þykir slæmt við gerð stofnanasamninga. Þegar rætt er um okkar eigin kjör sitjum við báðum megin við borðið og þurfum að fá þau samþykkt af fulltrúum kennara. Það þykir okkur slæm staða. Í Félagi stjórnenda í framhaldsskólum verða því þær raddir sífellt háværari sem vilja krefjast eigin samningsréttar og telja það forsendu þess að hægt sé að semja eðlilega um kjör okkar. Ég óska þess að ný lög fyrir menntastofnanir og nýir kjara- samningar verði gæfurík fyrir menntun á Íslandi og alla sem að henni starfa. Guðmundur Guðlaugsson Á ári nýrrar lagasetningar um menntamál og nýrra kjarasamninga SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 8. ÁRG. 2008 Guðmundur Guðlaugsson Formaður FS. Lj ós m yn d f rá h öf un d i

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.