Félagsbréf - 01.10.1962, Qupperneq 15
FÉLAGSBRÉF
11
sjálfu sér, og það er Halldóri flestum mönnum ljósara. Hann sagði fyrir
tólf árum (í ræðu á listamannaþingi'), „að jafnvel fjandsamlegustu á-
rásir óvinveittra aðila séu listamönnum hollari en hól og lofdýrð. Allar
þær staðhæfíngar sem gera listamanninn ánægðan og segja að nú sé
hann búinn að ná markinu, eru vondar. Hann er aldrei búinn að ná
markinu, einginn listamaður er búinn að ná markinu.“
Halldór liefur líka oftast með einhverjum hætti leitað á ný mið
með hverju verki, um menn og atburði, stað eða tíma, stíl og svip.
Hann hefur jafnvel nýlega farið að glíma við eitt hið erfiðasta listform,
sem hann hafði lítt gefið sig að áður — hefur til þess þrek og þor að
setjast svo að segja á skólabekk á skáldaþingi, ekki til þess að apa eftir
öðrum, lieldur til þess að þreyta afl sitt á breyttum vettvangi í leit að
nýjum skáídskaparháttum. Hann hefur aldrei valið sér auðveldasta eða
áhættuminnsta úrræðið. Og hann getur nú, þrátt fyrir alla ögun, orðið
öfgafyllri og ærslafengnari en áður, þegar hann lítur leiksviðið ferskri
sjón fullorðinsaugna. Hér eru engin stirðnuð skylduverk. Það, sem brot-
ið kann að vera gegn listinni, er fremur í ætt við æskubrek en elliglöp.
Þannig stendur Halldór á sextugu. Meðan svo er, þarf varla að óttast,
að þrjóti það innra vaxtarmagn, sem eitt getur skapað miklar bók-
menntir.
Eg kann ekki að flytja Halldóri Laxness betri óskir á þessum af-
mælisdegi en þær, að hjá honum megi sem lengst etja kappi nýjunga-
girnin og hefðin, djörfung og sjálfsagi, sköpunaraflið og íþróttahugur-
tnn. Af þeim skautum megi framvegis sem hingað til kvikna list hans,
bókmenntirnar — skáldskapurinn, „þessi andi (sem) var kvikan í lífi
þjóðarinnar gegnum alla söguna, og það er hann sem hefur gert þetta
fátæka eyland hér vestur í hafinu að stórþjóð og heimsveldi og ósigr-
andi jaðri heimsins. Streingirnir fimm á hörpu skáldsins, það voru
streingir gleðinnar, sorgarinnar, ástarinnar, hetjuskaparins og dauðans.
Olafur Kárason Ljósvíkíngur. ... lét síðan fíngurgóma sína snerta fimm
streingi hörpunnar í nafni allra fátækra alþýðuskálda sem uppi hafa
verið á íslandi, og þakkaði skáldinu fyrir að hann skyldi liafa komið
til sín akandi í gullinni reið. . . . yfir himinsundin.“