Morgunblaðið - Sunnudagur - 19.06.2016, Qupperneq 15
19.6. 2016 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15
svona „Borða, biðja, elska“-vegferð. Frekar
ferð til að næra sálina og líkamann. Kristín er
mikil hjólakona og hefur hjólað víða um heim,
en þetta var í fyrsta sinn sem hún fór ein í slíka
ferð. „Mörg okkar eru umkringd klaninu sínu
alla daga. Ég ferðast oftast í fiskitorfu, geng á
fjöll með hópi fólks og hjóla með vinum. Það
var nýr staður að fara á að hjóla ein, þótt ég sé
vön að vinna ein og vera ein. Ég tilkynnti
heima hjá mér í apríl að ég myndi líklega
hverfa í fimmtán daga í maí,“ segir Kristín og
hlær.
Hún segist hafa farið eftir sínum eigin
reglum. „Og það mátti allt í mínu ferðalagi,
þetta var þannig ferðalag, ekki „Survivor“ eða
Wow-maraþon. Ég byrjaði í brjáluðu veðri og
þá tók ég strætó og það mátti. Og fyrir norðan
lenti ég í leiðinda helgarumferð og fékk far yfir
í Skagafjörð. Ég kynntist merkilegum mann-
eskjum, Íslendingum og útlendingum og kem
ríkari til baka, eins og maður gerir eftir öll
ferðalög. Allt sem maður gerir er efniviður í
næstu bók,“ segir Kristín en hún hélt úti
skemmtilegri dagbók á Facebook þar sem vin-
ir og vandamenn fengu innsýn í ferðalagið.
„Næst þegar ég fer hringinn ein þá fer ég
kannski á puttanum,“ segir hún og hlær.
Rithöfundar á sakamannabekk
Formaður Rithöfundasambands Íslands
hefur í mörgu að snúast og stundum er
hvasst í brúnni. „Það sem kemur mér mest á
óvart við þetta embætti er að upplifa það svo
sterkt hvernig rithöfundum er stillt upp á ein-
hverskonar sakamannabekk árlega þegar
kemur að úthlutun listamannalauna. Ein-
hverjir fjölmiðlar næra spjallvefina á umræðu
sem byggir mjög oft á vanþekkingu. Stjórn
listamannalauna deilir árlega 550 milljónum
króna úr sex sjóðum til listgreina. Svipuð upp-
hæð rennur árlega í ríkissjóð sem virð-
isaukaskattur af bókum, svo í raun má segja að
bókaskatturinn standi undir öllum sjóðum
listamannalaunanna,“ segir Kristín.
„Við verðum að setja hlutina í samhengi.
Heildarupphæðin nær heldur ekki því sem það
kostar að moka sandi upp úr Landeyjahöfn á
hverju ári. Svo erum við sem betur fer með
allskyns samfélagsstyrki sem við sem þjóð
veitum árlega til mikilvægra rannsókna án
þess að allt fari á hliðina. Við viljum, þrátt fyrir
allt, vera menningarlegt og vísindalegt
nútímasamfélag. Ef öll dæmi eru skoðuð þá
lifa sárafáir rithöfundar á greiðslum af verkum
sínum einum saman, þá höfunda má telja á
fingrum annarrar handar og þeir sækja ekki
um í launasjóð rithöfunda. En með þessu hefur
bókaþjóð á Sögueyju tekist að byggja upp
stétt atvinnuhöfunda sem bera hróður þess-
arar þjóðar víða og halda uppi merkjum bók-
menntaþjóðarinnar. Ég hef skrifað inn í
grunnskólakerfið í áratugi og séð ungviðinu og
fjölskyldunum fyrir lesefni og fáir eru sælli af
sínu starfi en ég. Ritlaunin úr starfslaunasjóði
hafa gert mér þetta kleyft og ég er endalaust
þakklát fyrir það og vona að verkin mín nýtist
á móti. En mér fannst alveg skelfilegt að upp-
lifa það að vera dregin í gegnum umræðuna í
janúar með þessum hætti og inn í einhvern
öskurkór sem er eins og óveður sem kemur úr
öllum áttum.“
Viljum við vera bókaþjóð?
Kristín telur að við ættum að tala saman á
upplýstan og málefnalegan hátt um það hvern-
ig samfélag við viljum vera. „Kannski viljum
við ekkert vera bókaþjóð. En mér finnst að
stjórnmálamenn eigi að verja þetta kerfi, finna
nýjar leiðir, þróa það og þroska. Þetta kerfi
verður til hjá kjörnum fulltrúum. Þeir skapa
þetta kerfi sem við höfum öll ákveðið að vinna
í. Og svo þurfum við að lyfta umræðunni upp á
annað plan eins og Nóbelsskáldið sagði. Og
það er ótrúlega magnað og dínamískt starf
sem fer fram í þessum bókmenntageira, þetta
er grein sem veltir einhverjum fimm millj-
örðum á ári. Margir höfundar okkar eru vel
kynntir erlendis og bera hróður Íslands út um
allan heim, höfundar eins og Yrsa og Arnaldur
og fleiri. Bókmenntirnar eru mikil landkynn-
ing eins og náttúran og víðernið. Í janúar eftir
jólabókaflóðið hefði maður haldið að höfundum
væri þakkað fallegu verkin og jólalesturinn í
stað þess að fiðra þá og tjarga, en þetta eru nú
bara staðreyndir málsins án þess að ég sé að
væla,“ segir Kristín og hlær við.
Kvikmyndahandrit í pípunum
Ég forvitnast um hvað Kristín sé með nýtt í
smíðum. „Við Ottó Geir Borg höfum lengi unn-
ið við handrit að fjölskyldumynd á vegum
Hekla Films. Það er kominn góður heild-
arsvipur á hana, án þess að ég segi meira. Bíó
verður til á jarðsögulegum hraða og kannski
verður þessi mynd gerð þegar við Ottó verðum
komin undir græna torfu. Handritið er bara að
ferðast einhvers staðar í þessum löngu bíóp-
ípum. Svo erum við að fara í annað verkefni
saman en það er leynilegt,“ segir hún kímin.
„Núna safna ég efni í næstu bók og þá er ég
líka að vinna í sögu sem tengist Fíusól eitthvað
án þess að maður vilji segja of mikið. Við Lotta
förum stundum norður á Dalvík og ég sit og
skrifa og hún mænir á mig á meðan,“ segir
Kristín og brosir. Lotta lítur letilega upp þeg-
ar hún heyrir nafnið sitt. Við látum þetta gott
heita. Kaffið er löngu kólnað þegar við kveðj-
umst við lúpínubreiðuna við enda götunnar.
Kristín Helga Gunnarsdóttir hef-
ur sterkar skoðanir á þjóðfélags-
málum, náttúruvernd og jafnrétti.
Morgunblaðið/Ásdís
’ Ég hélt samt að við værumbúin að frelsa þessar geir-vörtur fyrir löngu, þegar hippa-stelpurnar köstuðu höldunum og
við lágum berbrjósta í sólbaði.
En þetta sýnir okkur að það þarf
alltaf að hreinsa til.
Kristín hélt úti dagbók á ferð sinni um-
hverfis landið og birti á facebook-síðu
sinni. Hér má lesa smá bút úr kafla:
En á vegi mínum urðu ástfangnir
Frakkar á leið til vinnu á sveitabæ í Rang-
árvallasýslu, Galisíumaður sem elskar Ís-
land en langar samt til Suður-Ameríku,
viðkunnanlegur bifvélavirki og ferðaþjón-
ustubóndi sem sækir villta ferðamenn á
fjöll, Lundúnabúi sem átti sér draum um
að sofa í tjaldi við Jökulsárlón og lét hann
rætast. Já, og lyfjaeftirlitsmaður frá Köln,
svefndrukknir vegavinnujaxlar, gulur
köttur á glugga og bílsjúkur smalahundur
í bandi. Hann var með of þrönga hálsól.
Það er alltof algengt vandamál hjá hund-
um. Ég missti af því að hitta mögulegan
framtíðartengdason í Skaftafelli. Það er
líka löng saga og persónuleg. Svaf í lamb-
húsum undir jökli og fauk inn í himin-
blámann í Suðursveit með langdrægum
suðvestanvindinum í dag. Áminning:
Muna að segja vegamálastjóra að laga
þjóðveg eitt, gera ráð fyrir milljón túr-
istum á rútum, svefnkerrum, smábílum
og reiðhjólum og skoða sérstaklega ein-
breiðar brýr. Á meðan er rússnesk rúll-
etta. En spóinn vellir graut og skúmurinn
eltir hjólandi mannfólk. Ramakvein úr
fjárhúsum og nýfædd lömb í heimatún-
um. Rölti svo um sýninguna hans Þór-
bergs á Hala og kom meyr og viðkvæm
út, í tilfinningarússi yfir bókum sem
skipta máli. Yfir Sálminum og Bréfinu og
sögunum úr Suðursveit. Yfir steinum
sem tala og spádómum meistarans um
hótel á Hala.
DAGBÓK KRISTÍNAR Á HRINGFERÐ
Fauk inn í himinblámann
Kristín hjólaði hringinn til að styrkja líkama
og sál. Hún hitti ýmsa ferðalanga í ferðinni.