Morgunblaðið - 29.09.2016, Síða 32
32 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 29. SEPTEMBER 2016
flísar fyrir vandláta
PORCELANOSA
Skútuvogi 6 - Sími 568 6755
VIÐTAL
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Tímamót verða í íslenskri björguna-
rsögu á morgun, en þá lætur Ben-
óný Ásgrímsson þyrluflugstjóri af
störfum hjá Landhelgisgæslunni.
Benóný hefur staðið vaktina svo að
segja óslitið frá 1978, eða í 38 ár.
Hann verður 65 ára á morgun og
samkvæmt reglum má hann því ekki
starfa lengur sem atvinnu-
flugmaður. Hann mun því fljúga sitt
síðasta þyrluflug á morgun.
Benóný er fyrir löngu orðinn goð-
sögn. Enginn hefur starfað lengur
við björgunarflug hér á landi og
jafnvel í öllum heiminum. Og án efa
hefur enginn bjargað jafn mörgum
mannslífum.
„Ég hef oft verið spurður að því
hve mörgum mannslífum ég hef
bjargað en ég hef alltaf svarað á
sama veg: Ég hef ekki hugmynd um
það,“ segir Benóný í samtali við
Morgunblaðið.
„Það skiptir mig ekki neinu máli
persónulega hve mörgum ég hef
bjargað í gegnum árin. Því hefur
verið haldið fram að þetta séu ein-
hver hundruð en ég bara veit það
ekki. Það sem er svo gefandi og
hvetjandi er allt þakklætið sem
maður hefur fengið. Stundum hefur
mér þótt þetta óverðskuldað því
þetta er jú bara vinnan manns. En
það er ekki hægt að lýsa því með
orðum hve mikils virði það er fyrir
okkur sem störfum á þessum vett-
vangi að fá þakkir fyrir störf okkar.“
Því var fagnað í síðasta mánuði að
Benóný átti 50 ára starfsafmæli hjá
Landhelgisgæslu Íslands. Í frétt á
heimasíðu stofnunarinnar þann dag
sagði: „Benóný á að baki hreint
stórkostlegan feril sem þyrluflug-
stjóri og er að öðrum ólöstuðum
reynslumesti flugstjóri landsins í
leitar- og björgunarflugi og þótt víð-
ar væri leitað.“
Byrjaði á sjónum 14 ára
En hvenær byrjaði ferillinn?
„Ég byrjaði á sjónum 14 ára gam-
all á gamla Ægi, en hann var smíð-
aður 1929. Þetta var í ágúst 1966 og
ég þurfti að fá undanþágu því ekki
mátti munstra á skipið yngri menn
en 15 ára. Þetta var mjög eftir-
minnileg ferð. Þröstur Sigtryggsson
var þá þegar orðinn skipherra og við
vorum í síldarleit úti af Norðaust-
urlandi. Þannig byrjaði ég hjá Gæsl-
unni. Ég var viðvaningur eins og
það var kallað og svo skemmtilega
vill til að þetta er eini ráðningar-
samningurinn sem Gæslan hefur
gert við mig.“
Benóný vann sig upp hjá Gæsl-
unni; varð háseti, bátsmaður, stýri-
maður og kafari. Hann fór síðan í
Stýrimannskólann í Reykjavík, lauk
farmannaprófi árið 1972 og útskrif-
aðist frá varðskipadeild sama skóla
árið 1974. Hann var stýrimaður á
varðskipunum í báðum þorskastríð-
unum á áttunda áratug síðustu ald-
ar, aðallega á nýja Ægi hjá Þresti
skipherra.
Hvenær tók svo flugið við?
„Það æxlaðist þannig að Pétur
Sigurðsson forstjóri kom að máli við
okkur þrjá stýrimenn, mig, Boga
Agnarsson og Hermann Sigurðsson,
og spurði hvort við vildum ekki læra
flug. Hann hafði hug á því að kaupa
þyrlu til þess að hafa um borð í
varðskipunum. Við fórum allir þrír í
flugnám. Ég lærði fyrst á venjulega
flugvél og síðan á þyrluna.“
Benóný varð lausráðinn flug-
maður hjá Landhelgisgæslunni árið
1978, en þá hafði hann verið 12 ár á
sjó. „Þegar ég byrjaði átti Gæslan
tvær litlar þyrlur af gerðinni Bell og
Hughes. Við notuðum þær aðallega
til að sinna vitunum og svo í marg-
víslega þjónustu við landsmenn. Í þá
daga voru engir vélsleðar og fjórhjól
til snúninga. Við unnum mikið fyrir
Orkustofnun við flutninga og fórum
á Hveravelli og fleiri afskekta
staði.“
Benóný var lausráðinn fyrstu tvö
árin og síðan kemur Sikorsky-
þyrlan TF-RÁN til landsins árið
1980 og þá fær hann fastráðningu
sem flugmaður.
Sú vél fórst í Jökulfjörðum í
nóvember árið 1983 og með henni
allir sem voru um borð. „Þessi at-
burður hafði alveg gríðarleg áhrif á
mig,“ segir Benóný.
„Þá var staðan orðin þannig á Ís-
landi að þyrlusagan var alveg skelfi-
leg. Margar þyrlur höfðu farist og
með þeim margir frábærir menn.
Eftir að Ránin fórst kom meira að
segja fram þingsályktunartillaga á
Alþingi um að Íslendingar ættu að
hætta þyrlurekstri og láta ameríska
varnarlið um björgunarstörfin. En
sem betur fer varð það ekki niður-
staðan og eftir talsverða baráttu var
ákveðið að Landhelgisgæslan keypti
TF-SIF árið 1984, sem var frönsk
þyrla af gerðinni Dolphin. Eftir það
hefur þyrlureksturinn gengið miklu
betur hjá okkur,“ segir Benóný.
„Fyrir þrýsting sjómanna fáum við
svo Super Puma þyrluna árið 1995,
sem var virkilega mikil bylting fyrir
okkur. Þegar varnarliðið var hér var
það alltaf með fimm þyrlur og þær
voru útbunar með afísingarbúnaði,
nætursjónaukum, sjálfstýringu og
öðrum búnaði sem við höfðum ekki á
Sif. Þessa tækni fengum við að
stórum hluta þegar Super Puma
þyrlan kom.“
Erfiðast að þurfa að gefast upp
Hvert var erfiðasta björgunar-
flugið sem þú hefur farið á ferl-
inum?
„Ég er oft spurður þessarar
spurningar og þá er stundum vísað
til þess þegar við björguðum skip-
verjunum á Dísarfelli í mars 1997.
Þá þurftum við að taka margar
ákvarðanir sem voru við mörk hins
ómögulega. En aldrei var vélinni
eða áhöfn hennar stefnt í hættu. En
erfiðustu flugin sem ég hef farið í
eru þau þegar ég og áhöfnin höfum
orðið að gefast upp vegna þess að
veðrið var orðið svo vont að við urð-
um snúa til baka. Það þarf engan
kjark til að halda áfram og fara að-
eins yfir mörk hins ómögulega, það
þarf bara örlítið dómgreindarleysi.
Það þarf gríðarlegan kjark til að
ákveða að gefast upp og segja, ég
get ekki haldið áfram í þessa tví-
sýnu. Þessi staða kom sem betur fer
ekki oft upp en eitt atvik er mér sér-
staklega minnisstætt. Þá vorum við
á minni þyrlunni okkar og vorum
búnir að brjótast á slysstað í þrjá
klukkutíma í mjög slæmu veðri.
Bátur hafði strandað og það var
komið myrkur þegar við komum á
strandstað. Við vorum komnir svo
nálægt að við sáum skipbrotsmenn-
ina í brotunum haldandi sér í mastr-
ið og annað. Það voru kannski tvær
mínútur eftir fyrir okkur að bátnum,
við reyndum tvisvar en urðum að
gefast upp. Þetta er erfiðustu
flugin.“
Benóný hefur ekki bara flogið á
þyrlum. Hann hefur einnig flogið
flugvél Landhelgisgæslunnar og svo
var hann flugmaður hjá Atlanta árin
1997-2000. Flaug um allan heim,
m.a. í pílagrímaflugi. „En ég hef
alltaf kunnað best við mig á þyrl-
unum, mér hefur liðið best úti á
Hala og á Reykjaneshrygg.“
En hvernig er þér innanbrjósts
nú þegar þessi kaflaskil verða?
„Þegar ég lít yfir farinn veg er ég
mjög ánægður með feril minn sem
þyrluflugmaður og tel að ég hafi
verið afskaplega farsæll. Sér-
staklega vil ég þakka það góðu fólki
sem ég hef unnið með allan minn
tíma hjá Gæslunni. Þar hefur verið
margt fagfólk sem hefur verið já-
kvætt og stutt hvert annað. Og svo
hefur maður fengið reynsluna hægt
og bítandi.“
Benóný ætlar ekki að setjast í
helgan stein þótt hann sé að hætta
hjá Gæslunni. Hann hefur ráðið sig í
hlutastarf hjá flugdeild Samgöngu-
stofu „til að fylgjast með þyrlufólk-
inu,“ eins og hann orðar það.
Hefur staðið vaktina frá 1978
Benóný Ásgrímsson þyrluflugstjóri lætur af störfum á morgun Hefur enga hugmynd um það
hve mörgum mannslífum hann hefur bjargað Á að baki stórkostlegan feril, segir Gæslan
Morgunblaðið/Ófeigur
Síðasta vaktin Benóný hóf í gær síðustu þyrluvaktina. Vaktinni lýkur á morgun þegar hann fer í síðasta flugið.
Á Ægi Ungir stýrimenn, Hálfdán Henrysson og Benóný Ásgrímsson.
Æviatriði
» Benóný Ásgrímsson er
fæddur í Reykjavík 30.
september 1951.
» Foreldrar hans voru Ólöf
Helga Benónýsdóttir, kaup-
kona og húsmóðir, og Ásgrím-
ur Ásgeirsson, stýrimaður og
skipherra hjá hjá Landhelg-
isgæslunni. Þau eru bæði látin.
» Eiginkona Benónýs er Krist-
ín Ingibjörg Gunnarsdóttir.
Hann á þrú börn, Benóný f.
1973, Oliver Helga f. 1979 og
Stefaníu Ástrós f. 1992.