Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Side 2
2 TMM 2007 · 4
Frá ritstjóra
Vigdís Finnbogadóttir, sem venjulega gerir góðlátlegt grín að þessum ritstjóra-
pistlum, sagði að ég mætti vel hafa eftir sér að síðasta hefti hefði verið gott, það
hefði verið svo margt nýtt í því. Þetta var dýrmætt hrós, því hið eilífa markmið
ritstjóra tímarita er að birta efni sem fólk hefur ekki lesið áður. Á öld copy og
paste er það stundum snúið.
Heimi Pálssyni fannst heftið líka svo fjölbreytt að það væri til sóma: „Þarna
eru ritgerðir sem eru harðar undir tönn en afskaplega þarfar eins og Þórir um
Steffens og Ash um Evrópu. Ljóðin eftir Gerði Kristnýju, Guðjón Sveinsson og
Véstein eru afskaplega notalegar perlur. Ljóð Ögmundar læknis til Audens er
gersemi. Svo máttu náttúrlega vera stolt af að fá að birta kvæði Jóhannesar úr
Kötlum um Litlu ló og Þórberg. Mats Johansson er hreinlega drepfyndinn.
Sagan hans Bubba varð mér mikil skemmtilesning. Í fyrsta lagi vegna þess að
hún tók sér sæti við hliðina á Grænlandssögu vinar okkar Böðvars [úr safninu
Sögum úr seinni stríðum, 1978]. Strákurinn sem Bubbi hitti er nefnilega ein-
hverskonar tvíburi þess merkilega stráks sem Böðvar lýsti. Í öðru lagi kallaðist
þessi saga á við veiðisögur Björns Blöndals og annarra snillinga. Sagan hans
Guðmundar um yfirbótina er auðvitað hryllileg, en afskaplega góð.“ Grein Jón-
asar Sen finnst Heimi frábær og ljóðayfirlit Þorleifs ómetanlegt (sjá bréfið í heild
á www.tmm.is), en ungskáld voru óánægð með sinn hlut þar. Einn sagðist þó
alveg sáttur við að eldri kynslóðin kynni ekki að meta ljóðin hans!
Eggert Ásgeirsson gladdist líka yfir grein Þóris Óskarssonar um Henrich
Steffens og íslenska bókmenntasögu: „Hef reyndar sjálfur rekist á tuggur eða
endurvinnslu, kallaði það í Lesbók Mbl. fyrir löngu flökkusögur þar sem hver
lepur eftir öðrum. Þá var það af litlu tilefni. Þórir opnar hér umræðu um undir-
stöðuþátt bókmenntasögunnar.“ (Meira á www.tmm.is)
Margir höfðu falleg orð um ferðasögu Lindu Vilhjálmsdóttur til Kólumbíu, og
eftir á að hyggja varð bara eitt efnisatriði síðasta heftis útundan í athugasemdum
lesenda. Það var þó það atriði sem ég bjóst við að flestir myndu hafa orð á,
nefnilega úrvinnsla Bjarna Bjarnasonar úr draumum Díönu prinsessu eins og
hún sagði þá sálfræðingi sínum. Þetta hefur kannski þótt óviðeigandi efni í
bókmenntatímariti, en ég vona að lesendur hafi ekki látið það fæla sig frá því að
lesa þennan ljóðræna og átakanlega texta.
Nú hefur enn orðið klofningur og nýr samruni í bókaútgáfubransanum. Edda
útgáfa, sem hefur verið dyggur bakhjarl TMM með auglýsingu í hverju hefti, er
klofin í herðar niður og bókaútgáfuhlutinn sameinaður JPV útgáfu. Hið nýja
Forlag, sem þá varð til, féllst fúslega á að taka auglýsinguna aftan á kápu ritsins,
en æ öflugri samkeppnisaðili þess, bókaútgáfan Salka, veitir sinn stuðning með
auglýsingunni fremst í heftinu. Þeim eru báðum færðar alúðarþakkir.
Gleðilegt jólabókaflóð, kæru lesendur,
Silja Aðalsteinsdóttir