Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Síða 3
TMM 2007 · 4 3
Bragi Ólafsson
Peruvín
Eftir að hafa verið með nokkrum vinum á baðströnd á
Nýja Englandi, þar sem við lékum okkur að þeirri
spurningu hvort líklegra væri að það gerðist á grárri
íslenskri strönd, til dæmis við Dyrhólaey, eða hér á
þessari okkurgulu sandlengju á austurströnd Banda-
ríkjanna, að einmanalegt aðsogið vekti upp í huga
manns þá löngun að stytta sér aldur,
varð mér hugsað til þess að á leiðinni til baka – eins og
alltaf á leiðinni til baka – myndi dauðinn enn hafa
möguleika á að grípa inn í líf manns,
og eftir að hafa lygnt aftur augum, í upplýstu myrkri á
steinbekk í almenningsgarði í Murcia á Suður-Spáni, í
þeirri vissu að hvað svo sem gerðist í framtíðinni, þá
væri maður sjaldnast einn ábyrgur fyrir þeirri atburða-
rás; eins og sköpun heimsins gerði ráð fyrir kæmi
alltaf annað fólk við sögu í því sem maður tæki sér
fyrir hendur, eins og til dæmis barnafatasalinn sem
hafði tekið mig upp í sendiferðabíl sinn á þjóðveginum
í nágrenni við kvöldmyrkrið, peningalausan og án
þess að hafa samastað yfir nóttina, og boðið mér, þegar
tók að dimma, að leggjast með sér á hóteli skammt
fyrir utan Murcia, gegn fimm þúsund peseta greiðslu
sem hann, en ekki ég, myndi inna af hendi (og síðan
stuttu síðar hleypt mér út úr bílnum, án þess að kveðja,
við fyrrnefndan almenningsgarð),