Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Blaðsíða 8
8 TMM 2007 · 4
D i c k R i n g l e r
sem leiða að hámarki kvæðisins, þakkarerindi til Guðs. Jónas aftur á
móti byrjar á hinu sérstaka og raðar því upp í ákveðna röð sem er bæði
eðlileg og felur í sér stigmögnun (fífilbrekka, gljúfrabúi, bunulækur,
hnjúkafjöllin). Hann byrjar næst sér og færir sig fjær og ofar, en hámarki
nær kvæðið í yfirsýninni yfir dalinn í lokaerindinu (sæludalur). Jónasi
virðist hafa fundist að við þessa nýju byggingu yrði þakkarerindið til
Guðs annaðhvort spennufall eða óþarft og sleppir því. (Altént er það ein
skýring á því að það er ekki með.)
Þetta nægir um endurskipulagningu Jónasar á „Landkostunum“. En
hvað skyldi gerast í bragnum? Þar eru breytingar Jónasar jafnvel ennþá
merkilegri.
Lítið á fyrsta erindi Jóns. Tvær síðustu línurnar eru alveg eins og tvær
þær fyrstu. Jón notar bragarhátt Frimanns og þar með rímfléttuna líka
ABABCCAB. Lítið nú á fyrsta erindi Jónasar. Hann heldur endurtekn-
ingunni á fyrstu línunum í lokin en rímfléttan hefur breyst. Hjá Jónasi
er rímið bara A og B: ABAAABAB, ekkert C eins og hjá Jóni. Það sem
mætir okkur hjá Jónasi er triolet-bragarhátturinn, mun erfiðari háttur
og meiri ögrun en sá sem Frimann og Jón nota.
Triolet er niðurnjörvaður bragarháttur sem rekja má aftur til 13. aldar
í Frakklandi og var síðan þróaður þar af skáldum eins og Deschamps og
Froissart. Sem dæmi tek ég erindi eftir þýska skáldið Adelbert von
Chamisso:
Freund, noch einen Kuß mir gib,
Einen Kuß von deinem Munde,
Ach, ich habe dich so lieb!
Freund, noch einen Kuß mir gib.
Werden möcht ich sonst zum Dieb,
Wärst du karg in dieser Stunde;
Freund, noch einen Kuß mir gib,
Einen Kuß von deinem Munde.
Þetta erindi er í stífasta triolet-formi: línurnar eru átta, rímið aðeins A
og B. Fyrsta línan er endurtekin óbreytt í fjórðu línu og fyrsta og önnur
lína eru endurteknar óbreyttar í lokin. Nafnið „triolet“ er sennilega
dregið af því að fyrsta vísuorðið er endurtekið tvisvar, í fjórðu línu og
aftur í sjöundu línu; það kemur þannig fyrir þrisvar. Vísa Chamisso er
úr fimm erinda kvæði undir þessum hætti. Jónas þýddi allt kvæðið
undir heitinu „Kossavísa“, og þá held ég að hann hafi í fyrsta skipti glímt
við triolet-formið á íslensku. Lausnina sem hann fann þá notar hann svo
snilldarlega í „Dalvísu“.