Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Page 17
TMM 2007 · 4 17
Hallgrímur Helgason
Hólmganga Jónasar
Rýnt í línur Gunnarshólma
Gunnarshólmi er besta kvæði Jónasar Hallgrímssonar og verður að teljast
glæsilegasta ljóð ort á íslensku. Listaskáldið góða hafði ort og átti eftir að
yrkja margt gott en hér virðist það hafa fengið spark í rassinn. Jónas fer
fram úr sjálfum sér og nær nýjum hæðum. Til verður nýtt skáld sem tekur
JH næstum jafn mikið fram og hann sjálfur skáldbræðrum sínum. Hvað
hafði gerst? Kannski hafði æfingin skapað meistara, kannski upplifði
hann fegursta sumarkvöld sögunnar í Fljótshlíð 1837, kannski efldi erfitt
bragform þrótt og kannski krafðist hið stóra erindi ljóðsins tómrar snilld-
ar? En kannski var það líka hvatning frá góðum manni sem lyfti honum
úr hnakki nítjándu aldar í hæstan sess.
Eitt er víst að enginn gengur illa vopnaður á hólm við frægasta kafl-
ann í sjálfri Njálu. Jónas reiðir enda hátt til höggs, strax í fyrstu línu:
Skein yfir landi sól á sumarvegi
Okkur býðst að velja sjónarhorn. Lítum við land frá sólu eða sól frá landi?
og silfurbláan Eyjafjallatind
Hér er Jónas fallegur; dregur upp fimm liða línu í aðeins þremur
orðum.
Í minningunni eru ljóðlínur Gunnarshólma jafn langar og Skeiðar-
árbrú, jafn tignarlegar og Öræfajökull, jafn stórar í sér og Vatnajökull.
Manni finnst þær hljóti að telja sex ef ekki sjö bragliði. Þegar litið er
aftur á kvæðið eftir langt hlé kemur því á óvart að hinar stórbrotnu línur
eru aðeins fimm liða stakhendulínur á la Shakespeare þótt hátturinn
sjálfur heiti þríhenda, terza rima, talinn notaður fyrst af Dante í Divina
Commedia.
Fimm bragliðir: „og silf“, „ur blá“, „an Eyj“, „a fjall“ „a tind“.