Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Page 29
TMM 2007 · 4 29
H ó l m g a n g a J ó n a s a r
blómi í kvæði sín. Hér er hún á undarlegum stað. Að minnsta kosti kann
ungum lesanda að þykja langt seilst hjá listaskáldinu að láta villtar rósir
vaxa í miðri Fljótshlíð. Spakir menn hafa þó bent á að hér mun átt við
eyrarós.
Hannes Hómsteinn Gissurarson setti nýverið (í Fréttablaðinu
15.06.07) fram óvænta skýringu á hughvarfi Gunnars á Hlíðarenda,
frumlega túlkun á frægri senu: Fegurð hlíðarinnar var aðeins yfirvarp.
Hin raunverulega ástæða fyrir því að hetjan heldur aftur heim er kona
hans. Gunnar treystir ekki Hallgerði. Eigi skal langt frá langbrók.
Gunnar metur það svo að hugarvílið sem fylgir því að vita af ótrúrri
eiginkonu einni heima á bæ sé hetjudauðanum verri. Og fer því hvergi.
Eigum við að láta frumlega kenningu Hannesar Hólmsteins hvetja
okkur út í þann glannaskap að segja að Jónas yrki hér undir rós? Að
undir þeirri rós blundi önnur blautleg sem blikar bleikt við hold? Slíkt
hefur alveg örugglega ekki hvarflað að Jónasi Hallgrímssyni – enda
gengi það gegn þjóðvakningarerindi ljóðsins – en stundum veit ljóðið
meira en skáldið og eilífar línur þrífast á nýjum túlkunum.
Hér vil ég una ævi minnar daga
Þessa unaðslega mjúkortu línu má forseti vor til með að útnefna þriðju
bestu ljóðlínu Íslands. Það má una ævilangt við þessi orð. Næsta lína er
hinsvegar sagnfræðilega „röng“ eins og áður vék að:
alla, sem guð mér sendir. Farðu vel,
bróðir og vinur!“ – Svo er Gunnars saga.
Svo er Gunnars saga. Hér er kvæðinu um Gunnar á Hlíðarenda í raun
lokið. Sextíu og sex línur hafa leikið um hug lesandans sem þó er ekki
fullnægður. Því bætir Jónas við einskonar neðanmálsgrein þar sem
hann hnykkir á erindi sínu. En neðanmálsgrein úr munni góðskáldsins
er enginn þurramatur heldur nýr ljóðkafli ortur í átthendum hætti,
ottava rima, sem Boccaccio beitti fyrstur skálda. Sá bragur ber keim af
þríhendu en er brotinn upp eftir sex línur með tveimur samrímandi. Vel
fer á því að skipta um bragarhátt því nú stígur ljóðmælandi grímulaust
fram, nefnir sjálfan sig í fyrstu persónu, og leggur út af hlutskipti Gunn-
ars á Hlíðarenda.
Samt sem áður má gagnrýna þá leið sem Jónas velur. Óneitanlega
hefði glæsilegasta kvæði sögunnar verið enn glæsilegra hefði skáldið
haldið það út í sama hætti allt til enda. Höfundurinn hefði auðveldlega