Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Page 31
TMM 2007 · 4 31
H ó l m g a n g a J ó n a s a r
Hugljúfa samt ég sögu Gunnars tel,
þar sem ég undrast enn a köldum söndum
lágan að sigra ógna bylgju ólma
algrænu skrauti prýddan Gunnarshólma.
Algrænt skraut. Hver annar gæti fundið íslenskum grasbletti svo fögur
orð? Ástmögur gælir við land sitt af mikilli elsku. Stundum er Jónas
„góður“ í öllum skilningi orðsins.
Hér stendur Jónas sjálfur á Gunnarshólma. Hér stendur skáldið í
sporum hetju sinnar. Gunnar ákvað að fara ekki að heiman. Jónas er
nýkominn heim. Eftir fimm ára utanvist lítur hann landið á ný og er
allur upptendraður. Líkt og Gunnar sér hann landið með augum útlag-
ans og elskar það sem aldrei fyrr. Í ævisögu Jónasar segir Páll Valsson
frá því að í Fljótshlíðardvöl sinni þetta sumar hafi skáldið riðið milli
bæja og reynt að fá bændur til að undirrita bænarskjal til konungs um
að koma á fulltrúaþingi hérlendis. Jónasi var því mikið niðri fyrir. Síðar
um sumarið les hann Njálu og er svo staddur á heimaslóð undir haust
þar sem hann hittir Bjarna Thorarensen (1786-1841) amtmann á
Möðruvöllum, virtasta skáld samtímans og eina embættismann lands-
ins sem fylgdi kröfu Fjölnismanna um þing á Þingvöllum.
Úr öllum þessum þáttum er hinn mikli glitvefur ofinn. Líkt og sagan
og landið krefjist þess er Gunnarshólmi knúður fram úr landsins lið-
ugasta penna; áskorun til hnípinnar þjóðar, einskonar bænarskjal sem
ókomnar kynslóðir hennar áttu eftir að kvitta undir.
Sagan segir að á fundi skáldbræðranna hafi Bjarni skorað á Jónas að
sækja sér yrkisefni í Njálu og jafnvel nefnt Gunnarshólma á nafn. Það
hljómar ekki ósennilega, ekki síst í ljósi þess að amtmaður ólst upp á
Hlíðarenda í Fljótshlíð. Sama saga segir að um kvöldið hafi Jónas riðið
frá Möðruvöllum inn á Akureyri við ungan pilt (sem er heimild sög-
unnar) og þegar tekið til við að yrkja. (Fimmfaldur hófagangur íslenska
hestsins hlýtur að henta vel til fimm liða línugerðar.) Hann hafi síðan
setið áfram við þá iðju hálfa nóttina í ónefndu kamesi og síðan áfram
daginn eftir. Að því loknu á skáldið að hafa sent piltinn með blekblautt
kvæðið inn á Möðruvelli þar sem amtmaður mun hafa sagt að loknum
lestri: „Nú er mér best að hætta að kveða.“ Sem sagt: Stórvirkið Gunn-
arshólmi var ortur í einum spretti á einu kvöldi, einni nóttu og einum
degi.
Allar sögur eiga sér einhverja stoð og kvæðið sjálft hvetur okkur til að
trúa þessari upp að vissu marki. Líklegt má telja að hvatning höf-
uðskálds, sem var 21 ári eldri en okkar maður, hafi verið sem rafstuð í