Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Síða 38
38 TMM 2007 · 4
G u ð m u n d u r S æ m u n d s s o n
Megas er einn þeirra sem hafa hjálpað mér að skoða Jónas í réttu ljósi,
án glansmynda, og leiða mér fyrir sjónir í hvaða skyni helgimyndin af
honum er dregin þannig upp (50):
Um skáldið Jónas
Sauðdrukkinn útií hrauni lá Hallgrímsson Jónas
og hraut eins og sögunarverksmiðja í Brasilíu
mamma komdu ekki nálægt með nefið þitt fína
það er nálykt af honum þú gætir fengið klígju
Hann orti um fallega hluti það er hlálegt
og hellti svo bjór yfir pappírinn og yfir orðið
gættu þín mamma maðurinn hann er með sýfilis
mundu að þegar hann fer skaltu dekka borðið
Já hræið af Jónasi er sannarlega sjórekið
sjórekið uppá fjörur gullstrandlengjunnar
sjáðu mamma manninum honum er illt
hann muldrar eitthvað um hrun og grípur um pyngjuna
Ekki þarf þó að efast um að Megas virði Jónas mikils sem skáld og
meistara orðs og tungu. Annars mundi hann ekki nota svona mikið frá
honum eins og raun ber vitni. Megas ber aukinheldur mikla virðingu
fyrir öllum þeim sögulegu persónum sem hann hefur ort um, annars
væri hann ekki að eyða púðri í þær. Einkum virðist hann upptekinn af
því hvernig þær létu lífið og jafnvel öfunda þær af því að vera dauðar.
Það er ekki að ófyrirsynju því að þar með öðluðust þær flestar við-
urkenningu og aðdáun þjóðarinnar, – ólíkt þeim vesalingum sem enn
hanga á lífi. Fyrir utan Jónas eru það meðal annarra Jón Sigurðsson
frjálsræðishetja alias Jonni Sig afmælisbarn (51, 82), Snorri Sturluson
(48), Ingólfur fundvísi Arnarson (46, 92), Egill Skallagrímsson með
silfrið sitt (47), Pan með pípuna (170) Jón biskup Arason (49), Ófelía hin
settlega (57), Jónas Ólafur Jóhannesson frá Hriflu (91), Þyrnirós (213),
Jón Kennedí (13), Ragnheiður biskupsdóttir (99), síra Sæmi fróði á seln-
um (137, 138), Adam og Eva (41), Ódysseifur (169), Jóhannes skírari (119)
og Skúli fógeti Innréttinganna (264, 281). Megas dáir áreiðanlega þessa
menn og minningu þeirra og ætli hann voni ekki og trúi að hann öðlist
þá viðurkenningu sem hann þráir þegar hann skoppar yfir móðuna
miklu? Sumir þeirra að minnsta kosti voru ekki hærra skrifaðir en hann
sjálfur á meðan þeir lifðu.