Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Síða 42
42 TMM 2007 · 4
G u ð m u n d u r S æ m u n d s s o n
asar hefur fyrst og fremst markast af því hvernig honum gæti sem best
tekist að koma boðskap sínum og skáldskap á framfæri.
Svipað má segja um Megas. Hann yrkir og syngur á íslensku. Íslenska
er hans mál. Hann er geysilega vel lesinn og fróður um sögu og fornar
bókmenntir, rétt eins og Jónas, og vísar oft í þessa þekkingu sína.
Honum er líka tamt að nota þann mikla orðaforða sem hann hefur sótt
í bækur frá öllum tímum og það er ekki vafamál að margir hinna yngri
áheyrenda hans hafa stækkað orðaforða sinn í íslensku að mun bara
með því að hlusta á söngvana hans og tileinka sér þá. En tungan er
honum ekki heilög og hann lítur ekki á hana sem neitt einangrað fyr-
irbæri sem þurfi að geyma sótthreinsað í flösku með miða sem á stend-
ur EKKI SNERTA. Fyrir honum er gildi tungunnar fólgið í tjáning-
armöguleikunum, möguleikum hvers manns til að ná til þess næsta með
orðum sínum. Áheyrendur Megasar eru ekki öll þjóðin – ekki frekar en
Jónasar meðan hann lifði – heldur afmarkaður hluti, ungt gagnrýnið
fólk sem hefur menntast og lesið sér til en er ekki áhrifafólk um gang
samfélagsins. Yrkisefnin eru sótt í reynslu þessa sama hóps eða jafnvel
enn lengra út á jaðarinn. Málfarið í ljóðum Megasar tekur því einnig til
sín margvísleg áhrif frá þeim sem Megas er að yrkja fyrir. Þetta er meðal
annars hans leið til að ná til þessa fólks. Hann notar því slangur og slett-
ur ótæpilega, t.d. orð eins og dekka (47), á nóinu, fatta … djókinn (53),
sorrí (55), droppaðu nojunni, tæm, faktíst (243), fattarðu (246), höslaði,
kríp, hillaði, tremmi, möndla (300) og hikar ekki við að nota þágufalls-
sýki, t.d. æ mér langar svo (251) og rangar beygingar, t.d. ég gangaði eitt
sinn suður við sjá (13), þegar honum finnst hann ná meiri árangri þann-
ig. Að þessu leyti tel ég hugsun hans vera hina sömu og Jónasar Hall-
grímssonar sem einnig notaði það mál sem gafst honum best til að ná
traustu sambandi við þá sem hann vildi ná til. Hefði hann viljað yrkja
fyrir íslenska yfirstétt og embættismenn, hefði hann vafalaust gert það
sem til þurfti, notað embættismannaslangur og dönskuslettur hægri og
vinstri. En þá hefði dagur íslenskrar tungu sennilega ekki verið haldinn
á afmælisdegi hans.
Að sumu leyti finnst mér dagur íslenskrar tungu ekki ná til þess sem
mikilvægast er, þ.e. að ýta undir óendanleika málsins, eilífa hringrás
þess og mátt til endalausrar nýsköpunar. Afmælisdagur Megasar gæti
hentað til slíks, hann er á góðum tíma innan skólaársins, 7. apríl. Við
gætum kallað þetta dag nýsköpunar í íslensku máli.