Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Side 50
50 TMM 2007 · 4
A r n d í s Þ ó r a r i n s d ó t t i r
Þó að þessi óknyttapési deildi klárlega áhugamáli Þráins, þá
hefðu aðferðir þeirra ekki getað verið ólíkari. Þráinn var alvöru-
maður. Ekki smáglæpon eða innbrotsþjófur. Smáglæpon sem sat
nú í sæluvímu einhversstaðar með gleraugu meistarans á nefinu og
visnaðar húðfrumur skáldsins loddu við eyru hans.
Þetta var þyngra en tárum tæki.
Það sem verra var, Þráinn gat ekki alveg hamið aðdáun sína á
vali skúrksins á þýfi. Þetta voru einmitt þeir hlutir sem Þráinn
hefði kosið, hefði honum verið boðið að velja sér gripi úr búinu.
Gleraugun, til dæmis, voru ákaflega persónuleg en jafnframt mjög
opinber hluti ímyndar skáldsins. Og það hafði raunar verið lengi á
dagskrá hjá Þráni að útvega sér mynd af Erlendi í Unuhúsi, þær
lágu bara því miður ekki á lausu. Skáldið hafði sjálft ekki færri en
þrjár portrettmyndir af mannvininum á heimili sínu – þar af eina
í dyngju sinni og aðra á vinnustofunni. Ef Þráinn hefði ekki verið
handviss um hneigðir skáldsins hefði hann jafnvel freistast til að
lesa eitthvað út úr því. Það var ekki oft sem listagyðjur miðaldra
stórskálda voru í formi fúlskeggjaðra karla.
Ef um eitthvert annað skáld hefði verið að ræða, þá hefði Þráinn
kannski freistast til að skrifa pistil um málið, en úr því að þetta var
Halldór var í sjálfu sér ekkert um að tala.
Hvað sem því leið, þá var smart að taka mynd af Erlendi. Engin
spurning.
Bókin um klukkuprjónið hlaut að hafa óvart slæðst með í upp-
talninguna á þýfinu vegna þess að það var eina bókin sem Þráinn
hafði skotið undan án þess að útvega staðgengil. Hann gat ekki
annað en hnussað yfir því að jafnvel eftir ýtarlega eignatalningu
hafði ekki enn komist upp um útskiptingarnar hans. Hverskonar
fólk hafði eiginlega umsjón með safninu, ef þetta voru vinnu-
brögðin? Þetta staðfesti raunar bara það sem Þráinn hafði leyft sér
að trúa – að bókunum væri betur borgið hjá honum. Á heimili
skáldsins virtist hvaða óþjóðalýður sem var geta valsað inn um
allt, meira og minna án eftirlits, og sópað úr hillunum.
Hann velti fyrir sér hvort þjófnum hefði skilist það af útvarps-
upptalningunni að þeir væru tveir, Laxnessvinirnir, eða hvort
hann hefði bara ályktað að klukkuprjónsbókin hefði farið þarna
inn fyrir mistök. Klúður í bókasafnsskráningu, kannski?