Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Page 53
TMM 2007 · 4 53
H n u p l
sér inngöngu í bygginguna. Eins og ósjálfrátt sperrti Þráinn eyrun.
Allt var með kyrrum kjörum.
Erlendur starði þungur á brún upp úr kassanum.
En kannski, hugsaði Þráinn í ofboði, kannski hafði þjófurinn
iðrast gjörða sinna og ákveðið að sér bæri að koma gripunum í
vörslu einhvers sem væri þess megnugur að sýna þeim allan sóma
og gæta þeirra. Þráinn gat varla láð honum að hafa heldur komið
góssinu til áreiðanlegs manns, hjá þekktum Laxnessvini og menn-
ingarfrömuði, fremur en til glópanna á Gljúfrasteini.
En af hverju að skilja ekki eftir skilaboð, smá kveðju frá einum
listvini til annars?
Hugsanlega taldi þjófurinn að Erlendur og gleraugun væru næg
skilaboð í sjálfum sér. Og Þráinn gat tæpast mótmælt því þar sem
hann strauk ofurlétt eftir myndarammanum.
Hann varð að komast heim, hann varð að hugsa málið í ró og
næði – hann varð að geta skoðað gersemarnar einhversstaðar ann-
arsstaðar en í hlandblautum klósettbási.
Hann mundi tæpast eftir gönguferðinni út úr Útvarpshúsinu og
að bílnum. Aldrei hafði hann verið jafnhætt kominn – ef honum
skrikaði fótur og kassinn opnaðist, þá væri hann fordæmdur um
alla framtíð. Í fáum byggingum í Reykjavík voru samankomnir
jafnmargir þess megnugir að bera kennsl á þýfið.
En út komst hann, náfölur og skjálfandi. Og kom sér svo fyrir í
sófanum heima, með koddann bróderaða undir arminum og
Erlend uppi á vegg. Gleraugun hvíldu í sveittum lófa hans. Hann
skynjaði að of langt væri seilst með því að setja þau upp.
Hann átti tveggja kosta völ. Að halda góssinu, eða skila því. Það
var ekki flóknara.
En þetta var auðvitað ekkert val! Hann gat engan veginn haldið
mununum, áhættan var yfirþyrmandi. Þó gat hann ómögulega
ímyndað sér að skilja þá við sig, úr því sem komið var.
Einhver ókunnur hafði yfir honum úrslitavald. Einhver vissi að
hann hafði gripina undir höndum. Einhver vissi hvað honum
myndi reynast valið erfitt. Þráinn gat ekki annað en dáðst að þess-
um velgjörðarmanni sínum, sem hafði gert honum þennan ljúfa
óleik.