Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Page 61
TMM 2007 · 4 61
H a l l d ó r L a x n e s s í í s l e n s k u m s k á l d s k a p
Sjálfur lýsir Ólafur Haukur verki sínu svo á titilsíðu handritsins sem
leikarar Þjóðleikhússins unnu með á æfingatíma Halldórs í Hollywood:
„Texta Halldórs Kiljans Laxness, sem sóttur er í útgefin verk og bréf,
hefur undirritaður tengt og skeytt saman og aukið í frá eigin brjósti til
að mynda leikhæfa heild.“10 Handritið sjálft bendir til að Ólafur Haukur
hafi að auki stuðst töluvert við skrif Hallbergs um Halldór og einnig
notfært sér vissar upplýsingar úr nýrri verkum um ævi skáldsins. Hér á
eftir verða reifuð tvö afmörkuð dæmi sem varpa ljósi á eðli leikritsins og
þá mynd sem þar er dregin upp af Halldóri. Fyrra dæmið er úr senu sem
gerist í Íslendingabyggðum í Kanada og kallast „Lesið fyrir landa í
Vesturheimi“, síðara dæmið er úr senum sem gerast í kvikmyndaveri í
Hollywood. Í báðum tilvikum er forvitnilegt að rekja hvaðan texti Ólafs
Hauks er kominn og velta fyrir sér hver hafi talað í gegnum leikarana á
sviði Þjóðleikhússins haustið 2005.
Senan „Lesið fyrir landa í Vesturheimi“ snýst að nokkru leyti um
smásögu Halldórs Laxness, „Nýa Ísland“, sem skáldið las upp á ferðum
sínum um Íslendingabyggðir í Kanada í september 1927 og birtist í
Heimskringlu 19. október sama ár. Sagan lýsir raunum Torfa Torfasonar,
Íslendings sem flytur til Nýja Íslands með eiginkonu sinni og fjórum
börnum. Fyrsta sumarið veikjast tvö barnanna og deyja og um haustið
fæðir eiginkonan nýtt barn. Um veturinn fer hún í þvottavinnu til
Winnipeg, Torfi heldur til fiskveiða norður á Winnipegvatni og felur
elstu dótturinni, sem er á fjórtánda ári, að annast yngri börnin tvö. Á
leiðinni í verið rekst Torfi á hvolpafulla flækingstík og tekur hana að sér.
Hann ræður sig síðan í vinnu hjá rauðskeggjuðum útgerðarmanni sem
jafnframt veitir honum húsaskjól. Þeir félagar lenda í slagsmálum eftir
að Torfi hefur ítekað hleypt nýgotinni tíkinni og hvolpum hennar inn í
kofa útgerðarmannsins og sá rauðskeggjaði jafnoft hent hundunum út í
snjóinn. Sögunni lýkur á því að Torfi ranglar snöggklæddur inn í skóg-
inn, kastar sér þar niður á hjarnið og grætur örlög sín og barna sinna.
Eins og fram kemur í bók Peters Hallberg, Húsi skáldsins, bar „Nýa
Ísland“ undirtitilinn „Samþjóðleg öreigasaga“ þegar hún birtist upp-
haflega í Heimskringlu.11 Sá undirtitill er ágætt dæmi um það sem
franski fræðimaðurinn Gérard Genett hefur nefnt innrömmun; um er
að ræða texta sem ekki er eiginlegur hluti sögunnar sjálfrar heldur eins
konar þröskuldur sem lesandinn þarf að stíga yfir áður en hann hefur
lesturinn, og kann að hafa áhrif á það hvernig hann les og túlkar verkið.12
Halldór lét hins vegar þennan undirtitil hverfa þegar sagan kom út í
smásagnasafninu Fótataki manna árið 1933. Tuttugu árum síðar, þegar
safnið var endurútgefið ásamt tveimur öðrum smásagnasöfnum Hall-