Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Blaðsíða 67
TMM 2007 · 4 67
H a l l d ó r L a x n e s s í í s l e n s k u m s k á l d s k a p
HALLDÓR: Fimmtán ára stúlka kemur í plássið með móður sinni, ógiftri konu
sem giftist varmenni. Hann lúber konuna að barni hennar viðstöddu.
MÓGÚLL: Okei. Hvernig lúkkar pían?
HALLDÓR: Há og sterklega vaxin, svipur hennar lýsir einhverskonar útkjálka-
meydómsbrag, fífldirfsku og frumstæðum þokka.
MÓGÚLL: Ég er að reyna að ímynda mér leikkonu í hlutverkið.
HALLDÓR: Mér finnst bara ein koma til greina … Gréta Garbó …
MÓGÚLL: Hún erfið. Hún er mjög erfið. Við sjáum til!32
Hér styðst Ólafur Haukur við tiltekin setningabrot úr íslenskri þýðingu
Helga á bók Hallbergs:
Söguhetjan Salka Valka er fyrst kynnt þar sem hún gengur frá báti upp eftir
bryggjunni. „She is tall and strongly built. The chief ingredients of the facial
expression: rustic virginity, dare-deviltry, primitive charm. She is dressed like
a fisherman: vide pants, the botlegs reaching up over the knee, a pipe in her
mouth.“ Það er horfið aftur í tímann og við fáum að sjá þátt úr fyrri ævi hennar.
Fyrir fimmtán árum kom hún hingað með ógiftri móður sinni. […] Konan gift-
ist varmenni, sem strax eftir hjónavígsluna byrjar að meðhöndla hana eins og
skepnu, lætur hana þræla dag og nótt og slær hana að barni hennar viðstöddu.33
Sjálfa persónulýsingu Sölku, sem Hallberg birtir á ensku, virðist Ólafur
Haukur hins vegar vinna upp úr íslenskri þýðingu Silju Aðalsteinsdótt-
ur á handriti Halldórs, en samsvarandi setningar þar hljóma svo: „Hún
er há og sterklega vaxin. Í svip hennar má sjá ósnortinn hreinleika, fífl-
dirfsku, frumstæðan þokka.“34 Meginmunurinn felst í því að í stað hins
„ósnortna hreinleika“ Silju þýðir Ólafur Haukur orðasambandið „rustic
virginity“ sem „útkjálkameydómsbrag“. Loks fer hann að dæmi Hall-
dórs Guðmundssonar og leggur mikið upp úr dálæti Halldórs Laxness á
Gretu Garbo og þeim möguleika að hún léki Sölku.
Þessi dæmi leiða í ljós að textinn sem áhorfendur heyrðu á sviði Þjóð-
leikhússins hafði verið þýddur og endurritaður í hópvinnu á löngu ára-
bili. Halldór skrifaði hann á ensku á þriðja áratugnum, Hallberg stytti
þann texta á sjötta áratugnum, lét sumt standa óbreytt á ensku, þýddi
annað orðrétt yfir á sænsku og endursagði sumt með eigin orðum. Síðan
þýddi Helgi J. Halldórsson sænskan texta Hallbergs árið 1970 en lét
enskar tilvitnanir halda sér. Á grunni þess texta – og með vissri hliðsjón
af þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur frá 2004 – skóp Ólafur Haukur text-
ann sem Atli Rafn flutti á sviðinu árið 2005 en eðlilegt er að líta á leik-
arann sem enn einn þýðanda eða túlkanda, þann fjórða eða jafnvel
fimmta í röðinni.