Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Page 85
TMM 2007 · 4 85
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
Silja Aðalsteinsdóttir
Á líðandi stund
Um miðjan október var haldið málþing um Torfhildi Þorsteinsdóttur Hólm
(1845–1918) á Þórbergssetri í Suðursveit. Torfhildur var fædd á Kálfafellsstað í
Suðursveit og það er hugmynd forráðamanna Þórbergsseturs að hlynna sér-
staklega að skáldum úr héraðinu.
Málþingið tókst vel, gestir fengu smám saman býsna skýra mynd af þessari
konu sem varð „fyrst“ til að gera svo furðulega margt. Hún varð fyrst til að
skrifa sögulega skáldsögu á íslensku og valdi sér að viðfangsefni ekki minni
mann en Brynjólf Sveinsson Skálholtsbiskup. Bókin um hann kom út 1882 og
var líka fyrsta skáldsagan sem kom út eftir íslenska konu. Raunar höfðu ekki
verið prentaðar nema sjö eða átta skáldsögur eftir íslenska karla á þeim tíma.
Þar að auki varð Torfhildur fyrst til að nota efni úr Íslendingasögum í eigin
skáldverk í stuttsögunni Kjartan og Guðrún sem kom út 1886 og Þórður Ingi
Guðjónsson talaði um á málþinginu. Og hún varð fyrst íslenskra rithöfunda til
að lifa á ritstörfum. Alþingismenn dauðsáu eftir skáldastyrknum sem hún
fékk, fyrst íslenskra kvenna, og hann var bæði lækkaður og endurnefndur
„ekknastyrkur“. Þar þótti henni sem hún uppskæri „hina beisku ávexti gamalla
rótgróinna hleypidóma gegn litterærum dömum,“ eins og hún orðaði það, en
þeir urðu lífseigir eins og við vitum.
Að mati Gerðar Steinþórsdóttur og Dagnýjar Kristjánsdóttur, sem báðar
töluðu um Brynjólf Sveinsson biskup, er það besta saga Torfhildar, fagmannlega
fléttuð eftir nokkuð tætta byrjun og með merkilegum undirtexta. Hún leggur
áherslu á að birta mynd af biskupnum sem embættismanni og valdsmanni, og
saga hennar af lífi hans og örlögum er dulbúin árás á feðraveldið, segir Dagný;
með henni sýnir Torfhildur að það leiði aldrei til góðs. Í lokin stendur Brynj-
ólfur eins og Lér konungur hjá Shakespeare, rúinn ástvinum.
Hin mikla sögulega skáldsaga Elding kom út 1889 og fjallar um kristnitök-
una á Íslandi. Hún byggir á gríðarlegri rannsóknarvinnu, sagði Gunnar Karls-
son sem rýndi í þá bók, aftanmálsgreinar og eftirmáli eru á yfir 150 af 773
blaðsíðum. Þar notar Torfhildur tækifærið og upplýsir landa sína um alls
konar málefni, allt frá lokrekkjum til Garðaríkis, en ekki þótti fyrirlesaranum
tök hennar nógu listræn á frásagnarhætti og persónusköpun. Þessi saga hefur
hlotið þau örlög, sagði Gunnar, að vera næstum eingöngu þekkt vegna þess að
annar rithöfundur og frægari, Halldór Laxness, segist í endurminningabókum