Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Side 90
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
90 TMM 2007 · 4
Vætlusull hins vígða manns
verður gull til nota,
lækning full á heilsu hans,
hemill drulluskota.
Stefán fékk annað svar við Skarðverjabrag sínum og sýnu ruddalegra frá Guð-
mundi Jónassyni í Frakkanesi. Það hefst á þessu erindi:
Þér ferst að gaspra heimska svín,
háðung þín berst á meðal lýða,
á meðan glóey grund á skín
þú geymist á meðal verstu níða,
eirðarlaus ræfill útflæmdur
alræmdur dóni og bragþjófur.
Endar hann á því að núa Stefáni skáldastyrk hans um nasir: „Það allir vita, sjá
og heyra, / að lifðir þú ekki á landssjóðnum / þá lægir þú beint í hundunum.“
Ekki svaraði Stefán Guðmundi, og ekki virðast fleiri hafa lagt til atlögu við
skáldið í bundnu máli.
Loks ber að geta þess að Björn segir í bréfi sínu að heimilið á Skarði hafi
verið boðið og búið að hjálpa þeim sem verst voru staddir á þessum erfiðu
harðindaárum.
Haustbókmenntatal
Íslensku barnabókaverðlaunin í ár hlaut ung kona og splunkunýr höfundur,
Hrund Þórsdóttir, stjórnmálafræðingur og blaðamaður, fyrir skáldsöguna Lof-
orðið (Vaka-Helgafell). Þetta er áhrifamikil saga um vináttu tveggja stelpna
sem er svo heit og sönn að hún nær út yfir gröf og dauða. Eyvör er bara tólf ára
þegar hún deyr úr krabbameini eftir hetjulega baráttu fyrir lífinu. Ásta vin-
kona hennar er harmþrungin; lífið er varla þess virði að lifa því lengur. En þá
fær hún sendingu frá Eyvöru, bréf og dagbókina hennar. Við að lesa lýsingar
Eyvarar á ævintýrum þeirra saman rifjast upp fyrir Ástu hvað þær áttu gott að
eiga hvor aðra, og að lokum fellst hún á að gefa Eyvöru loforðið sem hún biður
hana um. Þetta er fallega skrifuð bók og skemmtileg þrátt fyrir átakanlegt
efnið, og boðskapur hennar er beinlínis mannbætandi.
Stefán Máni fékk Blóðdropann, Íslensku glæpasagnaverðlaunin, í september,
í fyrsta skipti sem þau voru veitt. Verðlaunin hlaut hann fyrir Skipið (sjá
umsögn hér í heftinu).
Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar sem nú eru bundin við ljóð
hlaut Ari Jóhannesson læknir, nýliði á skáldabekk þótt hann sé fæddur 1948.
Fyrsta ljóðið sem birtist opinberlega eftir hann kom í þessu tímariti (2/2006)
og hafði áður fengið viðurkenningu Ljóðstafs Jóns úr Vör. Enn meiri athygli
hlutu ljóðin sem hann birti í TMM 4/2006, einkum „Rúbínsteinn“ þar sem