Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Qupperneq 92
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
92 TMM 2007 · 4
Bjarni Bernharður er afkastamikið ljóðskáld um þessar mundir, gaf út tvær
bækur í fyrra og nú er komin ný, Blóm. The Shadowline – klæðnaður fyrir mið-
nætti (Ego útgáfan). Þetta er nokkuð svört bók, en á milli birtir þó til. Önnur
ljóðabók er Hlaupár eftir Þór Stefánsson, fallega gefin út af Deus með teikn-
ingum eftir Sigurð Þóri. Bókin er í fjórum hlutum sem bera nöfn árstíðanna,
Haust, Vetur, Vor og Sumar, og geymir í allt 366 hækur, eina fyrir hvern dag
ársins þegar hlaupár er. Þriðja ljóðabókin er líka frá Deus, Nóvembernætur
eftir Eygló Idu Gunnarsdóttur, flokkur nafnlausra ljóða sem segja frá ást og
einmanaleika. Í þessu dæmi er hún þó ekki ein:
Klukkan tifar
taktfast
á veggnum
en samt sem
áður
er andardráttur þinn
það eina sem
heldur takti
í hjarta mínu
Í ritröðinni Smárit Smekkleysu komu tvö lítil og krúttleg ljóðahefti í haust, hið
4. og 5. Mátunarklefinn og aðrar myndir geymir prósaljóð eftir Braga Ólafsson
og myndir eftir Einar Örn Benediktsson. Þar er mörg gersemin, til dæmis „Hin
myrku öfl“:
Á mínu heimili kallast stiginn upp á efri hæðina tröppur. Af neðri hæðinni – ég hef
verið þetta á bilinu tíu til tólf ára – horfði ég á eftir herra þetta eða hitt elta bakhlið-
ina á fröken hinni eða þessari. Hvar tröppurnar enduðu þann daginn vissi ég aldrei.
Ég vissi hins vegar allt annað: að regnið færi mýkri höndum um þann sem er þurr,
að stéttin fyrir utan húsið hljómaði eins, hvort sem hinn góði eða vondi gengi eftir
henni, að í Detroit framleiddu menn bíla, í Manchester hnífa; að hin myrku öfl í
heiminum færu alltaf með sigur af hólmi.
Hitt heftið er eftir Óskar Árna Óskarsson, Sjónvillur, eins konar örleikrit, flest
bæði fyndin og dularfull. Þetta heitir „Ofvöxtur“:
– Þú verður að fara til læknis með þetta. Þetta nær engri átt. Þau eru orðin fárán-
lega stór.
– Hvað, ég held að þetta sé nú ekkert alvarlegt. Ég nota bara eyrnaskjól þá eru þau
ekki eins áberandi.
– En svona ofvöxtur getur alltaf verið varasamur. Ég þekki konu sem …
– Æ, hafðu ekki svona miklar áhyggjur. Ég gæti fengið vinnu hjá Veðurstofunni við
skjálftamælingar eða eitthvað, ég heyri minnsta þrusk í margra metra fjarlægð. Sjáðu
fuglinn þarna yfir bensínstöðinni, ég heyri vængjasláttinn greinilega. Passaðu þig að
stíga ekki á ánamaðkinn!