Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Blaðsíða 94
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
94 TMM 2007 · 4
eða í sjónvarpssápu. Í Kúlunni undir Kassanum var frumsýnt barnaleikritið
Gott kvöld eftir Áslaugu Jónsdóttur, byggt á samnefndri verðlaunabók hennar.
Þar koma alls kyns óvættir í heimsókn til drengsins sem er einn heima smá-
stund, Hungurvofan, Tímaþjófurinn, Hræðslupúkinn, Hrekkjasvínið og fleiri
í hugmyndaríkum útfærslum brúðugerðarkonunnar Helgu Arnalds. Þórhallur
Sigurðsson stýrir.
Hamskiptanna eftir Franz Kafka í leikgerð og uppsetningu Vesturports var
beðið með eftirvæntingu, og sýningin reyndist sá viðburður sem búist var við.
Svið Barkar Jónssonar er snilldarlega hugsað til að gefa skýra mynd af stöðu
fjölskyldunnar og rétta skynjun á hlutskipti Gregors þegar hann vaknar og er
orðinn að bjöllu. Leikstíllinn er haminn og stílfærður meðan allt er með felldu
í lífi Samsa fjölskyldunnar en síðan flöktandi þegar örvæntingin heltekur for-
eldrana og systurina. Leikurinn sjálfur var vandaður hjá öllum leikurunum
fimm, en áhrifaríkastur var Gísli Örn Garðarsson sem vinnur afrek með túlk-
un sinni á hinni þrautpíndu fyrirvinnu fjölskyldunnar, vinnudýrinu Gregor
sem ómennsk harka og fyrirlitning umhverfisins breytir í pöddu.
Kvenfélagið Garpur og Hafnarfjarðarleikhúsið sameinuðust um Svartan fugl
eftir David Harrower í þýðingu Hávars Sigurjónssonar, nærgöngult verk um
konu og karl sem hittast fimmtán árum eftir að hann nam hana brott, tólf ára
gamla. Nú hefur hann tekið út refsingu sína í fangelsi og byrjað nýtt líf í öðru
héraði, en hún er alltaf á sama stað og lifir í djúpum, óafmáanlegum skugga
hins liðna. Textinn tekur á furðulega mörgum hliðum slíkra mála og sýnir þau
jafnvel í óvæntu ljósi. Þetta var sterk sýning sem Graeme Maley stýrði.
Stefán Baldursson byrjaði glæsilega sem stjórnandi Íslensku óperunnar, en
hann tók við af Bjarna Daníelssyni í sumar. Sýningin á Ariadne eftir Richard
Strauss sem frumsýnd var 4. október var sannkallað „söngvarasukk“ eins og
ein stjarnan orðaði það í samtali. Það fágæta var að allir söngvararnir voru
íslenskir, og meðal þeirra var fólk sem við fáum sjaldan að heyra í vegna starfa
þess erlendis. Í aðalhlutverkum voru Hanna Dóra Sturludóttir (Ariadne),
Kolbeinn Jón Ketilsson (Bakkus), Arndís Halla Ásgeirsdóttir (Zerbinetta),
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir (tónskáldið), Ágúst Ólafsson (Harlekin), Bergþór
Pálsson (tónlistarkennarinn) og Ingvar E. Sigurðsson sem fór með talhlutverk
ráðsmannsins í höllinni þar sem á að setja óperuna Ariadne í Naxos á svið.
Sýningin var mikið yndi eins og ekki þarf að koma á óvart eftir þessa upptaln-
ingu. Leikstjóri var Andreas Franz og hljómsveitarstjóri Kurt Kopecky. Bún-
ingar Dýrleifar Ýrar Örlygsdóttur og Margrétar Einarsdóttur verða líka lengi í
minnum hafðir.
Saknað
Í sumar féllu þeir báðir frá Björn Th. Björnsson listfræðingur og Árni Ibsen
leik- og ljóðskáld, mikilvirkir þjónar íslenskrar menningar. Sá munur var þó á
að Björn lést seint að kvöldi eftir langan starfsdag, nærri 85 ára, en Árni var
ekki orðinn sextugur.