Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Side 110
110 TMM 2007 · 4
B ó k m e n n t i r
mynda, og gerir það mjög vel enda hefur hann beitt þessari tækni mikið í
gegnum tíðina. Málfarið er almennt hversdagslegt og tilgerðarlaust, og ég er
ekki frá því að það vinni heilmikið með lyríkinni, hún verður kunnuglegri,
stendur manni nær. Þetta er ljóðlist sem auðvelt er að hrífast af. En það er ekki
bara hin mjúka og bjarta lyrík sem er oft hörkuflott hér, sú ógnvænlega er oft
hörkuflott sömuleiðis, eins og sjá má í þessu erindi:
Þú þarft ekki að æla blóði
til að hitta sjálfan þig
eins og sannleikann í spegli,
ekki að sleikja rennusteininn
til að glötunin birtist þér
einsog ljós í glugga sálarinnar.
(„Óbyggðir hugans“ bls. 49)
Þegar þessar línur eru bornar saman við erindi eins og þetta úr kvæðinu
Skammdegis-óði sést berlega að Einar hefur tveggja heima sýn, hann sér bæði
hið ljósa og hið dökka (bls. 79):
Geislaskegg dagsins
brotnar á bílrúðum
leysist upp og hverfur sem dagblöðin,
fjallháir sandhólar hrannast
við sjónhringinn
og stjörnurnar fara í feluleik,
þær hjúfra sig huldar
við sængurver skýjanna
og mennirnir fela sig
rétt eins og stjörnurnar.
Upplausn sjálfsins, rótleysi, gildisleysi og dofnandi tengsl við veruleikann
koma fyrir í mörgum ljóðanna og gefið er til kynna að ljóðmælandi hafi misst
tökin á lífi sínu eða sé um það bil að missa þau. Strax í upphafsljóði bókarinn-
ar er ákveðinn tónn gefinn af ljóðmælanda sem finnur engan endapunkt í til-
verunni, sama hvað hann leitar:
Þegar skútan sekkur
príla ég upp súluritið
og nem land á gervihnetti
þar sem höfuðborgin
er kennitala í tóminu
og bæirnir heita ekki neitt.
(„Enginn punktur“ bls. 10)
Rótleysið er með öðrum orðum bendlað við nútíma lifnaðarhætti, sem virðast