Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Page 112
112 TMM 2007 · 4
B ó k m e n n t i r
Einar vill lýsa ölvunarástandi og þeim furðum sem ljóðmælandinn sér í
vímunni. Í þriðja lagi má kannski finna brennivínsstybbuna af Bukowski sums
staðar, t.d. í kvæðinu Í minningu Klúbbsins við Borgartún. Fyrir bók sem
hefur alkóhólisma að meginþema eru þessir þrír (meintu) áhrifavaldar, Baude-
laire, Bukowski og súrrealisminn, mjög svo viðeigandi.
Svo aftur sé vikið að andstæðunum Spleen og Idéal þá eru það helst björtu
ljóðin, þau sem bendla mætti við Idéal, sem gera þarf athugasemdir við. Áður
var nefnt að bókin er löng, of löng, og það hefði bætt hana að fella út einstaka
ljóð. Helst eru það tvö ljóð í fjórða hluta, Tregagleði og Ástarbirta, sem eru eins
og ör á bókinni. Grípum niður í Tregagleði (101):
Ég kyssti þig
lítinn koss sem aldrei gleymist,
því hann eltir mig um heiminn
sem snýst um guð og sjálfan geiminn,
þig og mig.
Ást mín…
Ást þín…
einsog blær um vanga,
bros í hjarta,
minning ein
um vornótt bjarta.
Þetta er einfaldur, væminn dægurlagatexti. Hér sést líka annar minni háttar
galli á bókinni, en það er ófrumlegt endarím í sumum ljóðunum þó yfirleitt
séu þau órímuð. Verstu línur bókarinnar eru í Ástarbirtu (106):
Þegar ég sigli skipi mínu í höfn
sé ég flugeldana,
þeir springa í augum þínum
og lýsa upp himininn.
Ef hér væri verið að gera grín að ástarljóðum í gegnum tíðina, eins og t.d. carpe
diem-kvæðum sem tungulipur skáld ortu til að fá konur til lags við sig, þá væri
þetta boðlegt. En þetta er ekki grín. Því er þetta bæði smekklaust og taktlaust.
Annað sem gæti bjargað þessum ljóðum væri hlutverkaleikurinn; að verið væri að
leggja persónum orð í munn líkt og í tilfelli hins barnslega einlæga fanga í kvæðinu
Ástarstjarna yfir Litlahrauni – páskaljóð. Ekkert virðist þó benda til að svo sé.
Ekki eru þeir margir, gallar bókarinnar, en um þá verður þó líka að fjalla. Enn
eitt dæmi um galla er ofnotkun eignarfallsendinganna og uppsöfnun ákveðnu
greinanna. Einar Már hefur þegar skrifað bækur eins og Riddarar hringstigans,
Eftirmáli regndropanna, Launsynir orðanna og Englar alheimsins. Í þessari nýju
bók er síðan minnst á torfbæ hugans, dyr dauðans, árhringi tímans, hótel von-