Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Side 114
114 TMM 2007 · 4
B ó k m e n n t i r
Hún fer frá heimabæ sínum úti á landi til Reykjavíkur, staðráðin í að hefja nám
í Háskólanum. Einhverra hluta vegna er búið að leigja öðrum herbergið sem
hún hugðist ganga að og því er hún á götunni rétt fyrir áramótin 2000. Hún
hringir eyðilögð í móður sína sem kveðst þekkja konu sem muni örugglega
skjóta yfir hana skjólshúsi. Og áður en Hulda fær rönd við reist er hún gengin
inn í skrautlega sögu Júlíu sem Júlía fær Huldu til að skrásetja á meðan þær
bíða. Eftir hverju beðið er kemur fljótt í ljós, en á meðan verður sagan til, rétt
eins og í Á meðan nóttin líður. Þar varð sagan til við sjúkrabeð, í bið eftir dauð-
anum, hér verður saga til í bið eftir að barn Huldu fæðist. Hún þarf að vera
rúmföst síðustu vikurnar fyrir fæðingu og tekur Júlía að sér að segja henni
sögur úr fortíðinni til að stytta þeim stöllum stundir.
Frásögn Júlíu hefst á áramótapartíi í húsi Júlíu þar sem börn hennar og
barnabörn eru samankomin til að fagna áramótum. Júlía er afskaplega utan
við sig þetta kvöld og skynjar eitthvað skrítið, einhvers konar fyrirboða sem
fyllir hjarta hennar jökulkaldri skelfingu. Á slaginu 12 hringir dyrabjallan og
Júlía býst hálfpartinn við að þetta sé hin ókunna stúlka, Hulda, komin heim af
brennunni. En það sem blasir við þegar hún opnar dyrnar kemur henni í opna
skjöldu því á tröppunum stendur ungur maður sem heldur uppi hvítklæddri
konu sem virðist annaðhvort vera veik eða drukkin:
Kona í náttkjól eða þunnum samkvæmiskjól, Júlía sér ekki hvort er, dimmrautt hár
flæðandi yfir andlitið svo hún greinir það ekki, og það er ekki fyrr en konan tautar
þvoglumælt: «Júlía, Júlla mín, ég er komin,» sem hún heyrir að þetta er Lena.
Þetta er systir hennar Lena. (34)
Lena er yngri systir Júlíu sem búsett hefur verið um árabil í Bandaríkjunum en
þangað fór hún ung kona til að byggja upp frama í ballettheiminum. Nú er hún
komin til baka í ættarhúsið, borin uppi af ókunnum karlmanni sem blandast,
líkt og Hulda, óvænt inn í dramatíska fjölskyldusögu. Við innkomu Lenu
breytist stemningin eins og hendi sé veifað og fyrr en varir er búið að umbreyta
settlegu kökuboði Júlíu í brjálað geim með alls kyns guðaveigum á borðum.
Eftir það kvöld er lífið ekki samt, hvorki líf Júlíu, Huldu né Lenu.
Frásögn Júlíu er oft ruglingsleg því hún brýtur hana upp þegar sögurnar
taka of mikið á, skiptir yfir í pólitíska umræðu ef svo ber undir eða eitthvað
annað málinu allsendis óviðkomandi. Í gegnum frásögnina skín mikil biturð í
garð Lenu sem var litla prinsessan í fjölskyldunni, fegurðardrottning og sjarma-
tröll sem ekki aðeins skyggir á Júlíu alla tíð heldur tekur yfir minningar henn-
ar og gerir þær að sínum. Allt þetta rifjast upp fyrir Júlíu sem á í miklum
vandræðum með systur sína. Lena er komin til að vera og gerir húsráðanda að
nokkurs konar hornkerlingu í eigin húsi. Júlía veit að hún þarf að láta systur
sína fara en hún fær sig ekki til þess, enda föst í hlutverki þóknarans, þess sem
stöðugt hugsar um þarfir annarra á undan sínum eigin. Þannig eru þær systur
eins og svart og hvítt því Lena lætur sér fátt um þarfir annarra finnast. Enda
hefur hún ekki um neitt annað að hugsa en sjálfa sig. Hún bölsótast út í til-