Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Qupperneq 115
TMM 2007 · 4 115
B ó k m e n n t i r
hneigingu Júlíu til að halda í fortíðina og minningu foreldranna, vill rífa niður,
henda og endurnýja. En þó að þær systur séu ólíkar burðast þær með sömu
drauga í farteskinu, sárar minningar sem nauðsynlegt reynist að horfast í augu
við. Eiginlega má kalla þetta þroskasögu því systurnar taka báðar umtalsverð-
um breytingum í framvindu sögunnar. Júlía áttar sig á að hún hefur haldið allt
of fast í gamlar hefðir, venjur og skyldur og að það séu engin svik við gengna
ættingja að hnika einhverju til. Á sama tíma og Júlía losar takið á fortíðinni
hleypir Lena henni að og því má segja að þær systur mætist á miðri leið.
Í húsi Júlíu er margbrotin saga. Ekki bara saga systra sem ná saman að
lokum eftir mikil átök heldur er líka sagt frá systkinum og foreldrum, draum-
um þeirra, væntingum og óbætanlegum missi. Fríða tekur einnig á fyrirbær-
inu að eldast á eftirminnilegan hátt sem og ástarlífi fólks sem komið er yfir
miðjan aldur. Því efni þröngvar Júlía kímin inn á Huldu sem er ekki skemmt
og blöskrar mjög þegar Júlía kemur því á framfæri að hún hafi átt ástarsam-
band við sér þrjátíu árum yngri mann. Þær lýsingar eru stórkostlegar og sýna
glöggt að ástin er söm við sig, hver svo sem aldur manneskjunnar er. Lengi vel
kemst ekkert að annað en hugleiðingar um elskhugann, en þegar rofar til í koll-
inum áttar Júlía sig á að ýmislegt óafturkallanlegt hefur átt sér stað.
Inn í ættarsöguna fléttast síðan saga Huldu en í ljós kemur að hún á sér
óvænta tengingu við líf Júlíu, bæði í fortíð og nútíð. Þeim tengingum, eða hvers
vegna Júlía tekur hana að sér, veltir Hulda ekki mikið fyrir sér. Hún er sjálf
upptekin af meintum barnsföður sem enginn má vita af, enda maðurinn harð-
giftur. Hér er komin enn ein fléttan í flóknu tafli sem tengist svo aftur sögu
sem Júlía segir af formóður sinni sem sætti svívirðilegum blekkingum, var
hrakin að heiman, barin og niðurlægð en náði hefnd að lokum. Löngunin eftir
hefnd ólgar einnig í blóði Huldu um stundarsakir en óvænt atvik lægja þá til-
finningu. Fleira eiga Hulda og formóðirin sameiginlegt, til að mynda að vera á
vergangi um tíma og sú hugsun læðist að lesanda að sögur Júlíu um þá Gömlu,
eins og hún er kölluð, eigi að blása Huldu hugrekki í brjóst. Enda kemur á dag-
inn að óljóst er hvort saga formóðurinnar er að öllu leyti sönn því systurnar
virðast hafa prjónað við hana að vild í æsku.
Hugleiðingar um sannleikann eða öllu heldur minnið og það hvernig tíminn
fer með minnið, skipa einmitt veigamikinn sess í bók Fríðu. Stundum stangast
minningar systranna illilega á og engin leið að átta sig á hvor minningin er
réttari ; á öðrum stöðum virðist minnið svíkja og skáldskapur taka við. Í frá-
sögninni eru hik og gloppur og stundum æðir Júlía úr einu í annað sem gerir
Huldu erfitt um vik að halda þræði. Þrátt fyrir það, eða kannski einmitt þess
vegna, verður sagan enn raunsærri en ella og persónur taka smátt og smátt á
sig skýrari mynd í allri sinni dýrð og breyskleika.
Í húsi Júlíu er að mínu mati með betri sögum Fríðu Á. Sigurðardóttur. Hún
tekur hér á eftirminnilega fallegan og kíminn hátt á gleði og sorgum mann-
skepnunnar sem og því sem líklegast skiptir alla mestu máli í lífinu, tengslum
við fjölskyldu, ættingja og vini í brokkgengum heimi.