Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Síða 116
116 TMM 2007 · 4
B ó k m e n n t i r
Kristján Jóhann Jónsson
Í kúskinnsskóm með háan silkihatt
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir: Upp á sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar. JPV
útgáfa 2006.
Ævisögur eru frekar skilgreindar út frá efni en formi. Aðalpersónan verður að
vera raunveruleg og staðreyndir skipta máli. Stundum virðast staðreyndirnar
sem taldar eru í ævisögum svo markvissar að líklegt er að lesendur velti fyrir
sér hvort um skáldskap geti verið að ræða. Það á við um lýsinguna á klæðaburði
sem notuð er í fyrirsögn þessarar greinar.
Danska skáldið Holm Hansen nefnir kúskinnsskóna og silkihattinn háa
þegar hann lýsir Matthíasi Jochumssyni (bls. 195). Þá var Matthías frægt ung-
skáld í Reykjavík og leikritið Útilegumennirnir, síðar Skugga-Sveinn, hafði slegið
í gegn. Í bók Þórunnar Erlu Valdimarsdóttur um Matthías, Upp á sigurhæðir,
segir að vísu að skórnir hafi verið úr kálfsskinni en það gildir einu. Stíllinn er
ótrúlega dæmigerður fyrir Matthías Jochumsson, ævi hans og störf. Hann var
kominn af bláfátæku foreldri, ólst upp við erfiðisvinnu og flakk en komst að
lokum til mennta vegna hæfileika sinna. Heldra fólkið í Flatey hafði trú á
honum. Matthías sameinaði alla ævi sterkt samband við lægstu stéttir þjóð-
félagsins og harða sókn eftir frægð og frama og þar með viðurkenningu yfir-
stéttarinnar. Líkaminn var gildvaxinn, sterkur og alþýðlegur í sínum kúskinns-
skóm, en andinn léttfleygur og tignarlegur undir silkihattinum háa. Jafnframt
hefur löngum verið sagt að í skáldskap Matthíasar séu stílbrot algeng. Hann er
fjarri því þar að vera samkvæmur sjálfum sér en engu að síður stórbrotið skáld.
Í bréfum hans og öðrum skrifum má einnig finna þversagnakennd ummæli og
yfirlýsingar. Ef til vill voru það þversagnirnar og stílbrotin sem gerðu hann svo
elskað ljóðskáld áður en yfir lauk. Hann var lifandi goðsögn, „a selv made man“,
hóf sig yfir fátækt og erfiðleika upp í sigurhæðir eins og Hallgrímur Pétursson,
Jónas Hallgrímsson og aðrar skáldgoðsagnir okkar Íslendinga.
Bók Þórunnar um Matthías er 672 bls. að lengd og textinn á síðunum drjúg-
ur þó að nokkuð sé af myndum. Hlutföllin í þessari ævisögu eru vel hugsuð að
mínu mati. Höfundur hefur ekki fallið í þá freistni að skrifa miklu lengra mál
þar sem heimildir eru drýgstar eins og stundum hendir. Að vísu eru heimildir
um Matthías og lífshlaup hans nokkuð jafnar. Sögukaflar af sjálfum mér eru
auðvitað alltaf nálægir og varðveisla bréfa er góð. Nokkuð mikið af nýju efni
hefur komið í leitirnar og mat á heimildum virðist skynsamlegt.
Það leiðir hugann að því að rödd sögumanns er sterkari en gengur og gerist.
Eftir lestur bókarinnar finnst mér að ég viti ýmislegt um lífsviðhorf sögu-
mannsins og nærtækt að ímynda sér að þar séu jafnframt á ferðinni lífsviðhorf
höfundarins. Þetta gerir bókina skemmtilega aflestrar og er að mörgu leyti til