Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Síða 118
118 TMM 2007 · 4
B ó k m e n n t i r
skapurinn og trúin eru Matthíasar megin í lífinu. Stundum vísa þau sömu leið
og fallast áreynslulaust í faðma en stundum skilja leiðir, skáldið leggur hemp-
una til hliðar, yrkir og vinnur við ritstjórn og kennslu.
Vísindin taka stundum á sig spaugilega mynd hjá Matthíasi og félögum
hans. Skemmtilegt er dæmið þegar Matthías og séra Páll Sigurðsson fara á
hestum sínum meðfram Esjunni, sennilega örlítið rakir, og vísindaáhuginn
grípur Matthías sem spyr Pál hvað hann haldi að Esjan sé þung, mæld í pund-
um. Páll íhugar drykklanga stund en segir síðan: Það veist þú nú sjálfur, Matti
minn. Þú býrð undir henni (209).
Matthías virðist alla tíð hafa átt í nokkrum vanda með að velja milli frelsis
skáldskaparins og reglufestu trúarbragðanna. Eftir námið í Prestaskólanum
hefði hann trúlega ekki valið að verða prestur ef hann hefði átt þess kost að
velja annan framaferil. Krafan um trúfesti við kirkjuyfirvöld átti illa við
Matthías Jochumsson eins og best sést á tryggð hans við kenningar Únítara. Á
ritstjórnartímabilinu, þegar hann stýrir Þjóðólfi, þá stendur hann sömuleiðis
frammi fyrir þeim vanda að hann verður að velja skoðanir eins og allir aðrir.
Hann virðist hafa fengið á sig nokkra gagnrýni fyrir vingulshátt á þessu skeiði
og það óorð magnast af óreiðu í fjármálum hans sem einnig taka nokkrar
dýfur. Það er ekki auðráðið af ævisögunni hvort það stafar af örlæti Matthíasar
eða hirðuleysi, burtséð frá því að sumum finnst örlæti ekkert annað en hirðu-
leysi. Barnamergðin varð að einhverju leyti til þess að hann sneri sér aftur að
prestskap og settist að í Odda. Sú frægð sem hann ávinnur sér smám saman
sem prestur gerir honum löngu síðar kleift að yfirgefa kirkjuna, sem hann var
aldrei alveg sáttur við, og verða virt þjóðskáld á launum.
Það er gamalkunnug leið þegar fjallað er um ævi skálda að nota skáldskap
þeirra til þess að varpa á hana ljósi, en þetta getur einnig snúið á hinn veginn.
Þá nota menn ævi höfundarins til þess að útskýra kveðskap hans. Þriðju leið-
ina, eða þá að skrifa um skáld en leiða skáldskap þeirra að mestu hjá sér, hef ég
gagnrýnt annars staðar. Þórunn notar skáldskap Matthíasar bæði til að stað-
festa niðurstöður sínar um persónuleika hans og einnig sem heimild þegar
aðrar upplýsingar vantar. Dæmi um það fyrra er barnaþulan fallega sem sýnir
vel hve barngóður Matthías var. Einungis maður sem elskar barnabarn sitt
getur ort því svona kvæði: „Sefur selbarn, svalt er á skeri, urtan er að synda og
enginn það svæfir …“ o.s.frv. (557). Um það seinna mætti nefna gamankvæði
Matthíasar um Kristján Jónsson sem verður skýr heimild um sterkt samband
þeirra Matthíasar.
Stílgreining getur ekki skilið sundur ævisögu og skáldsögu. Eins og vikið
var að í upphafi skera efnið og efnistökin úr um það hvort saga af þessu tagi er
skáldsaga eða ævisaga. Upp á Sigurhæðir varpar hins vegar að mínu mati fram
þeirri gamalkunnu spurningu, hvort ævi okkar er ekki alltaf að miklu leyti
skáldsaga sem við semjum sjálf. Við mótum ævi okkar með lífsviðhorfi okkar
og verkum. Ef þau eru stórbrotin eins og hjá Matthíasi verður sagan það líka.
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir segir sögu Matthíasar skemmtilega og hún er
þeim tveimur til sóma.