Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Qupperneq 122
122 TMM 2007 · 4
B ó k m e n n t i r
eru til að mynda sætir en þegar þeir eru orðnir að svörtum klessum á innsíðum
bókarinnar hætta þeir að fara Þorgeiri. Myndirnar eru allar ferkantaðar en
hefðu notið sín betur fríflæðandi. Aparnir sem svífa um á saurblöðum bók-
anna finnst mér t.d. mun skemmtilegri en apinn á bls. 27 sem er hnepptur í
ferkantaðan tölvuteiknaðan bakgrunn. Honum hefði farið mun betur að sitja
skælandi á hvítri síðunni. Á síðu 12 verður „óskýr ljós blettur“ í texta að svört-
um bletti á myndinni sem má auðvitað alls ekki, en að öðru leyti fylgdust
myndir og texti nokkuð vel að.
Annars er hér á ferðinni feikilega góð barnabók sem gefur krökkum ýmis-
legt að hugsa um. Hún er sett upp með stóru letri til að auðvelda smáfólkinu
lesturinn sem er eiginlega skaði því ég held að fullorðnum þyki hún allt eins
skemmtileg og hún hentar prýðilega til upplesturs.
Tilvísanir
1 Astrid Lindgren: Bróðir minn Ljónshjarta. Heimskringla, 1976, bls. 174.
Ingólfur Gíslason
Hatur eða heilbrigð skynsemi?
Auður Jónsdóttir: Tryggðarpantur. Mál og menning 2006.
1
Gísella Dal, aðalpersóna Tryggðarpants Auðar Jónsdóttur, hefur búið í fjórtán
ár við fjárhagslegt öryggi, en dag einn uppgötvar hún að arfurinn sem hún
hefur lifað á síðan hún var tuttugu og eins árs er upp urinn. Hún er ekki vön
að vinna fyrir sér, hún hefur lítið gert og að því er virðist lítið hugsað eða upp-
lifað á ævinni, helst fengist við að skrifa smágreinar í glanstímarit og flosnað
upp úr námi í nokkrum deildum háskólanna. Hún er nánast meðvitundarlaus,
laus við allar hugsanir sem ná út fyrir hennar litlu tilveru, fulltrúi þess snyrti-
lega og vel gefna unga fólks sem hefur engan áhuga á stjórnmálum eða sam-
félagsmálum, ekki frekar en vinirnir í Friends.
Þó líður henni ekki alls kostar vel. Veraldlegt áhyggjuleysi hennar veldur
henni angri í huga og hjarta: „það var óþolandi að eiga allt en þrá ekkert“
(10).
Hér spilar höfundur sína fyrstu írónísku tóna, því allir vita að hamingjunni
er ekki náð með því að eiga allt og þrá ekkert, og þrám verður einfaldlega ekki
fullnægt. Þó svo að það sé látlaust gefið í skyn í fjölmiðlum – að við verðum
hamingjusöm ef við fullnægjum þrám okkar.
Fullyrðingin er söguraddarinnar, hinnar óefnislegu raddar, sem lýsir því