Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Page 125
TMM 2007 · 4 125
B ó k m e n n t i r
anna og Gísellu. Leidd eru fram ágreiningsefni eins og vatnsnotkun og þrif, en
ein af góðum hugmyndum sögunnar er þegar Gísella lætur klæða húsið að
framan með risastórri auglýsingu. Auglýsingin skerðir útsýni og birtu inn í
herbergi leigjendanna, en að henni stendur fyrirtæki Andrésar, vinar Gísellu.
Auglýsingar eru settar upp sem eiga að vera innlegg og kveikja að umræðum í
samfélaginu um mikilvæg mál. Auglýsandinn þarf að uppfylla skilyrði um að
vera bæði vistvænn og mannvænn. „Og við græðum á öllu saman því allir vilja
fá gæðastimpil.“ (304) Andrés lýsir hér á heiðarlegan hátt forsendu sem stund-
um er falin undir fögru yfirborði í opinberri umræðu: að „góðverk“ séu til að
græða á þeim. Fyrirtæki styrkja menningar- og hjálparstaf í auglýsingarskyni
og opinber þróunarhjálp rennur að mestu leyti til fyrirtækja og einstaklinga í
„hjálparlandinu“, svo dæmi séu tekin.
Undir lok bókarinnar verður Gísella fyrir því að húshjálp mannsins á efstu
hæð hússins afhelgar ímynd ömmu hennar. Að sögn húshjálparinnar kom hún
illa fram við aðra, þar með talið foreldra Gísellu. „Í rauninni varð hún að inn-
ræta þér sínar lífsskoðanir; græðgi, mannfyrirlitningu og vantraust.“ (326)
Sem er sennilega flestum lesendum löngu ljóst, en Gísella sjálf forðast sem fyrr
alla endurskoðun á eigin sýn og skoðunum. Hér liggur mikið við að lesendur
þori að grafa aðeins í eigin sjálfi og athugi eigin tilhneigingar til græðgi, mann-
fyrirlitningar og vantrausts, en varpi þeim ekki frá sér til einhvers ímyndaðs
hóps af vondu eða vitlausu fólki.
2
Tryggðarpantur hlaut góðar viðtökur hjá gagnrýnendum og bókin var tilnefnd
til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Flestir voru sammála um að sagan væri
mikilvægt innlegg í umræðuna, að hún hefði pólitískt vægi. En það er auðvitað
gamalt þrætu- og umhugsunarefni hvort skáldsögur hafi slíkt erindi. Töluvert
hefur verið rætt um innflytjendur og útlendinga síðustu misseri, þó kannski
minna en efni standa til. Þau sem bundu vonir við að bók Auðar myndi hafa
áhrif hljóta að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum að undanförnu. Sígaunum
sem spiluðu á harmónikkur á götum úti var vísað úr landi án dóms og laga,
einfaldlega vegna þess að þeir voru fátækir. Ný ríkisstjórn gerði það að sínu
fyrsta verki að samþykkja að fresta frelsi rúmenskra og búlgarskra launþega til
flutninga hingað til lands. Ekki voru það flokksmenn Frjálslynda flokksins
sem stóðu að því. Ég heyrði fáa kvarta og engan vitna í Tryggðarpant. Kannski
þurfum við fleiri bækur, en ef til vill má skáldskapurinn sín lítils gegn hugs-
unarleysi í þjóðfélaginu.
Sagan er sögð í hefðbundnum stíl. Fylgst er nokkuð náið með Gísellu.
Söguröddin þekkir hana vel, greinir frá æsku hennar, ljóstrar upp um tilfinn-
ingar hennar og hugsanir. Á yfirborðinu er röddin ekki gagnrýnin, en við
vitum ekki alveg hvort henni er alvara, eða hvort hún er markvisst að hæða
Gísellu. Því hún er ekki beinlínis raunsæisleg aðalpersóna, til þess er hún of
tilfinningalega flöt og laus við innri togstreitu; hún hefur lifað í fjórtán ár, frá
tuttugu og eins árs aldri, án þess að upplifa neitt markvert, lenda í neinum