Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Qupperneq 127
TMM 2007 · 4 127
B ó k m e n n t i r
henni, en líka ef hún er lesanda augljós frá upphafi, þá bætir hún ekki miklu
við merkingarheiminn, opnar fáar nýjar dyr, veltir engu við.
3
Fyrir hvað stendur þá Gísella Dal? Hún er ekki full af kaldranalegu raunsæi,
eins og til dæmis sögupersónur Michel Houllebecq, en hún er ekki heldur
víðsýn og frjálslynd; ekki beinlínis tilbúin að leggja mikið á sig til að veita fólki
tækifæri. Þó svo að sumum kunni að virðast annað í upphafi. Hún veitir leigj-
endum tækifæri, en aðeins með ströngum skilyrðum: „Ef ágreiningur kemur
upp er síðasta orðið húsráðanda.“ (6)
Hún er bókmenntalegur holdgervingur viðhorfsins „útlendingar mega vera
ef þeir laga sig að okkur og eru harðduglegt fólk“ – með öðrum orðum: ef þeir
eru nákvæmlega eins og við. En hún áttar sig ekki á raunverulegum viðhorfum
sínum. Gísella stendur þannig fyrir tvískinnung sem felst í því að halda að við
séum víðsýn og frjálslynd (við elskum exótískan mat og þjóðdansa), þegar við
erum í raun full af kaldranalegu raunsæi (við erum skíthrædd við útlendinga,
þeir berja konur, bera sjúkdóma og misnota velferðarkerfið).
Ég get samt ekki annað en velt fyrir mér hvernig sagan hefði verið ef hún
væri um raunverulega upplýsta unga lattédrekkandi konu, sem hefði áhyggjur
af stöðu kvenna og væri stundum þung í lund vegna þess að þúsundir barna
deyja úr hungri á hverjum degi. Hún gæti talið sig fordómalausa, hún gæti
jafnvel verið fordómalítil og talið sig bera virðingu fyrir annarri menningu.
Þannig yrði sagan sögð íróníulaust. Hún þyrfti að reyna aðeins erfiðari hluti en
Gísella Dal sem fær í raun bara staðfest það sem alltaf lá henni í augum uppi,
að útlendingarnir verða ekki eins og hún. Hún lærir ekki neitt og breytist ekki
neitt í þessari sögu. Tryggðarpantur gengur þannig of skammt í útlistun sinni:
það er hætta á að við lesum bókina og hugsum að mikið væri nú gott ef stjórn-
málamenn yst á hægri vængnum læsu þessa bók, eða óupplýstur almúginn,
hyskið sem hræðist útlendinga. En er ekki of auðvelt fyrir okkur að afskrifa
málin með þeim hætti, að vandinn sé vitlausa fólkinu að kenna?
Tryggðarpantur er tilraun til þess að taka á erfiðum málum. Sagan lýsir
vestrænni manneskju sem sjálfumglaðri og yfirlætisfullri, sem er gild gagn-
rýni, en vandi allra þeirra fjölmörgu bóka sem hafa þann boðskap fram að færa
er, að við sem lesum vitum þetta vel. Breytir þessi bók viðhorfum þeirra sem
lýsa því opinberlega yfir að útlendingar verði að aðlagast okkur, verða eins og
við? Er vandinn ekki jafnvel enn frekar hjá okkur sem viljum skilja innflytj-
endur, viljum veita þeim tækifæri og vitum að samskiptin hljóta að verða vand-
kvæðum bundin. Við gætum talið gagnrýnina ætlaða „hinum“, og afhjúpumst
ekki fyrir sjálfum okkur, göngumst ekki við eigin duldu hræsni. Stóra vanda-
málið er ekki útlendingahatur heldur svonefnd heilbrigð skynsemi.