Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Page 129
TMM 2007 · 4 129
B ó k m e n n t i r
Fyrra liðið verður fljótt úti í kafaldsbylnum (reyndar á aðfangadag jóla), en þeir
Jónas og Jón Karl hrapa niður í hlýjan en myrkan helli, þar sem Jón Karl eltir
undarlegt hljóð inn eftir hellinum og finnur … eitthvað. Eða hvað gerist?
Sögulok.
Eftir nokkuð vandræðalega byrjun í eldhúsi hásetans Sæla og Láru, óléttrar
kærustu hans, rennur Skipið af stað inn í þungt en öruggt tempó sem helst allt
til enda. Nokkur megineinkenni á texta Stefáns Mána valda hinum innbyggða
skriðþunga. Í fyrsta lagi flakkar hann miskunnarlaust fram og aftur í tíma
með því að lýsa aftur og aftur sama tímaskeiðinu frá sjónarhóli ólíkra einstakl-
inga. Maður gæti ímyndað sér að þetta héldi tempóinu niðri og skapaði tregðu
í flæði sögunnar, en svo er hreint ekki. Stílbragðið virkar einkar vel og er
kannski eina rétta leiðin til að ná að segja frá sýsli margra ólíkra einstaklinga
sem eru dreifðir um stórt skip. Þetta verður reyndar til þess að frásögnin er
bundin við fáeina daga í það heila og frásögnin þegir um margar vikur í
senn.
Í öðru lagi fer fram einskonar endurvinnsla á textabútum á nokkrum stöð-
um í bókinni sem veldur lesanda hollum heilabrotum: „Bíddu við, hef ég ekki
lesið þetta áður? Er þetta alveg eins og áðan eða er hann að breyta einhverju?“
Með þessu þvingar Stefán Máni lesandann til að rýna í orðin, hann framand-
gerir textann og veldur óþreyju og innri spenningi. Eftirfarandi málsgrein er
gott dæmi um stílbragðið; þar er Jón Karl á ferð, meðvitundarlaus í sjúkrabíl
eftir að hafa verið rænt:
Það er stórfurðulegt að ferðast án meðvitundar. Veltingur fram og aftur eins og í
rólu, bara hægari, en líka óþægilegar hliðarhreyfingar og alltaf þessi skrýtna til-
finning að sveiflan niður sé bæði lengri og dýpri en sveiflan upp, eins og máttlaus
líkaminn hrapi fram af einhvers konar endimörkum, sýnt hægt eins og endursýning
í sjónvarpi, aftur og aftur. Þetta er dálítið róandi á einhvern dáleiðandi hátt en fyrst
og fremst er um að ræða óendanlega doðatilfinningu sem verður æ óraunverulegri
því lengur sem maður svífur um í þessu mollulega tómi sem lyktar af volgu blóði
og er jafnstórt eða jafnlítið og hugur manns, jafndjúpt og bergmálið í hægum
trommuslætti höfuðhöggsins:
Bomm, bomm, bomm … (48–49)
Þessi málsgrein er endurtekin, nánast orðrétt, í tvenns konar öðru samhengi: á
bls. 119 („Það er stórfurðulegt að sofa um borð í skipi […]“) og í blálokin, bls.
425 („Það er stórfurðulegt að ferðast án líkama […]“). Með þessu gerist ansi
margt: höfundur skapar hliðstæður úr ólíkum aðstæðum: að sofa um borð í
skipi er eins og að ferðast án meðvitundar, án líkama, og á sama tíma er van-
máttur mannsins gagnvart t.d. veðurofsa, tilviljunum, fíknum og örlagavilja
æðri máttarvalda undirstrikaður, auk þess sem endurtekning gerir sögumann-
inn sjálfan tortryggilegan.
Annað sambærilegt dæmi um klifaðan texta er eftirfarandi lýsing þegar Karl,
mágur Jónasar, er kýldur í kviðinn og hann missir andann: „Það er eins og sálin
sofni og persóna mannsins yfirgefi drukkinn líkamann. Augun myrkvast og