Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Qupperneq 135
TMM 2007 · 4 135
U m r æ ð u r
legar vísur þegar þau eru glöð. Í greinarkorni mínu notaði ég áður óbirta vísu
Björns, þar sem hann formælir brúðkaupsdegi sínum, til þess að tengja saman
formælingu hans um ástlaus skylduhjónabönd í kvæði sem séra Bolli Gúst-
avsson gaf út undir titlinum Geig og Sumarnótt, sem munnmælin höfðu
löngum tengt við brúðkaup hans. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig er hægt
að neita að sjá þarna tengsl á milli skálds og ljóðs, en um það verður hver og
einn að hafa sína skoðun.
Hvort okkur finnast þessi tengsl svo skipta máli er auðvitað smekksatriði;
sumum finnst það, öðrum ekki. Jafnvel frá strangasta nýrýnisjónarmiði er þó
varla hægt að útiloka að þessi tengsl geti skipt máli um orðið „ég“ í 19. aldar skáld-
skap. Þegar Grímur Thomsen orti „Kalinn á hjarta þaðan slapp ég“, ætlaðist hann
þá ekki til þess að lesendur hans vissu frá hvaða konungshirð þessi „ég“ hafði
sloppið, hvenær og hvert? Sé svo er ævi Gríms Thomsen orðin hluti af merkingu
þessa „ég“ í kvæðinu, og lesendum ber að skilja það svo að það vísi til hennar.
Í grein minni hélt ég því fram að Sumarnótt séra Björns væri frumlegt verk
vegna þess að hann notaði alkunn tákn friðar og yndis, næturkyrrð, kvöldroða,
og sneri þeim upp í andhverfu sína. Til að andmæla þessu og sýna að Björn yrki
kvæðið inn í kveðskaparhefð tilfærir Örn nokkur dæmi úr kvæðum annarra
skálda þar sem lík náttúrufyrirbæri fái sama dapurlega tákngildið. Ekkert af
þessu kemur eiginlega í mál við mig. Það er auðvitað alkunna að náttúrleg
kyrrð, svo að ég haldi mig aðeins við hana, er alþekkt tákn friðsældar. Hér
nægir að benda á þekkta næturvísu eftir Goethe, Wanderers Nachtlied, sem
margir hafa spreytt sig á að þýða. Félagi okkar Arnar í íslenskum fræðum,
Þorleifur Hauksson, tíndi einu sinni saman sjö þýðingar á íslensku og eina á
færeysku.3 Svona er þýðing Helga Hálfdanarsonar:
Tign er yfir tindum
og ró.
Angandi vindum
yfir skóg
andar svo hljótt.
Söngfugl í birkinu blundar.
Sjá, innan stundar
sefur þú rótt.
Úr yngri kveðskap í rómantískri hefð má minna á þekkta vísu eftir Þorstein
Erlingsson:4
Nú máttú hægt um heiminn líða,
svo hverju brjósti verði rótt,
og svæfa alt við barminn blíða,
þú bjarta heiða júlínótt.
Hér vekur næturkyrrðin ekki aldeilis kvíða fyrir komandi degi. Vegna þessa,