Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Síða 136
136 TMM 2007 · 4
U m r æ ð u r
að kyrrð og einkum næturkyrrð var algengt tákn friðsældar í hugum fólks, er
það frumlegt sem séra Björn gerir úr næturkyrrðinni, jafnvel þótt finna megi
eitthvað svipað hjá einhverjum öðrum skáldum.
Þó reynist vera furðu djúpt á þessu svipaða í hefðinni. Ætla má að Örn hafi
leitað nokkuð rækilega að hliðstæðum við kyrrðarmynd Sumarnætur í róm-
antískum skáldskap Íslendinga, og því finnst mér merkilegt hvað dæmi hans
eru ólík henni. Í Haustvísu Gríms Thomsen titrar fölt lauf, vindur hvíslar;
þetta er ekki sumarnótt heldur forboði vetrar, eins og nafn ljóðsins sýnir líka.
Í kvæði Steingríms Thorsteinssonar, Á gangi fram með sjó, dynur súgandi
brim, og segl í fjarska hverfur jafnskjótt og það birtist. Hér er sannarlega engin
kyrrð. Aðeins í Kvöldi Benedikts Gröndal vottar fyrir því sama og hjá Birni.
Þar er nóttin óhugnanleg þótt ekki sé nema léttur vindur (en vindur þó), og
næturgalinn, alþekkt tákn ástar og yndis, syngur sorgarljóð. Ég get fallist á að
þetta sé frumlegt kvæði, þótt það sé ekki eins markvisst ort og Sumarnótt
Björns. Hins vegar nægir það ekki til að sýna að Björn hafi ort Sumarnótt svo
nákvæmlega inn í kveðskaparhefð að ástæðulaust sé að leita að rótum þess í
neinu öðru, enda sýnir Örn ekki fram á að Kvöld Benedikts hafi birst fyrr en
Sumarnótt. Mig skiptir það ekki svo miklu máli að ég leggist í könnun á því. Í
meginatriðum hefur Örn farið erindisleysu þegar hann leitar að fordæmum
eða hliðstæðum þess sem séra Björn segir í kvæði sínu, að næturkyrrðin stafi
af því að nóttin standi á öndinni af kvíða fyrir komandi degi. Þetta er ekkert
annað en hrein snilld.
Loks finnst mér allra fráleitast þegar Örn nefnir Gunnarshólma Jónasar til
að sýna að það hafi verið í tísku á dögum Björns að gera það sem ég kallaði að
„taka snilldarlega sveiflu með lesendur sína“ í skáldskap með því að segja
skyndilega og óvænt „ég“. Notkun Jónasar á fyrstu persónu fornafninu, „Hug-
ljúfa samt ég sögu Gunnars tel“, er gerólík því sem ég var að tala um. Björn
Halldórsson og Grímur Thomsen snúa öllu efni ljóðsins skyndilega upp á
„mig“, sem lesendur skilja sjálfsagt flestir svo að séu skáldin sjálf. En Jónas
stendur algerlega utan við söguna af Gunnari og leggur bara mat sitt á hana. Ef
hann hefði ort undir öðrum bragarhætti hefði hann alveg eins getað ort: „Hug-
ljúf Gunnars samt er saga“ án þess að „ég“ kæmi þar fyrir. Það hefði engu
breytt um merkingu kvæðisins.
Auðvitað er rétt hjá Erni að ég sanna ekki að óbeit Björns á hjónabandinu
stafi af því að hann hafi verið samkynhneigður. Rök Arnar gegn þeirri skoðun
eru einkum viðhorfskönnun á langgiftum vinum hans í Kaupmannahöfn sem
„voru nú ekki á því að samkynhneigð þyrfti til að formæla hjónaböndum, frek-
ar hitt. Og það er ekki óeðlilegt sjónarmið þar sem annaðhvert hjónaband
reynist skammært.“ Þessi könnun er illa marktæk einmitt vegna þess sem Örn
nefnir, að á 20. öld hefur fólk búið við uppleysanlegt hjónaband. Á 19. öld gerði
fólk það ekki og færðist því miklu meira í fang þegar það gekk í hjónaband en
við gerum nú á dögum. Hjónaskilnaðir voru að vísu til þá, en þegar staðtölur
um þá verða fyrst tiltækar, árið 1904, voru þeir sjö talsins, árið eftir fimm, og
að meðaltali 9,2 á ári fyrsta áratuginn.5 Líklega hafa skilnaðir verið ennþá