Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Qupperneq 2
2 TMM 2008 · 1
Frá ritstjóra
Gleðilegt ár, kæru lesendur! Viðbrögð við lokahefti 2007 voru mikil og góð, eink-
um við þemaefninu um Jónas Hallgrímsson og grein Jóns Karls Helgasonar. Sér-
stök ánægja var með grein Hallgríms Helgasonar um Gunnarshólma. „Hólmganga
Jónasar er góð,“ skrifar Kristinn Kristmundsson, „það er snjöll hugmynd hjá
skáldi að segja frá eigin ,,upplifun“ af listasmíð og lýsa þannig sjálfu sér í leiðinni.“
„Mest um vert þykir mér framlag Hallgríms,“ skrifar Guðmundur Andri, „glæsileg
grein sem verður lengi í minnum höfð og sýnir að enn eru á Íslandi menn sem
kunna og treysta sér til að skrifa um mikla ljóðlist.“ Og Dick Ringler, sem sjálfur
átti grein sem margir höfðu orð á, segir: „I enjoyed the essay by Hallgrímur Helga-
son and the fascinating piece by Jón Karl.“
Skáldskapurinn var líka til umræðu. „Þakka nú sérstaklega Heimi Pálssyni fyrir
að vekja athygli á Jóhanni S. Hannessyni sem gat leikið sér svo dátt að tvíræðni til
gamans að úr varð mikils háttar skáldskapur,“ skrifar Kristinn. „Og sérlega
ánægjulegt þótti mér að sjá prósaljóð eftir Óskar Árna sem er með helstu skáldum
okkar tíma,“ segir Guðmundur Andri, en Böðvar skrifar: „Ærið bestu skáldin voru
þeir nafnar, Jóhann Hjálmarsson og S. Hannesson.“ Kristín hafði falleg orð um
smásögu Arndísar Þórarinsdóttur í sínu bréfi og segir líka: „Peruvínið hans Braga
er gott og Berrassaði pylsusalinn dásamlegur. Ég er þó ekki viss um að ég fái mér
pylsu alveg á næstunni!“ Þetta nefndu fleiri.
„Þórarinn Hjartarson skrifar prýðilega grein þar sem hann minnir á hluti sem
brýnt er að halda á lofti,“ skrifar einn lesandi og annar bætir við: „kalda stríðinu
er greinilega ekki lokið.“
Bergsteini finnst „ritrýni Ingólfs Gíslasonar kallast skemmtilega á við ritrýni
Guðmundar Andra: sá fyrri bendir á að í Tryggðarpanti hefði glíman átt að vera
við hina „heilbrigðu skynsemi“, sem Guðmundur Andri bendir á að Sigurður
Pálsson einmitt bölvar og kallar eftir óheilbrigðri skynsemi.“ Óttar Norðfjörð var
ekki sáttur við umsögn Ingólfs um skáldsögu Auðar Jónsdóttur, finnst rithöfund-
ar í „ansi erfiðri og þröngri stöðu, að þurfa að vita upp á hár fyrir hvern/hvaða
markhóp hver bók er skrifuð, líkt og það sé yfirhöfuð hægt. Ótrúlegustu bækur
finna ótrúlegustu lesendur og það er ekki hægt að reikna það út fyrirfram.“
Margir nefndu deilur Gunnars Karlssonar og Arnar Ólafssonar um ljóðið
Sumarnótt eftir séra Björn í Laufási, til dæmis skrifar Guðmundur Andri: „Sérlega
skemmtileg þótti mér grein Gunnars um séra Björn. Þótt þar sé æði glannalega
túlkað og kenningin sennilega með öllu fráleit þá er svo margt í þessu í leiðinni að
það er eiginlega allt í lagi – svona á að skrifa um gamlar bókmenntir.“ Þess má geta
að þeir félagar hafa haldið áfram spjallinu í vefritinu Kistunni.
Einum lesanda fannst bútasaumsmyndin á kápunni helst til „seventies“, en
Kristín segir: „Kápumyndin finnst mér yndisleg. Ég er að hugsa um að ramma
hana inn og setja upp á vegg.“
Ég þakka styrktaraðilum TMM, Landsbankanum og Forlaginu, ómetanlegan
stuðning.
Silja Aðalsteinsdóttir