Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 5
TMM 2008 · 1 5
Emil Hjörvar Petersen
Vonlenskan sem framúrstefna
Hljómsveitin Sigur Rós hefur unnið stóra sigra í tónlistarheiminum og
heillað fólk um víða veröld. Söngtextar hljómsveitarinnar hafa þótt
frumlegir og einstakir, en stór hluti þeirra inniheldur engin skiljanleg
orð. Söngtextarnir eru á málleysu sem tengist hvorki íslensku né öðrum
tungumálum. Ef Sigur Rós semur söngtexta með skiljanlegum orðum
eru þeir á íslensku, en þeir óskiljanlegu hafa orðið fyrirferðarmeiri á
ferli hljómsveitarinnar og eru nú orðnir eitt helsta sérkenni hennar.
Málið á þessum textum gengur undir nafninu vonlenska.
Þó meðlimir Sigur Rósar séu ekki fyrstir íslenskra listamanna til að
nýta sér málleysu í listsköpun urðu þeir fyrstir til að leggja hana mark-
visst fyrir sig. Og vonlenskan er ekki einsdæmi þegar víðar er litið. Til
að mynda finnast málleysutextar í verkum ýmissa listhreyfinga á 20.
öld, einkum framúrstefnunum Dada og súrrealisma. Ætlun mín er að
sýna fram á að vonlenska sé framúrstefna með því að fjalla um inntak
hennar og hvernig hún snýr að þjóðfélagi samtíma síns. Varðandi inn-
takið sýni ég túlkunarferli vonlenskunnar meðal viðtakenda, þeirra sem
hlusta, skynja, upplifa og túlka texta og verk Sigur Rósar. Einnig sýni ég
fram á hvers konar viðbragð vonlenskan er við samtíma sínum, að
mestu með samanburði við Dada og súrrealisma. Fyrst er mikilvægt að
átta sig á hvers konar skáldskaparfyrirbæri vonlenskan er.
Saga og þróun vonlensku
Almennt er talið að vonlenskan hafi heyrst fyrst á fyrstu breiðskífu
Sigur Rósar, Von (1997), í samnefndu lagi, en reyndar má rekja sögu
hennar lengra aftur. Árið 1995 tók Jón Þór Birgisson söngvari Sigur
Rósar þátt í Músíktilraunum Tónabæjar ásamt hljómsveit sinni Bee
Spiders. Í umfjöllun í Morgunblaðinu um tilraunakvöldið skrifaði Árni
Matthíasson: „Þar fór efnilegasta hljómsveit kvöldsins, sérstaklega ef