Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 12
12 TMM 2008 · 1
E m i l H j ö r va r P e t e r s e n
Í viðbót má vitna í Chris Baldick sem segir að þeir sem aðhyllast fram-
úrstefnu í listum og skáldskap séu „listamenn og rithöfundar sem helga
sig hugmyndinni um að listir séu tilraunir og uppreisn gegn hefð“, og að
þeir hafi „skyldu að gegna að vera á undan samtíma sínum með stöð-
ugum nýjungum í formi og inntaki.“14 Enn má nefna að uppreisn eða
atlaga gegn tungumálinu virðist nánast undantekningarlaust loða við
skáldskap sem kenndur er við framúrstefnu. Vonlenskan er þess vegna
framúrstefna þegar kemur að inntaki textans, hinum ótæka málleysu-
texta. En til að geta talist til fullgildrar framúrstefnu verður vonlenskan
einnig að vera uppreisn gegn hefðinni og viðbragð við ríkjandi gildum
samtíma síns. Með viðbragði er meðal annars átt við atlögu að borgara-
legum gildum og aðgreiningu frá spilltum lífsháttum samtímans, eins
og Bürger nefnir. Til að færa rök að þeim þætti framúrstefnuhlutverks
vonlenskunnar er nauðsynlegt að gera samanburð við annars konar
málleysutexta eldri framúrstefna.
Dada varð til fyrir áhrif fyrri heimsstyrjaldarinnar. Takmark Dada
var að rífa niður listina og þá menningarvitund sem áhangendur töldu
að væri sýkt af fyrri hefð, en boðuðu ekkert nýtt í staðinn; tungumálið
væri úrkynjað, spillt og merkingarsnautt. Allt sem áður hafði verið
skapað af manninum, hvort sem það tengdist listum eða vísindum,
hafði gert hann að ófreskju, sem mátti sjá á því hvernig veröldin var
orðin á tímum stríðsins. Dada var hrátt viðbragð við breyttri heims-
mynd.
Hreyfingin hóf (and)sköpun sína í textagerð, einkum í leikritun og
ljóðagerð. Aðalforsprakkinn, Hugo Ball (1886–1927), orti merkingarlaus
hljóðaljóð (þ. Lautgedicht) og flutti þau með tilþrifum; upplifun á text-
anum skipti meginmáli, ekki inntak eða túlkun. Ef einhver merking tók
að myndast úr textunum út frá viðtökum voru þeir endurskrifaðir. Eitt
af þekktari hljóðaljóðum Balls heitir „Karawane“ (1916):
jolifanto bambla o falli bambla
großiga m’pfa habla horem
egiga goramen
higo bloiko russula huju
hollaka hollala
anlogo bung
blago bung blago bung …15
Hljóðaljóð Dada voru málleysur rétt eins og vonlenskan. Nafnið á hreyf-
ingunni er einnig málleysa og höfðu Dadamenn mikið fyrir því að endur-