Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Side 20
20 TMM 2008 · 1
Th o r Vi l h j á l m s s o n
súlum brims upp um bergið. Mér skaut upp úr minnisdjúpi svo ég
mætti sitja fyrir á hlein undir þeim fyssandi sjávarhömrum, þegar
þú skyggndist þangað.
Hafgúa II: Setur að mér klökkva. þá er hugsa ég til þín systir.
Sem harmar alla daga hann. Sem leikfýsandi hugur færir í ýmsar
myndir. Og vefur angurværri skreytni svo hann komi ekki of
nærri. Sá sem hann var í reynd og tók af þér völd.
Hafgúa I: Greiddu heldur hár mitt systir. Sem svo kallar þig nú.
Meðan þú hjalar við fugl í silfurteinabúri. Teygðu með mér lokka
mína allan veg niður í fjöru. Og út í öldu sem brotnar við naktar
tær, og lakkið springur eins og rauður belgur á beri sem velkist í
þessu falli. Að ég fái þá sjálf óhuggandi séð hár mitt lengjast laugað
þessari hrynjandi öldu, og togast mína eigin lokka með útsogi í átt
til hans, sem er nú óðum í þeim atlotum að verða diktur einn. Og
nánast myndfrymi í eimi húms þegar glataður dagur þéttist í aðför
kveldsins. Og færist mér svofarið í fang. Og hverfur sem sviði í
skaut mér. Sem aldrei framar fæ svalað þrá, án tára. Sem renna
eftir þeim ómþyrstu strengjum af ofteygðum lokkum í mánagliti
nýju út í sæ, salttærðar perlur, sem enginn tekur áður á fingur
sér.
Marmennill: Lifi ég þá annar í minni þér? Hverfull í ljósaskift-
um? Vakinn af skáldkenjum saknaðar þíns, þrár, og eigingirni? Í
ofríki fýsna þinna. Sem myndbreyta mér ótt. Heldur en hafa ekki
neitt að spenna.
Hafgúa I: Nei, þú ert í valdi mínu. Ég held þér föstum. Svo þú
kemst ekki burt. Getur ekki horfið. þó þú týnist aftur og aftur, og
aftur.
Marmennill: Hví geymirðu mig í söltum sjó? Og hefur sökkt
mér þangað. Til að hafa mig vísan þar. Og kalla mig þaðan með
vísindum nauðsynjar þinnar. Og stendur sjálf á strönd gúa, og
hefur týnt sundfærum sem hafðir eitt sinn úr djúpi við missi
þinn.