Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 26
26 TMM 2008 · 1
Steinar Bragi
Þorpið á botni vatnsins
Einu sinni var þorp á fjarlægri strönd. Lífið í þorpinu gekk sinn
vanagang þar til einn daginn að jörðin undir því titraði og þorpið
fór á bólakaf í vatn sem flæddi yfir húsin og göturnar. Kannski
gerðist eitthvað djúpt ofan í jörðinni sem olli því að landið sökk,
eða litla jarðflísin sem þorpið stóð á brotnaði og seig ofan í hafið,
kannski vegna óþreyju einhvers guðs yfir tilþrifalitlu og leiðinlegu
þorpslífinu, kannski bara af tilviljun. En hver sem ástæðan var
fylltist þorpið af vatni og næstum allir íbúar þess drukknuðu.
Eftir flóðið reis bráðum nýtt þorp á nýja vatnsbakkanum, byggt
af íbúunum úr gamla þorpinu sem komust af, og þar á meðal var
lítil stelpa sem hét Alda. Sumir segja að Alda litla hafi ekki verið í
þorpinu þegar flóðið kom og hafi setið yfir geitum uppi í fjöllum;
aðrir segja að litla trérúmið sem hún svaf á hafi bjargað henni og
hún hafi flotið sofandi upp um skorsteininn, eða út um glugga, og
þegar hún vaknaði hafi þorpið hennar verið horfið.
Hvað sem öðru líður er víst að Alda litla missti allt sem hún átti.
Mömmu sína og pabba, systkini sín og vini sína og dótið sitt og
geiturnar, allt lífið hennar hvarf á einni nóttu en samt var hún lif-
andi. Mikið var lífið skrýtið.
Í nýja þorpinu voru margir af þeim sem höfðu verið vondir í
gamla þorpinu. Alda skildi ekki af hverju guð hafði leyft svona
mörgum af þeim vondu að lifa þegar góða fólkið dó, samt varð hún
einhvern veginn að bjarga sér og eiga fyrir mat og húsaskjóli og
þess vegna gerðist hún búðarstelpa hjá vondum manni sem seldi
veiðarfæri og beitu þeim sem veiddu fisk í hafinu. Á kvöldin söfn-
uðust fiskimennirnir í skúr á bak við búðina og karlinn seldi þeim
brennivín, en Alda hjálpaði til við að þvo glös og diska og þrífa