Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Síða 32
32 TMM 2008 · 1
S t e i n a r B r a g i
Það var samt eiginlega fyndið hvernig gæsahúð var. Hún hló innan
í sér. Hún hugsaði um sólina og hvernig lífið var uppfullt af litum
þegar hún var yngri og átti mömmu og pabba og hljóp um göt-
urnar í þorpinu og hvað presturinn var góðlegur þegar hann flutti
messurnar sínar.
Henni fannst eins og tröppurnar væru endalausar. Tímaglasið
tæmdist þrisvar sinnum án þess að þær enduðu, en smám saman
þokaðist hún neðar, hring eftir hring, þar til hún kom fyrir síðustu
beygjuna. Hún fann gleðina og spenninginn hamast í brjóstinu og
stökk yfir neðsta þrepið, inn á gólf og stóð frammi fyrir lokuðum
dyrum sem hlutu að liggja inn í kirkjuna sjálfa.
Alda gekk að dyrunum. Skyndilega datt henni í hug að þótt
turninn væri tómur af vatni væri samt ekki víst að kirkjan væri
það líka. Hún lagði eyrað að hurðinni og hlustaði. Henni fannst
eins og hún heyrði lágt suð, eins og kom þegar eyrun á henni voru
full af vatni. Hún vildi ekki drukkna. Þú verður að trúa, hugsaði
hún svo og fann hvernig hún sperrtist upp af hugrekki, og áður en
hún vissi hafði hún þrifið í hurðarhúninn og dregið hann til sín.
Dyrnar opnuðust með ískri.
Ekkert vatn.
Alda steig inn í kirkjuna. Allt í kringum hana var lágt suðið í
stórum geimi kirkjuskipsins og ljómandi birta, rauð, blá, græn og
hvít frá sólinni sem skein gegnum vatnið og inn um gluggana ofan
við altarið og meðfram veggjunum. Hún reigði höfuðið afturábak,
sneri sér hægt í hringi og horfði upp í fegurð ljósanna. Þegar fisk-
arnir syntu framhjá utan við gluggana sá hún skugga þeirra og
skuggarnir vörpuðust á gólf kirkjunnar og altarið og allt ljómaði.
Hún hafði aldrei séð neitt jafn fallegt.
Hún gekk lengra inn í kirkjuna, inn í litina og syndandi skugga
fiskanna. Uppi á altarinu var Jesú á krossinum sínum. Andlit hans
var friðsælt; augun voru hálfopin og horfðu niður af krossinum til
Öldu og við fætur hans voru kerti í stjökum. Hún gekk upp að alt-
arinu og notaði eldspýturnar sínar til að kveikja á kertunum.
Þræðirnir voru rakir og erfitt að kveikja í þeim en það hafðist á
endanum. Hún settist á einn af trébekkjunum fremst í kirkjunni.
Kertin brunnu þráðbeint upp í loftið og vörpuðu hlýlegri birtu á
andlit Jesú. Alda ímyndaði sér að Jesú þætti gott að finna aftur til