Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 34
34 TMM 2008 · 1
S t e i n a r B r a g i
láku úr augunum og niður eftir kinnunum, og þegar hún sá þján-
inguna í andliti Jesú varð hún köld innan í sér.
Hún sneri sér við, flýtti sér burt frá altarinu og varð skyndilega
svo óþolinmóð og hrædd og vissi ekki lengur hvað hún var að gera
þarna niðri og ákvað með sjálfri sér að taka pokann sinn og snúa
aftur upp á yfirborðið þar sem sólin skein. Þarna niðri var dimmt
og kalt og ónotalegt og engin lifandi manneskja átti að vera
þarna.
Hvíslið kom ekki frá altarinu heldur frá hinum enda kirkjunn-
ar, þar sem stóru dyrnar voru sem gengið var inn um þegar farið
var í messu. Alda starði út eftir kirkjunni, yfir tómar bekkjarað-
irnar á dyrnar sem voru það eina sem skildi á milli hennar og
vatnsins fyrir utan. Einhver hvíslaði nafnið hennar. Hún þekkti
röddina. Skref fyrir skref fikraði hún sig nær dyrunum og hvíslið
varð greinilegra. Raddirnar voru margar. Foreldrar hennar og
systkini voru þarna, og Jósa vinkona hennar og gamli karlinn á
bekknum sem klappaði henni og gaf henni alltaf brjóstsykur. Allir
voru þarna! Allar raddirnar úr þorpinu hvísluðu til hennar hinum
megin við dyrnar og hún hrópaði upp yfir sig:
Heyriði! Þetta er ég! Mamma! Pabbi! Þetta er ég, Alda! Hún
hljóp af stað yfir gólfið og raddirnar urðu sífellt háværari, þær
hrópuðu á hana að koma til sín og hún fleygði sér á dyrnar og
þrýsti sér upp að þeim, kyssti þær og faðmaði og klemmdi eyrað
upp að þeim og byrjaði svo að gráta líkt og Jesú á altarinu.
Ég er hérna, heyriði! Ég er hérna líka! hrópaði Alda. Við erum
öll hérna og það er allt í lagi!
Hún heyrði mömmu sína hvísla að hún ætti að opna dyrnar og
pabbi hennar hvíslaði líka að hún ætti að opna og bráðlega voru
allar raddirnar farnar að hvísla í kór að hún ætti að opna dyrnar
og koma til þeirra, en hún gat ekki opnað, af hverju vildu þau að
hún kæmi til þeirra? hún gat það ekki, hún vildi koma til þeirra en
samt vildi hún ekki deyja. Hún gat ekki opnað dyrnar!
Alda litla grét og lamdi hnefunum sínum eins fast og hún gat í
dyrnar og höggin bergmáluðu um kirkjuna og svo byrjaði hún að
toga í hárið á sér og lemja höfðinu í dyrnar. Hún vildi ekki deyja
og hún vildi ekki heyra raddirnar en samt vildi hún það og hún gat
ekki farið!