Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 42
42 TMM 2008 · 1
M a g n ú s S i g u r ð s s o n
v
„Ljóðlist er tungumál hlaðið merkingu.“ „Að yrkja er að þétta“ („dichten
= condensare“, Ezra Pound, úr ABC of Reading).
vi
Aðfaraorð ljóðabókar Ingibjargar Haraldsdóttur Höfuð konunnar eru ann-
ars vegar hin kunna ljóðlína Sigfúsar Daðasonar „Mannshöfuð er nokkuð
þungt“, hins vegar frásögn Egils sögu af fundi höfuðkúpu Egils og hversu
þung hún reyndist. Upphafslína ljóðsins „Höfuð konunnar“ kallast því á
við tilvitnanirnar tvær sem fylgja bókinni úr hlaði og stangast á við þær:
Höfuð konunnar er ekki þungt
Höfuð konunnar er
mjallhvítur
dúnmjúkur
hnoðri
Höfuð konunnar siglir
á skærbláum sunnudagshimni
og hlær
o.s.frv. Ljóð Ingibjargar er „tungumál hlaðið merkingu“, en þegar tungu-
mál þess og merking er umskrifuð, þá gerist þetta:
Höfuð konunnar er nokkurs konar táknmynd hennar sjálfrar í ljóðinu. Að Ingi-
björg skuli velja höfði konunnar en ekki líkama hennar slíkt hlutverk fangar
svo að mörgu leyti kjarna ljóðsins, en það má öðrum þræði lesa sem einhvers
konar samanburð höfundar á karli og konu með tilliti til hinnar gamalkunnu
aðgreiningar vestrænnar menningar milli konunnar sem líkama og náttúru
og karlmannsins sem birtingarmyndar skynsemi og hugsunar. Það sem einnig
virðist liggja ljóðinu til grundvallar er mismunandi staða karl- og kvenskálda
með tilliti til bókmenntahefðarinnar. Þannig tekst ljóðið á við þann vanda sem
femínískar bókmenntarannsóknir hafa sýnt að kvenkyns rithöfundar og les-
endur (og konur yfir höfuð ef því er að skipta) þurfa að búa við: að feðraveldið,
hin ráðandi menning karlmannsins og hin ráðandi karllæga bókmenntahefð
hefur gert það að verkum að konur hafa ekki átt annarra kosta völ en samsama
sig hugsunarhætti karlmannsins, sjónarhorni hans og gildum. Ljóð Ingibjarg-
ar, sem við fyrstu sýn virðist aðeins leikur skáldkonunnar að myndum, er því
margræðara en einfalt yfirborð þess ber með sér.