Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 43
TMM 2008 · 1 43
N í u a ð f e r ð i r v i ð f u g l a s k o ð u n
Og höfundur þessa kommentars á „Höfuð konunnar“ heldur áfram á
sömu nótum:
Samkvæmt Aristótelesi binst konan náttúrunni með líkama sínum. Náttúru-
leiki konunnar stendur í andstöðu við skynsemi og hugsun karlmannsins sem
býr í höfðinu, en slíkri eðlishyggju hafna femínískar bókmenntarannsóknir og
mótmæla. Að sama skapi má ætla að í fyrsta hluta ljóðsins felist gagnrýni höf-
undar á að enn megi sjá merki þessarar ævafornu aðgreiningar, til að mynda í
þrautseigum áherslum samfélagsins á líkama og náttúruleika konunnar. Öllu
áhrifaríkari er þó gamansemi ljóðsins með tilliti til aðfaraorða þess – höfuð
konunnar, til móts við höfuð karlmannsins, reynist svo fjaðurlétt að það svífur
á himninum. Þungar hugsanir Sigfúsar sem hann og kynbræður hans hafa þurft
að burðast með, arfur genginna kynslóða, íþyngja höfði konunnar ekki hætis-
hót, enda er það ekki hluti hinnar karllægu bókmenntakanónu.
Nokkru síðar kemur höfundur sér svo að kjarna greiningarinnar:
Í sjöunda hluta ljóðsins er sólin [sem höf. hefur áður fært rök fyrir að sé tákn
karlmannsins í ljóðinu] hnigin til viðar en blindfullt tunglið komið á stjá. Að
sama skapi hefur færst fjör í höfuðið á ný og virðist „la luna“, tunglið (andstæða
sólarinnar og því ef til vill einhvers konar tákn konunnar) og kvöldrökkrið
eiga sinn þátt í því. Ekki að ósekju koma orð Snæfríðar Íslandssólar um „vett-
váng dagsins“ upp í hugann: „Vettvángur dagsins er ekki minn staður, þar ríkja
sterkir menn, sumir með vopn, aðrir með bækur, sagði stúlkan. Þeir kalla mig
hið ljósa man og segja þitt ríki er nóttin.“ En þessi dulda tilvísun í Íslandsklukku
Laxness fangar meginviðfangsefni ljóðsins eins og það er skoðað hér: tilvísunin
rennir stoðum undir þá túlkun að í ljóðinu felist samanburður á stöðu karls og
konu, bæði í menningarlegum sem og bókmenntalegum skilningi. Vettvangur
dagsins er þar sem sterkir menn ríkja, sumir með vopn, aðrir bækur. Hér mælir
Ingibjörg sig því á nýjan leik við hefðina, rétt eins og hún hefur áður gert með
tilvísunum sínum til Sigfúsar og Eglu, og aftur hittir hún fyrir þungt hugsandi
menn sem knýja konuna til að leita eigin leiða – finna eigið ríki – sem við höfum
þó séð að getur reynst henni erfitt þegar vörðurnar [fyrri skáldkonur og verk
þeirra] eru fáar.
Að í ljóði Ingibjargar felist „samanburður á stöðu karls og konu, bæði í
menningarlegum sem og bókmenntalegum skilningi“ er ekkert nýmæli.
En einhvern veginn þarf að koma orðum að því.