Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Síða 48
48 TMM 2008 · 1
K a t r í n J a k o b s d ó t t i r
segir: „Mamma hennar dó meðan Lína var ennþá ofurlítill angi sem lá í
vöggunni sinni og grenjaði svo voðalega að enginn þoldi við nálægt
henni.“ (7) Lesandi heyrir í anda öskrin og gæti jafnvel freistast til að
draga þá ályktun að mamman hafi hreinlega dáið af hávaða frá þessu
voðalega villibarni. Eigi að síður elskar Lína mömmu sína, sér hana fyrir
sér sem engil sem kíkir niður um gægjugat á himninum til að gá hvort
litla stelpan hennar spjari sig ekki.
Í raun er ekki að undra að Lína sé óttalegt villibarn, alin upp á sjó
með vafasömum skipverjum Langsokks skipstjóra sem minna meira á
sjóræningja en venjulega sjómenn, og með móður sem kannski er ekki
aðeins engill á himnum og þar af leiðandi fjarverandi en hefur einnig
ímynd engils í huga dóttur sinnar. Að minnsta kosti útskýrir Lína villi-
mannslegan persónuleika sinn sjálf á þennan hátt þegar kennslukonan
sendir hana heim úr skólanum eftir heldur betur ævintýralegan dag:
„Sjáðu til, kennari. Þegar maður á mömmu sem er engill og pabba sem
er svertingjakóngur og þegar maður hefur sjálfur siglt um heimshöfin
alla sína ævi, þá veit maður ekki almennilega hvernig maður á að hegða
sér í skóla innan um öll þessi epli og orma.“ (43)
Þetta öskrandi ungabarn, engill alinn upp af sjóræningjum, er sem
sagt orðið að lítilli stelpu með rauðar beinstífar fléttur og í allt of stórum
skóm. Kjólinn sinn hefur hún saumað sjálf en þar sem bláa efnið entist
ekki í heilan kjól má sjá rauðar bætur hér og þar á kjólnum. Og þá eru
ónefndir sokkarnir löngu og mislitu eða risastórir skórnir sem Lína
hefur svo stóra af ásettu ráði til að geta teygt úr tánum. Þessi litla stelpa
flytur inn á Sjónarhól og vekur auðvitað strax athygli nágranna sinna,
systkinanna Tomma og Önnu. Þekkt er í ýmsum gerðum bókmennta að
skrýtna persónan þarf mótvægi í ofur eðlilegu fólki. Þannig verður
skrýtni hennar enn meira áberandi og lesendur eða áhorfendur eru
minntir á hversu furðuleg viðkomandi persóna er. Tommi og Anna
skapa einmitt slíkt mótvægi þar sem þau eru vel uppalin börn sem hefur
verið kennt á siðmenninguna meðan Lína hefur eytt dögum sínum í að
sigla um Suðurhöf, fjarri allri venjulegri siðmenningu.
II. Siðmenningunni storkað
Svo fer hins vegar ekki í Línu Langsokk að villimennskan láti undan
kröftum siðmenningar og Lína lúti í lægra haldi fyrir hefðbundnum
gildum. Villimennska Línu verður sterkasta vopn hennar í sögunum og
sú villimennska er það sem enn dregur lesendur að bókunum, 60 árum
eftir að sú fyrsta þeirra kom út.